Sérstaða skólans

Lítill skóli í stórbrotnu umhverfi með góð tengsl við fjölbreytta atvinnuvegi.

Sérstaða skólans markast af staðsetningu hans og því fjölbreytta og um leið fágæta umhverfi sem hann er í. Sveitarfélagið sem skólinn þjónar er víðfeðmt en tiltölulega fámennt með rúmlega 2000 íbúa. Íbúar sveitarfélagsins hafa vanist því í gegnum aldirnar að bjarga sér sjálfir því langt er í næstu þéttbýlisstaði og samgöngur oft erfiðar þó vissulega hafi þar orðið miklar breytingar síðustu áratugi. Höfuðatvinnugreinar sveitarfélagsins byggja á tengslum við náttúruna, annars vegar í gegnum landbúnað og sjávarútveg en hins vegar í gegnum ferðamannaiðnað. Náttúran er líka drifkraftur í öflugu menningar- og listalífi sem veitir listamönnum innblástur til einstakrar vinnu.20210514_092210

Á þessum þáttum byggir sérstaða skólans. Þar er lögð mikil áhersla á tengslin við náttúruna í allri sýslunni og leyfa nemendum að njóta hennar og fræðast um hana um leið og sterk tengsl við samfélagið er sá drifkraftur sem skólinn byggir á. Nemendur skólans fara í skipulagðar ferðir vítt og breitt um sýsluna svo þeir fái að kynnast sem flestum svæðum innan hennar. Ferðirnar eru nýttar markvisst í námi nemenda og tekur sú vinna mið af aldri og þroska þeirra.

Nemendur kynnast helstu atvinnuvegum í samfélaginu bæði gegnum námið í skólanum og einnig með vettvangsferðum á sveitabæi og í ýmis fyrirtæki og stofnanir. Starfskynningar eru fyrir nemendur í 10. bekk þar sem flest fyrirtæki og stofnanir í sveitarfélaginu eru boðin og búin að taka við nemendum, kynna þeim starfsemi sína og leyfa þeim að taka þátt í vinnunni.

Í skólanum er lögð áhersla á list- og verknám, nýsköpun og frumkvöðlastarf.