Stefna skólans

Virðing – metnaður – vinátta – frelsi – jákvæðni

Virðing – metnaður – vinátta – frelsi – jákvæðni

Þessi orð eru kjörorð skólans og marka grunninn að stefnu hans ásamt umhverfisvernd, heilsueflingu og námi við hæfi. Kjörorðin tengjast náið þeirri uppeldisstefnu sem skólinn vinnur eftir, Uppeldi til ábyrgðar, en sú stefna gengur út á að öll hegðun okkar sé tilkomin vegna þess að við erum að reyna að uppfylla þarfir okkar. Samkvæmt uppeldi til ábyrgðar eru grunnþarfirnar fimm og tengjast þær náið kjörorðunum. Virðing svarar til öryggisþarfarinnar, jákvæðni svarar til gleðiþarfarinnar, vinátta til umhyggjuþarfarinnar, frelsi til frelsisþarfarinnar og metnaður til áhrifaþarfarinnar.

Myndin hér fyrir neðan er lýsandi fyrir það starf sem á sér stað í skólanum. Hér á eftir koma nánari útskýringar á því fyrir hvað áhersluþættir skólans standa og byrjað er á að útskýra nánar hvað kjörorðin fela í sér. Í næsta kafla er sérstaða skólans skilgreind.

Virðing. Í skólanum er lögð áhersla á að allir séu metnir að verðleikum og fái viðurkenningu á vinnu sinni og því sem þeir leggja sig fram við. Í skólanum er komið fram við alla af virðingu, kurteisi og réttlæti og lögð áhersla á að allir geti verið öruggir um að verða ekki fyrir ofbeldi eða áreiti og að unnið sé með það ef slíkt kemur upp.

Metnaður. Í skólanum er lögð áhersla á að allir geri sitt besta. Markið er sett hátt, allir hafa trú hver á öðrum, fólk styður hvert annað og þar ná allir góðum árangri. Lögð er áhersla á nám við hæfi og framfarir í samræmi við forsendur hvers og eins.

Vinátta. Í skólanum er lögð áhersla á og unnið með vináttu og umhyggju. Lögð er áhersla á kurteisi í samskiptum, að allir séu hlýlegir og leggi sig fram við að aðstoða hvern annan. Það hafa allir þörf fyrir vináttu og umhyggju og sömuleiðis hafa allir þörf fyrir að sýna vináttu og umhyggju.

Jákvæðni. Í skólanum er lögð áhersla á jákvætt viðhorf. Allir hafa val hverju svo sem þeir standa frammi fyrir í lífinu. Að velja að vera jákvæður er léttara og eykur líkurnar á lífshamingju. Lögð er áhersla á jákvætt og hlýlegt viðmót og að fólk geti verið glatt því glöðu fólki líður vel og það afkastar meiru.

Frelsi. Í skólanum er lögð áhersla á að hver einstaklingur hafi ákveðið frelsi og njóti réttinda sinna um leið og honum ber að sinna skyldum sínum og ganga ekki á frelsi annarra. Þannig tvinnast réttindi og skyldur órjúfanlega við frelsishugtakið.

Nám við hæfi

Í skólanum er lögð áhersla á að allir nemendur fái nám við sitt hæfi. Kennarinn stjórnar því hvaða markmiðum er unnið að, hann ákveður hvernig nemendur verða metnir en gætir þess að upplýsa nemendur reglulega um bæði markmið og námsmat. Við kennsluna er mikilvægt að hver og einn nemandi hafi námsefni við hæfi og að hann fái nægilegan tíma til að læra það sem til er ætlast. Einnig er mikilvægt að huga að námsstíl nemenda bjóða upp á mismunandi leiðir við að nálgast markmiðin. Það er misjafnt hvernig börn læra og því mikilvægt að gefa þeim færi á að nema á fleiri en einn hátt. Þess vegna skiptir persónulegt og traust samband milli kennara og nemenda miklu máli.

Fjölbreyttar kennsluaðferðir

Í skólanum er lögð áhersla á fjölbreytta kennsluhætti. Val á kennsluaðferðum tekur mið af þeim námshópi sem unnið er með hverju sinni og reynt er að nota sem fjölbreyttastar kennsluaðferðir, því fjölbreytni í kennsluaðferðum og framsetningu námsefnis vekur áhuga og athygli nemenda. Leitast er við að nemendur fái að kynnast sem flestu; einstaklingsvinnu, paravinnu og hópavinnu þar sem nemendur eru virkir þátttakendur í námi sínu og þjálfist í að setja sér markmið, skipuleggja tíma sinn vel og taka ábyrgð á eigin námi. Leikurinn er síðan grundvallarkennsluaðferð sem alltaf ber að nota þegar hægt er því í gegnum leikinn læra börn oftast best.

Jafnræði greina

Í skólanum er lögð áhersla á jafnræði greina þannig að jafnvægi sé á milli bóklegs náms og verklegs. Eins og fram kemur í Aðalnámskrá grunnskóla þá hafa bæði hugur og hönd mikilvægu hlutverki að gegna í alhliða þroska nemenda, því skipta fjölbreyttar kennsluaðferðir miklu máli í öllum greinum og með því stuðlum við að því að ná fram sem flestum grunnþáttum aðalnámsskrár í almennu skólastarfi.

Innan ofangreindra þátta er LTÁ

Heilbrigði og velferð

Innan þessa þáttar eru uppeldis- og samskipta stefnaskólans, Uppeldi til ábyrgðar, Heilsueflandi grunnskóli og Grænfánaskóli.