Námsaðstoð

Þeir þættir sem flokkast undir námsaðstoð eru eftirfarandi.

Sérkennsla

Nemendur eiga rétt á aðstoð við hæfi hvers og eins. Kennsla fer fram sem einstaklingsþjónusta eða hópkennsla eftir aðstæðum, í lengri eða skemmri tíma og fer ýmist fram í bekk eða í námsveri. Höfð er í heiðri meginreglan um að þjónustan valdi nemandanum sem minnstri aðgreiningu frá bekkjarfélögum sínum.

Námsefni og val á viðfangsefnum er byggt á greiningum nemenda, niðurstöðum úr prófunum eða ábendingum frá sérfræðingum að höfðu samráði við foreldra.
177511607_1023911044808035_6236056747049739965_n


Gerð er einstaklingsnámskrá fyrir nemendur sem víkja frá bekkjarnámskrá. Einstaklingsnámskrá er heildaráætlun fyrir nemanda sem víkur  frá bekkjarnámskrá í einni grein eða fleirum. Einstaklingsnámskrá er einnig gerð þegar nemandi þarf aðstoð við daglegar athafnir.

Sérkennari ber, í samvinnu við umsjónarkennara ábyrgð á að einstaklingsáætlun sé gerð. Hann boðar  foreldra, sérgreinakennara og fleiri aðila ef við á til samstarfs við gerð áætlunarinnar. Sérkennari ber ábyrgð á uppsetningu og að áætlunin sé geymd á viðeigandi stað. Nemandi tekur sjálfur þátt í undirbúningi og gerð áætlunarinnar ef við á.

Einstaklingsnámskrá hefur ákveðinn gildistíma og er undirrituð af foreldrum og umsjónarkennara. Nemandi undirritar sjálfur einstaklingsnámskrá ef við á.

Stuðningur

Stuðningsfulltrúar vinna náið með kennurum í bekkjum eða utan þeirra. Hlutverk þeirra er að vera kennara í viðkomandi kennslustund innan handar við að styðja nemendur sem víkja frá í námi eða hegðun. Viðkomandi kennari og sérkennari veita stuðningsfulltrúa leiðbeiningar um verklag og viðfangsefni. 

Þroskaþjálfun

Þroskaþjálfi heldur utan um þjónustu við nemendur með þroskahömlun eða fötlun í samvinnu við umsjónarkennara. Þroskaþjálfi ber, ásamt umsjónarkennara ábyrgð á gerð einstaklingsnámskrár og er í samvinnu við greiningaraðila eftir því sem við á. Þroskaþjálfi sinnir persónulegri aðstoð við nemandann og gerir tillögur um úrbætur í ferlimálum ef við á. Þroskaþjálfi leiðbeinir stuðningsfulltrúa og öðru starfsfólki um verklag.

Aðstoð við próftöku og verkefnaskil

Nemendur með sértæka námserfiðleika, lestrarerfiðleika eða eiga vegna fötlunar erfitt með að leysa verkefni og taka próf á sömu forsendum og aðrir nemendur eiga rétt á að sérstaklega sé tekið tillit til þeirra. Sérkennarar skipuleggja í samráði við umsjónarkennara í hverju aðstoðin er falin hverju sinni.

Aðstoð getur verið falin í próftöku í fámennri stofu, að nota tölvur eða spilara fyrir hljóðbækur, notkun hjálparforrita eða tækja við lestur eða ritun ofl.

Aðstoð vegna persónulegrar færni

Ákveðinn hluti nemenda þarf sérkennslu í hegðun eða stuðning vegna tilfinningalegra og félagslegra erfiðleika. Sérkennsla þessi er veitt innan skólans eftir því sem kostur er og leitað eftir utanaðkomandi ráðgjöf ef þörf er á.

Kennslan fer fram í formi stakra kennslustunda, námskeiða fyrir einstaklinga eða hópa, eða sem fastar kennslustundir yfir lengri tímabil allt eftir því sem hentar hverju sinni. Markmiðið með þessari kennslu er að gera nemendur hæfari til að taka þátt í samfélaginu. 

Vinna með tilfinningalega og félagslega þætti

Lögð er áhersla að aðstoða nemendur sem eiga við tilfinningalega og félagslega erfiðleika að stríða.

Aðstoð við þessa nemendur fer fram í tengslum við námsver og kallast almenn atferlisþjálfun.

Kennslan fer fram sem einstaklingskennsla eða hópkennsla eftir aðstæðum, í lengri eða skemmri tíma og fer ýmist fram inni í bekk eða í námsveri. Kennarar námsvers starfa í nánu samstarfi við aðstoðarskólastjóra, umsjónarkennara  og stuðningsfulltrúa vegna þeirra nemenda sem njóta þar þjónustu.

Námsefni er byggt á greiningum nemenda, niðurstöðum úr prófum eða ábendingum frá kennurum. 

Aðstoð við þáttöku í námsferðum og félagslífi

Nemendur sem eiga við ýmsa erfiðleika að stríða eru oft viðkvæmari en aðrir nemendur þegar kemur að því að breyta út af daglegum venjum í skólastarfinu hvort sem það er vegna námsferða, félagslífs eða tímabundinna verkefna.

Sérstaklega er hugað að þessum nemendum. Umsjónarkennari og sérkennari hafa samvinnu um aðstoðina og skipulagningu hennar, útvega gögn, veita starfsfólki leiðbeiningar og styðja nemandann allt eftir þörfum hverju sinni.

Einnig er lögð áhersla á að undirbúa nemandann fyrirfram á þann hátt sem þurfa þykir.