Eineltisáætlun

Einelti er ekki undir nokkrum kringumstæðum liðið í Grunnskóla Hornafjarðar

Í skólanum er unnið út frá eineltisstefnu Sveitarfélagsins Hornafjarðar þar sem fram koma markmið stefnunnar, skilgreiningar, upplýsingar um tilkynningaleiðir, hlutverk eineltisteymis og verklagsreglur. Þessu til viðbótar hefur skólinn gert eineltisáætlun fyrir starfsmenn, nemendur og foreldra til þess að vinna eftir um það hvernig megi koma í veg fyrir einelti og hvernig eigi að bregðast við þegar einelti kemur upp.   

Eineltisáætlun skólans

Einelti er skilgreint sem endurtekið óþægilegt og meiðandi áreiti eins eða fleiri einstaklinga sem beinist gegn ákveðnum einstaklingi sem á erfitt með að verja sig. Áreitið gerist nokkrum sinnum í mánuði, nokkrum sinnum í viku eða oftar og einkennist af ójafnvægi í völdum eða kröftum. Skilgreining á einelti sem notuð er í skólanum er;

Einelti er ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.

Í einstaka tilfellum getur reynst erfitt að skera úr um hvort stríðni er um að ræða eða einelti. Venja er að telja ærslafullan leik eða stríðni í vingjarnlegum tón ekki sem einelti.

Mikilvægt er að láta vita ef grunur leikur á að um einelti sé að ræða. Þá fer af stað mun formlegra ferli og ítarlegri vinna en ef unnið er með stríðni eða einhverskonar erjur. Þá er fólk beðið um að skrifa niður þær upplýsingar sem það hefur og skólinn skuldbindur sig til að fylgja málinu eftir. Hægt að nálgast eyðublað til að tilkynna einelti  á heimasíðu skólans á slóðinni  Tilkynning um einelti.   Eyðublaðið er einnig hægt að nálgast hjá riturum skólans. Einelti er líka hægt að tilkynna beint til skólastjóra, deildarstjóra eða námsráðgjafa. Munið svo að alltaf er hægt að hafa samband ef einhverjar áhyggjur vakna og ræða við umsjónarkennara eða stjórnendur.

Ljosmyndir_006_vef

Skipulag

Til að vinna gegn einelti hefur ákveðnu skipulagi verið komið á í skólanum. Það felst m.a. í því að kanna reglulega viðhorf nemenda, foreldra og starfsmanna en einnig að vinna með forvarnir innan skólans gegn einelti og gera áætlun um hvernig unnið er með einelti þegar það kemur upp.

Kannanir

 • Á hverju ári skal lögð fyrir nemendur könnun um líðan þeirra í skóla og hvort einelti sé í skólanum.
 • Á hverju ári skulu könnuð almenn viðhorf nemenda til skólans.
 • Kanna skal viðhorf starfsmanna til skólans.
 • Kanna skal viðhorf forráðamanna nemenda til skólans með reglubundnum hætti.

Uppeldi til ábyrgðar

Haustið 2007 var haldið námskeið fyrir starfsfólk Grunnskóla Hornafjarðar um uppeldisstefnuna Uppeldi til ábyrgðar og í framhaldi af því var sú stefna tekin upp í starfi grunnskólans. Þessi stefna hefur síðan mótað þá vinnu er varðar agamál og samskipti. Hugmyndafræðin hefur áhrif á kennsluhætti, stjórnunarhætti, áherslur í lífsleiknikennslu og ekki síst meðferð á agamálum. Markmið stefnunnar er að gefa nemendum kost á að taka sjálfstæðar og siðferðislegar ákvarðanir varðandi eigin hegðun og ýta undir ábyrgðarkennd og sjálfsstjórn barna og unglinga. Vinnuaðferðin leggur áherslu á að starfsmenn skólans sammælist um skýrar reglur um óásættanlega hegðun og þrói samstilltar leiðir til að fylgja þeim eftir. Það er sérstaklega mikilvægt að allt starfsfólk sé sammála um að einelti sé ekki undir nokkrum kringumstæðum liðið í skólanum.

Eineltisteymi

Við skólann starfar eineltisteymi sem skipað er skólastjórnendum og náms- og starfsráðgjafa. Þegar eineltismál koma upp þá vinnur eineltisteymið með umsjónarkennurum þeirra nemenda sem um ræðir. Teymið heldur utan um vinnu gegn einelti og vinnur með umsjónarkennurum við að taka á eineltismálum þegar þau koma upp. Teymið leitar eftir aðstoð utan skólans þegar þurfa þykir.

Forvarnir og fræðsla

Vinna með starfsfólki skólans

Í upphafi hvers skólaárs er farið yfir skólareglur grunnskólans sem miða að því að auka öryggi nemenda og skilgreina skýr mörk um hegðun og framkomu.

 • Starfsfólk skólans er upplýst um hvernig einelti getur birst og afleiðingar þess fyrir þolendur og gerendur.
 • Starfsfólk skólans fær tækifæri til þess að ræða saman um einelti, framkomu við nemendur, viðbrögð við agavandamálum og fleira.
 • Upplýsingar og fræðsluefni um einelti er aðgengilegt fyrir starfsfólk.
 • Boðleiðir innan skólans eru skýrar þegar upp koma upplýsingar um einelti, hvort heldur sem er frá nemendum, foreldrum eða starfsfólki og starfsfólk skólans er meðvitað um það vinnuferli sem fer í gang ef grunur um einelti kemur upp.

Vinna með nemendum

Með aukinni fræðslu um eineltismál aukast líkur á að þolandi og jafnaldrar láti fljótt vita af einelti. Einn mikilvægasti þáttur í eineltisvinnu eru forvarnir með nemendum þar sem áhersla er lögð á að fræða nemendur um einelti og afleiðingar þess. Þessi vinna er unnin með hliðsjón af Uppeldi til ábyrgðar þar sem megináhersla er lögð á að styrkja einstaklinginn í að vera sá sem hann vill vera með hliðsjón af eigin sannfæringu frekar en að stjórnast út frá geðþótta annarra. Þannig er hægt að virkja nemendur til þess að taka afstöðu gegn eineltinu. Til að hjálpa börnunum inn á þessa braut og fá þau til að skoða eigið gildismat er meðal annars lögð áhersla á spurningar eins og:

 • Hvernig manneskjur viljum við vera?
 • Hvað þurfum við að gera til að ná takmarki okkar?
 • Hvernig bekkjaranda viljum við hafa?
 • Hvað getum við gert til þess að viðhalda góðum bekkjaranda?

Aðrar aðferðir sem meðal annars eru notaðar eru:

 • Umsjónarkennari heldur reglulega bekkjarfundi þar sem eineltismál eru meðal annars rædd.
 • Umsjónarkennari ræðir ýmis hugtök sem tengjast einelti og má þar nefna útskýringu á eineltishringnum, neikvæðan þrýsting og hvetur nemendur til þess að taka afstöðu gegn eineltinu.
 • Umsjónarkennari ræðir vel bekkjar- og skólareglur og unnið er með  gildi sem liggja til grundvallar því að nemendur hafi þessar reglur í heiðri.
 • Hlutverkaleikir eru góð leið til þess að efla vitund nemenda um misjafna stöðu og líðan fólks í hópum.
 • Með reglulegu millibili fer fram öflug forvarnarvinna innan bekkjarins. Skólahjúkrunarfræðingur, skólafélagsráðgjafi og utanaðkomandi aðilar taka þátt í þessari vinnu með umsjónarkennurum og öðru starfsfólki skólans.
 • Á yngra stigi eru tveir bekkjarfulltrúar kosnir í hverri bekkjardeild og er mikilvægt að sú kosning sé leynileg. Bekkjarfulltrúar eru hvattir til þess að hafa afskipti af verði þeir varir við vísbeningar um einelti og láta þá umsjónarkennara eða annað starfsfólk vita.
 • Á yngra stigi getur verið gott að vinna með vinabekki sem meðal annars skilar sér í bættum samskiptum meðal nemenda. Í tengslum við vinnu gegn einelti leggjum við aukna áherslu á vinabekkina sem leið til þess að vinna gegn einelti.

Samvinna heimilis og skóla

Góð samvinna við heimili er nánast forsenda fyrir því að leysa þau eineltismál sem upp kunna að koma. Þó ber að hafa í huga að einelti er oft á tíðum vel falið og langur tími getur liðið frá því að eineltið hefst þar til fullorðnir fá að vita af því. Mikilvægt er að forráðamenn viti hvernig skólinn tekur á eineltismálum þannig að þeir geti með öryggi látið vita af grun um einelti og treyst því að unnið sé með málið á viðeigandi hátt.

Ef einelti kemur upp

Ef grunur leikur á að um einelti sé að ræða er það tilkynntur til skólans á sérstöku eyðublaði sem finna má á heimasíðu skólans og hér. Í framhaldi af því er eineltisteymi skólans kallað saman á fund ásamt viðkomandi umsjónarkennara. Á þeim fundi er gerð áætlun um athugun sem fram skal fara þar sem grunur um einelti er að ræða.

 • Starfsmönnum skólans er gert að fylgjast sérstaklega vel með viðkomandi einstaklingi og reyna að gera sér mynd af því hvernig og hverjir eru að áreita hann. Mikilvægt er að halda saman upplýsingum um atburðarrás, dagsetningar og samskipti eins nákvæmlega og mögulegt er.
 • Umsjónarkennari og/eða aðrir úr eineltisteyminu geta rætt við 3-5 nemendur sem taldir eru geta gefið upplýsingar sem varpa ljósi á aðstæðurnar.
 • Þessi vinna skal eigi taka lengri tíma en eina viku.

Að þessari athugun lokinni kemur eineltisteymið saman á ný og fer yfir niðurstöður. Verði einelti uppvíst í skólanum er unnið samkvæmt eftirfarandi ferli.

Vinna með þolanda og forráðamönnum

 • Mikilvægt er að tryggja sem best öryggi þolandans og gera honum grein fyrir því að hann fái fullan stuðning frá skólanum.  
 • Ef einelti kemst upp er reynt að halda fund með foreldrum geranda og þolanda svo þeir séu upplýstir um málið og geti tekið þátt í úrvinnslu þess.
 • Umsjónarkennari eða fulltrúi úr eineltisteymi ræðir við þolanda í einrúmi til að fá sem gleggstar upplýsingar um stöðu mála.
 • Þolanda er gerð grein fyrir í hverju vinna gegn eineltinu sé fólgin og við hverju hann megi búast.
 • Umsjónarkennari eða skólastjórnendur boða forráðamenn þolanda á fund.
 • Þolandi þarf að geta treyst því að í vinnu með eineltið verði hann ekki borinn fyrir upplýsingum.
 •  Í öllum samskiptum við þolanda og forráðamenn og í allri vinnu gegn einelti verður að vera ljóst að í skólanum er einelti ekki liðið og að þar muni starfsfólk gera allt sem það getur til að uppræta það.

Vinna með gerendum og forráðamönnum

Líkt og með þolanda þá er unnið eftir skilgreindu ferli með geranda þegar einelti kemur upp.Hreinsidagur_08_016_a_vef

 • Ef einelti kemst upp er reynt að halda fund með foreldrum geranda og þolanda svo þeir séu upplýstir um málið og geti tekið þátt í úrvinnslu þess.
 • Umsjónarkennari eða fulltrúi úr eineltisteyminu ræðir við geranda/gerendur í einrúmi þar sem hann er hvattur til þess að láta af athæfi sínu.
 • Geranda er gefið skýrt til kynna að einelti sé ekki liðið og að af því verði að láta þegar í stað.
 • Umsjónarkennari eða skólastjórnendur boða forráðamenn geranda á fund.
 • Geranda og forráðamönnum er kynnt það ferli sem unnið verður eftir í framhaldinu.
 • Gerandi fær tækifæri til að koma sjálfur með lausnir á málinu en annars er hjálpað til að koma með lausnir á vandamálunum. Ferlið sem grípa þarf til ef ekki lætur af einelti er háð því hvar eineltið á sér stað og er það sama og gripið er til þegar nemendur eru með ólæti í skólanum.
 • Eineltið á sér stað úti í frímínútum:
  Geranda er gert að fylgja gæslumanni í frímínútum.
  - Gerandi er í einvist, þ.e. látinn vera inni í frímínútum en fari jafnvel út þegar aðrir koma inn.
 • Eineltið á sér stað í tímum:
  Gerandi tekinn út úr tíma og látinn vinna verkefni sín utan bekkjar.
 • Eineltið á sér stað á leið í og úr skóla:
  Forráðamenn verða að fylgja barni í og úr skóla.
 • Eineltið á sér stað í búningsherbergjum:
  Gerandi verður að vera einn í búningsklefa, annaðhvort á undan eða eftir bekkjarfélögunum.
 • Beri ofangreindar aðgerðir ekki árangur er málum vísað til skólasálfræðings, heilsugæslu eða félagsmálastjóra.
 • Hægt er að boða forráðamenn þolanda og geranda saman á fund sé óskað eftir slíku og ef fjölskyldurnar hafa lýst yfir eindregnum vilja til að koma í veg fyrir að eineltið haldi áfram.

Eftirfylgni

 • Eineltisteymi kemur saman á fund ásamt viðkomandi umsjónarkennara þar sem árangur er skoðaður. Metið er hvort markmið hafi náðst og ákvarðanir teknar um framhaldið.
 • Þolandi fær stuðningsviðtöl þar sem viðkomandi fær tækifæri til þess að efla og endurbyggja sjálfsmynd með markvissum hætti.
 • Mikilvægt er að þolandi sé hvattur til þess að láta vita af öllum nýjum tilraunum til eineltis.
 • Gerandi fær stuðningsviðtöl þar sem honum er gert kleift að vinna með eigin hegðun og framkomu. Takist sú vinna ekki með einföldum aðgerðum þarf oft að vísa málinu til utanaðkomandi sérfræðinga.
 • Hafi árangur ekki náðst tekur eineltisteymi ákvörðun um aðrar aðgerðir.