Fréttir og tilkynningar

4. S með sýningu í Nýheimum - 26. mars 2021

Undanfarnar vikur hafa nemendur í 4.S í grunnskólanum verið að vinna verkefni um íslenska þjóðhætti í samfélagsfræði. Börnin eru búin að fræðast mikið um gömlu mánuðina og lífið í gamla daga. Við fengum heimsókn frá Menningarmiðstöðinni þegar hún Eyrún Helga kom og sýndi okkur gamla muni, við höfum einnig nýtt okkur Gömlubúð til kennslu og unnið ýmis verkefni þar. Börnin hafa einnig horft á þættina um bræðurna Nonna og Manna og þannig náð enn betur að sjá hvernig lífið var á Íslandi á þessum tíma. Nú hefur verið sett upp sýning á verkefnum barnanna á bókasafninu í Nýheimum og hvetjum við alla til þess að fara og skoða verk barnanna. Sýningin mun hanga uppi fram yfir páska.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar - 10. mars 2021

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk fór fram í Djúpavogskirkju 10. mars og kepptu þar 9 nemendur frá Grunnskóla Hornafjarðar og 6 nemendur frá Djúpavogsskóla. Keppnin var hörkuspennandi að vanda og áttu dómarar erfitt með að velja sigurvegara. Fyrstu þrjú sætin fóru til;

1. sæti, Fabian Szczepanek Djúpavogsskóla.

2. sæti, Solyana Natalie Felekesdóttir Grunnskóla Hornafjarðar.

3. sæti, Heiðdís Lóa Egilsdóttir Djúpavogsskóla.

Verðlaunaafhending í beinni á Rúv. - 9. mars 2021

Sökum ástandsins í þjóðfélaginu gátum við Grunnskóla Hornafjarðar ekki haldið okkar árlegu árshátíð og því ákváðum við kennarar í 4.,5. og 6. bekk að blanda bekkjunum okkar saman og bjóða upp á skemmtilegar smiðjur sem við kölluðum Söguhátíð. Smiðjurnar fólust í því að börnin gátu valið á milli leikritagerðar, smásögugerðar, stuttmyndagerðar, myndasögugerðar og smiðju þar sem þau sömdu lag og texta. Hugmyndirnar af verkefnunum fundum við inni á krakkaruv.is og ákváðum við að gera mikið úr þessu verkefni okkar og senda handrit barnanna á krakkaruv.is sem stóð fyrir samkeppni um bestu handritin og er skemmst fá því að segja að tvö verkefni frá okkur hlutu viðurkenningu. Handrit stuttmyndarinnar Hvít spor eftir þá Ara Jökul, Kristinn Loga, Sigurð Arnar og Þór í 4. S vann í flokki stuttmynda og fengu drengirnar að fara til Reykjavíkur í lok febrúar til að fylgjast með tökum á stuttmynd eftir handritinu þeirra og verður stuttmyndin sýnd á krakkarúv. Þann 5. júní fara drengirnir svo aftur til Reykjavíkur og taka á móti verðlaunum fyrir besta stuttmyndahandritið í beinni útsendingu á Rúv. Það er því um að gera að fylgjast vel með sjónvarpinu næstu vikur.

Fréttasafn