Fréttir og tilkynningar

Töfralandið eftir nemendur í 6. bekk í handritakeppni hjá Árnastofnun. - 21. apríl 2021

Handritasamkeppni Árnastofnunar var haldin í samstarfi við Sögur- verðlaunahátíð barnanna í tilefni af því að 21. apríl 2021 voru liðin 50 ár frá því að fyrstu handritin komu heim frá Danmörku.
Hátt í hundrað handrit bárust í keppnina. Dómnefnd sem skipuð var þeim Gísla Sigurðssyni, Arndísi Þórarinsdóttur og Goddi tók til starfa í byrjun apríl og skoðaði handrit frá grunnskólanemum víðs vegar að af landinu. Þrettán handrit voru valin og eitt af þeim er teiknimyndasagan Töfralandið eftir þá Dawid, Ðuro, Hilmar, Jakob og Jóhann í 6. bekk.  Hér má sjá nánari umfjöllun sem og þær bækur sem unnu til verðlauna https://hirslan.arnastofnun.is/  Til hamingju strákar.   

4. S með sýningu í Nýheimum - 26. mars 2021

Undanfarnar vikur hafa nemendur í 4.S í grunnskólanum verið að vinna verkefni um íslenska þjóðhætti í samfélagsfræði. Börnin eru búin að fræðast mikið um gömlu mánuðina og lífið í gamla daga. Við fengum heimsókn frá Menningarmiðstöðinni þegar hún Eyrún Helga kom og sýndi okkur gamla muni, við höfum einnig nýtt okkur Gömlubúð til kennslu og unnið ýmis verkefni þar. Börnin hafa einnig horft á þættina um bræðurna Nonna og Manna og þannig náð enn betur að sjá hvernig lífið var á Íslandi á þessum tíma. Nú hefur verið sett upp sýning á verkefnum barnanna á bókasafninu í Nýheimum og hvetjum við alla til þess að fara og skoða verk barnanna. Sýningin mun hanga uppi fram yfir páska.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar - 10. mars 2021

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk fór fram í Djúpavogskirkju 10. mars og kepptu þar 9 nemendur frá Grunnskóla Hornafjarðar og 6 nemendur frá Djúpavogsskóla. Keppnin var hörkuspennandi að vanda og áttu dómarar erfitt með að velja sigurvegara. Fyrstu þrjú sætin fóru til;

1. sæti, Fabian Szczepanek Djúpavogsskóla.

2. sæti, Solyana Natalie Felekesdóttir Grunnskóla Hornafjarðar.

3. sæti, Heiðdís Lóa Egilsdóttir Djúpavogsskóla.

Fréttasafn