Heimanám

Af hverju heimanám?

Megin ástæður fyrir heimanámi eru

  • að dýpka skilning á ákveðnu efni
  • að þjálfa sig í efni sem ekki er hægt að þjálfa nægilega mikið í skólanum
  • að leyfa foreldrum að fylgjast með og styðja börnin sín í námi
  • að tengja námið í skólanum við raunveruleg verkefni á heimili
  • að vinnu upp. Ef nemandi nýtir tíma sinn illa í skólanum þá getur hann lent í því að fá auka efni heim til að læra.

Skipulag, að gefa sér tíma og frið til að læra heima

Mörgum reynist erfitt að finna tíma til að sinna heimanáminu. Því er mikilvægt að skipuleggja tíma sinn vel og ákveða á hvaða tíma dagsins heimanámið á að fara fram og nota hann vel. Gott er að hafa heimanámið inn á dagsplani líkt og íþróttaæfingar, tónskólann og annað sem þarf að gera.  

Að sama skapi er mikilvægt að hafa frið og ró þegar heimnámi er sinnt, þá nýtist tíminn betur og heimanámið tekur styttri tíma.

Ef heimanám er erfitt og þú þarft hjálp

Almenna reglan er sú að heimanám á að vera þannig að þú átt að geta unnið það hjálparlaust.  Ungir nemendur þurfa þó oft aðstoð frá foreldrum og ef þú lendir í vandræðum skaltu alltaf byrja á því að spyrja einhvern á heimilinu um aðstoð. Ef þú getur ekki fengið aðstoð heima er mikilvægt að kennarinn fái að vita það svo hann geti séð til þess að þú fáir þá aðstoð sem þarf. 

Jákvætt hugarfar

Hugarfar hefur mikil áhrif á líðan þína og árangur í tengslum við nám. Reyndu að tileinka þér jákvætt hugarfar gagnvart heimanámi, námsgreinum, kennurum, skólanum og sjálfum þér sem námsmanni. Ef það tekst er líklegra að þér líði vel og að þú hafir orku til að takast á við námið. 

Ef námsgrein pirrar þig eða þér finnst þú eiga í erfiðleikum með hana skaltu á sama hátt reyna að vinna að lausn sem leiðir til bætts árangurs. Ein leið er að eyða meiri tíma í greinina og einsetja sér að yfirstíga erfiðleikana. Reyndu að hugsa um að þú ætlir að ná tökum á greininni og forðast hugsanir í þá veru að þú getir aldrei skilið þetta, hatir greinina o.s.frv.

Síðast en ekki síst verður þú að hafa trú á hæfileikum þínum og getu til að takast á við nám, bæði í greinum sem þú hefur áhuga á og átt auðvelt með að læra og greinum sem þér finnast erfiðar

Námstækni

Mikilvægt er að tileinka sér góða námstækni en námstækni er sú aðferð sem notuð er til að læra. Eftir því sem námstækni okkar er betri þeim mun fljótari erum við að læra og lærum betur.  Á vef Menntamálastofnunar má finna gagnlega handbók um námstækni sem nýtist nemendum, kennurum og foreldrum.