Skólareglur Grunnskóla Hornafjarðar

IMG_9070Hér eru þær skólareglur sem við förum eftir í grunnskólanum.

Skólareglur

Í grunnskólalögum er kveðið á um að í hverjum grunnskóla skuli settar skólareglur. Í þeim skuli m.a. kveðið á um almenna umgengni, samskipti, stundvísi, ástundun náms og heilbrigðar lífsvenjur. Þar skuli einnig koma fram hvernig brugðist sé við brotum á skólareglum.

Skólareglur eru til þess fallnar að auka öryggi nemenda starfsfólks og foreldra því þær setja ákveðinn ramma í samskiptum sem öllum ætti að vera ljós. Þær eiga að auðvelda fólki að vita til hvers er ætlast og hvað gerist ef farið er út fyrir þennan ramma. Þannig auka skólareglur líkurnar á því að börn fái að þroska hæfileika sína og njóta bernskunnar í öruggu umhverfi. Starfsfólki skólans ber að leggja sig fram við að hjálpa nemendum til að fara eftir skólareglum, aðlagast þeim og njóta þess að ganga í skóla. Þannig verður skólinn bæði uppeldis- og menntastofnun.

Skólinn er vinnustaður nemenda, kennara og annarra starfsmanna. Þar hafa allir ákveðin réttindi en öllum réttindum fylgja ákveðnar skyldur. Í skólanum eiga allir rétt á því að þeim líði vel og fá tækifæri til að þroskast og læra á sínum forsendum. Þar hafa líka allir þær skyldur að sýna öðrum kurteisi og tillitssemi svo þeir geti þroskast, lært og liðið vel innan um jafningja. 

Nemendur bera ábyrgð á eigin námi og framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri. Nemendum bera að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar. 

Almenn kurteisi, tillitssemi og virðing er grundvallarstefið í skólastarfinu. Við gerum hinsvegar öll mistök og það er allt í lagi því við ætlum að læra af þeim. Ef mistökin eru alvarleg þarf maður að taka afleiðingum þeirra en það er hluti af því að læra að bæta fyrir mistök sín. 

Í skólanum er unnið eftir uppbyggingarstefnunni (restitution) sem gengur út á að efla ábyrgð nemenda á eigin hegðun og framkomu og auka öryggi allra í samskiptum. Skólasamfélagið valdi sér kjörorð sem tengjast uppbyggingarstefnunni náið en þau eru virðing, jákvæðni, metnaður, frelsi og vinátta en segja má að hvert kjörorð samsvari einni grunnþörf. Nemendur og starfsmenn hafa síðan unnið með það hvað þessi kjörorð þýða á hverjum stað fyrir sig í skólanum og hafa verið búin til veggspjöld sem hanga upp um allt í skólanum þar sem þessar skilgreiningar er að finna. Með þessu móti tengjast kjörorð skólans, uppeldisstefnan og skólareglurnar og mynda eina heild. Sjá veggspjöldin aftast í þessum kafla.

Skólareglunum okkar skiptum við í tvennt, annars vegar almennar reglur og hinsvegar öryggisreglur. Að auki eru reglur um tölvu, síma og snjalltækjanotkun þar sem mörgum reynist erfitt að stjórna notkun sína á slíkum tækjum. Hér er einnig greint frá punktakerfi skólans sem tengist ástundun nemenda og slóð er inn á verklagsreglur skólans um viðbrögð við verulegum frávikum nemenda frá ábyrgð og skyldum í grunnskóla.

 

Almennar reglur

Almennar reglur snúast um þau samskipti sem við eigum dags daglega og byggja á almennum siðareglum. Að temja sér að fara eftir þessum reglum er hluti af því að þroskast og fullorðnast og verða ábyrgur þegn í lýðræðislegu samfélagi.  Því er eðlilegt að yngri börn þurfi meiri aðstoð við að temja sér þær en þau sem eldri eru. Við fylgjum almennum reglum t.a.m. þegar;

 • Við sinnum hlutverki okkar
 • Við látum aðra í friði
 • Við komum fram af kurteisi og sýnum tillitssemi
 • Við berum ábyrgð á eigum okkar
 • Við berum ábyrgð á gerðum okkar

Viðbrögð ef út af bregður

Ef nemandi brýtur almennar reglur leitar kennari orsaka þess m.a. með viðtölum við nemanda eða nemanda og foreldra hans. Gerðar eru áætlanir um úrbætur og nemanda gefst tækifæri til að bæta fyrir brot án frekari viðurlaga. Beri viðtöl og samræður við nemanda ekki árangur og telji kennari sig þurfa að grípa til frekari viðurlag gerir hann það í samráði við foreldra. Ítrekuð brot á almennum reglum geta leitt til þess að nemandi þarf að taka afleiðingum gerða sinna líkt og um brot á öryggisreglu sé að ræða. 

Öryggisreglur

Öryggisreglur snúast um að tryggja líkamlegt og andlegt öryggi allra í skólanum. Ef þær eru brotnar er undantekningalaust gripið til viðurlaga í samræmi við aldur og þroska viðkomandi barns. Öryggisreglur eru brotnar þegar öryggi er ógnað með ögrandi framkomu t.a.m. með

 • Andlegum eða líkamlegum meiðingum
 • Alvarlegum ögrunum eða hótunum
 • Notkun á tóbaki, áfengi eða öðrum vímuefnum
 • Vopnum eða ígildi þeirra
 • Þjófnaði
 • Skemmdarverkum
 • Áhættuhegðun

Viðbrögð ef út af bregður

Ef öryggisreglur eru brotnar er samstundis gripið til viðurlaga og er máli þá vísað til skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra. Skólastjórnandi tekur ákvörðun um næstu skref. 

Við brot á öryggisreglum þarf nemandi alltaf að yfirgefa samnemendur sína í lengri eða skemmri tíma í samræmi við eðli og alvarleika brotsins. Oftast þýðir þetta að nemandi þarf að vinna einsamall í einhvern tíma eða missir af frímínútum. Lengd einverunnar fer eftir eðli og alvarleika brotsins og getur verið frá einum frímínútum eða einni kennslustund til þess að vera útilokaður frá því að vera með samnemendum sínum í tímum eða frímínútum í nokkra daga. Teljist brotið alvarlegt getur skólastjórnandi gripið til þess ráðs að vísa nemanda heim til næsta dags eða lengur sé um mjög alvarlegt brot að ræða. Ástæða þessa að nemandi þarf að yfirgefa samnemendur sína er fyrst og fremst sú að tryggja öryggi þeirra og gefa nemendum í heild skilaboð um mikilvægi þess að öryggi allra sé í heiðri haft.

Mikilvægt er að vinna með brot á öryggisreglum þannig að barnið læri og þroskist af mistökum sínum. Það er gert með aðferðum uppbyggingarstefnunnar þar sem rætt er við nemandann og hann hvattur til að koma með áætlun um úrbætur. Áætlun um úrbætur ætti alltaf að vera skrifleg. Til að byrja með fá nemendur aðstoð við að gera slíka áætlun en eftir því sem uppbyggingarstefnunni vex fiskur um hrygg aukast líkur á því að nemendur geti gert slíkar áætlanir hjálparlaust hafi þeir aldur og þroska til. Foreldra fá alltaf upplýsingar brjóti barn þeirra öryggisreglur og sé um alvarlegt brot að ræða gera nemendur áætlun um úrbætur í samráði við foreldra sína.

Reglur um notkun tölva, snjalltækja og síma

Skólinn er vel tækjum búinn og eru bekkjarsett af Ipödum á hvoru skólastigi auk hálfs bekkjarsetts af fartölvum. Mikilvægt er að nemendur læri að nýta sér tölvutækni í námi og er unnið með hana í öllum árgöngum. Lögð er áhersla á að styrkja nemendur í að nýta tæknina til náms og fjölbreyttrar vinnu en um leið að auka ábyrgð þeirra sjálfra á því hvernig þeir nota tæknina og til hvers.

Í 1. – 6. bekk er nemendum ekki leyfilegt að koma með fartölvur, síma eða snjalltæki í skólann.

Í 7. – 10. bekk mega nemendur koma með fartölvur og snjalltæki í skólann en tækin eru alfarið á þeirra ábyrgð og hlíta verður sérstökum reglum varðandi notkun þeirra. Í skólanum er lögð áhersla á að leyfa nemendum að nota slík tæki í námi ef það er ávinningur af notkun þeirra og nemendur geta frekar nálgast markmið sín með þeim. Við notkun snjalltækja ber að fylgja almennum skólareglum þar með talið að sýna kurteisi og tillitssemi en vegna þess hve mörgum reynist erfitt að hafa stjórna notkun sinni hafa verið gerðar sérstakar reglur um notkun þessara tækja.

Reglur:

 • Upptaka á hljóði eða mynd er óleyfileg nema með leyfi kennara og þeirra sem verið er að mynda.
 • Nemandi þarf alltaf að fá leyfi til að nota snjalltæki í kennslustund og hafa heyrnartól í eyranu sé hann að hlusta.
 • Símar skulu ávalt vera á hljóðlausri stillingu og án titrings. Þá má aldrei nota í kennslustundum. 
 • Notkun síma eða snjalltækis í prófi þýðir að notandi fær núll í prófinu.
 • Þegar kennari eða starfsmaður talar við nemanda sem hefur fengið leyfi til að hlusta og er með heyrnartól í eyranu þá ber nemanda að taka það úr eyranu á meðan talað er við hann.
 • Fari nemandi ekki eftir ofangreindum reglum eða fyrirmælum kennara er litið svo á að hann hafi fyrirgert rétti sínum til að vera með snjalltækið eða símann í skólanum.
 • Ef nemandi hlítir ekki fyrirmælum kennara eða fer ekki eftir almennum reglum um notkun tækisins getur hann átt á hættu að tækið verði tekið af honum það sem eftir er dagsins.

Punktakerfi

Notast er við punktakerfi í 7. – 10. bekk skólans til auðvelda kennurum, nemendum og foreldrum og forráðamönnum að halda utan um mætingar og ástundun hjá nemendum. Skólasókn þeirra birtist á vitnisburðarblaði. Haldið er utan um punktakerfið á www.mentor.is. Þar merkja kennarar við mætingar, skil á heimavinnu og fleiri þætti og geta foreldra og nemendur ásamt kennurum fylgst með stöðu mála. Punktar eru gefnir sem hér segir:

 • Að skila ekki heimavinnu gefur 1 punkt.
 • Að mæta of seint gefur 1 punkt.
 • Komi nemandi til kennslustofu eftir að kennsla hefst telst hann seinn.
 • Óheimil fjarvist úr kennslustund gefur 3 punkta. 
 • Komi nemandi 15 mín. of seint eða meira fær hann óheimila fjarvist.
 • Brottrekstur úr kennslustund gefur 5 punkta.

Umsjónarkennarar fylgjast með punktastöðu umsjónarnemenda sinna og ræða við nemendur, foreldra og forráðamenn eftir því sem tilefni er til. Notast er við ferli sem tilgreint er hér að framan undir kaflanum Samstarf við foreldra og forráðamenn auk þess sem viðurlög við brotum á skóla­reglum gilda ef ekki næst árangur með almennum viðbrögðum.

Nemandi getur sótt um að fá fellda niður punkta og hækka þannig skólasóknareinkunn sína. Tveir punktar dragast þá frá punktastöðu viðkomandi nemanda fyrir hverja viku sem skólasókn er óaðfinnanleg. Fái nemandi með slíkan samning punkt, ógildist samningurinn. Aðeins er hægt að sækja um hækkun skólasóknareinkunnar einu sinni á hverri önn.


Skólasóknarkerfi

Leyfi og veikindi

Í tengslum við skólasókn nemenda og sem viðbót við skólasóknarkerfi Grunnskóla Hornafjarðar þarf stundum að skoða tilkynnt forföll nánar. Þessi viðbót skólasóknarkerfisins vegna leyfis og /eða veikinda er leið til þess að grípa betur inn í hugsanlegan skólasóknarvanda.Þegar nemandi er tilkynntur veikur eða í leyfi þarf ávallt að skoða forfallasögu hans í skólanum. Ávallt skal skoða a.m.k. síðustu þrjá skólamánuði, bæði með tilliti til leyfis og veikinda. Greining er gerð á forföllum allra nemenda mánaðarlega. Miðað er við forföll önnur en langtímaveikindi, s.s. vegna slysa eða samfelldra leyfa. Viðbrögð vegna nánari skoðunar á skólasókn nemenda eru í eftirfarandi þrepum.

Þrep 1 (5 veikinda- og / eða leyfisdagar)

Ef nemandi er með fleiri en 5 forfalladaga, sendir umsjónarkennari bréf til foreldra í gegnum Mentor (Ástundun - bréf til foreldra) og ræðir síðan við foreldra.

Þrep 2 (10 veikinda- og / eða leyfisdagar)

Ef nemandi er með fleiri en 10 forfalladaga, sendir umsjónarkennari aftur bréf til foreldra í gegnum Mentor (Ástundun – bréf til foreldra) og ræðir síðan við foreldra. En ef 80% eða meira af þessum forfalladögum eru veikindadagar, hringir skólahjúkrunarfræðingur heim og tekur erindið upp í Nemendaverndarráði ef þörf þykir.

Þrep 3 (15 veikinda- og / eða leyfisdagar)

Ef nemandi er með fleiri en 15 forfalladaga, boðar umsjónarkennari foreldra til fundar ásamt skólastjórnanda og tekur erindið upp í Nemendaverndarráði ef þörf þykir.

Þrep 4 (20 veikinda- og / eða leyfisdagar)

 Ef nemandi er með fleiri en 20 forfalladaga, boðar skólastjórnandi foreldra til fundar ásamt fulltrúum Nemendaverndarráðs (s.s. hjúkrunarfræðing, námsráðgjafa).

Þrep 5 (30 veikinda- og / eða leyfisdagar)

Ef nemandi er með fleiri en 30 forfalladaga greinir skólastjórnandi Nemendaverndarráði skólans frá skólasókn nemandans sem tilkynnir síðan til Barnaverndar og félagsþjónustu Hornafjarðar og boðar tilkynningafund ef þörf þykir.