Fréttir og tilkynningar

Háalda

Kennsla í Heppuskóla á morgun - 29. september 2020

Eðlilegt skólastarf verður á eldra stiginu, Heppuskóla á morgun og þar með í öllum skólanum. Langflestir kennararnir hafa fengið niðurstöður og allir verið neikvæðir hingað til og þeir nemendur sem frést hefur frá fengu líka neikvæðar niðurstöður. Vonandi verða áframhaldandi niðurstöður á sama veg.

Starfsfólk heilsugæslunnar sagði að það hefði verið með eindæmum gaman að skima nemendur í morgun, þeir hefðu staðið sig miklu betur en starfsfólkið sem þurfti sumt að kvarta yfir meðferðinni. Þetta kemur samt ekki á óvart því krakkarnir okkar eru hörkuduglegir og mikið óskaplega verður gaman að hittast aftur í "kjötheimum". 

Eðlilegt skólastarf í 1. - 6. bekk á morgun - 28. september 2020

Skimanir hjá starfsfólki komu vel út í dag og verður skólastarf því með eðlilegum hætti í Hafnarskóla, 1. - 6. bekk á morgun þriðjudag. Þar sem kennara sem fóru í skimun verða með grímur í kennslu út vikuna er gott að foreldrar ræði grímur við yngri börnin ef þeim skyldi þykja óþægilegt að sjá kennarana sína með grímur. Kennarar sem fóru í skimun eiga áfram að vera í smitgát en mega mæta í vinnu, fara í búð og annað slíkt en sleppa öllum óþarfa. Grímuskyldan er fyrst og fremst til að tryggja öryggi annarra og gæta ítrustu varúðar. Athugið að grímuskyldan nær ekki til nemenda sem hafa farið í skimun.

Á morgun munu nemendur og starfsmenn af eldra stigi fara í sýnatöku og vonandi kemur hún jafnvel út. Stefnt er að því að skólastarf á eldra stigi, 7.-10. bekk í Heppuskóla verði með eðlilegum hætti frá og með miðvikudegi. 

Vestragil í Bæjarstaðskógi

Fámennt í skólanum í dag - 25. september 2020

Það var rólegt yfir skólanum í dag.  Einungis nokkrir starfsmenn voru mættir og enginn nemandi. Þegar leið á daginn fór þó að sjást til eldri nemenda sem fengu að skjótast inn í skólann og sækja námsbækurnar sínar enda ljóst að þeir verða í fjarnámi fram eftir næstu viku eða þar til kennarar fara að tínast úr sóttkví. Fyrstu kennararnir gætu mætt á miðvikudag ef þeir fá neikvæðar niðurstöður og á fimmtudag ætti að vera full kennsla ef allt fer að óskum.

Fréttasafn