Starfsmannastefna Grunnskóla Hornafjarðar

Fjárfesting í fólki er lykillinn að velgengni hverrar stofnunar. Mikilvægt er að byggja upp fjölbreyttan hóp starfsmanna sem býr yfir ólíkri reynslu og þekkingu.

 

Markmiðið með starfsmannastefnu Grunnskóla Hornafjarðar er að skólinn hafi alltaf á að skipa hæfum og áhugasömum starfsmönnum sem sýna frumkvæði og veita góða þjónustu. Einnig er mikilvægt að þeir bregðist við síbreytilegum þörfum skjólstæðinga sinna.

Hver og einn starfsmaður á rétt á góðum starfsskilyrðum og möguleika á því að vaxa og dafna í starfi. Hvatt er til þess að starfsfólk skólans axli ábyrgð, læri nýja hluti, komi með nýjar hugmyndir og sýni það besta sem í því býr. Mikilvægt er að hver og einn leggi sitt af mörkum til að móta jákvæðan og góðan starfsanda og skapa sterka liðsheild þar sem hreinskiptni og hreinskilin skoðanaskipti eru viðhöfð við lausn álitamála.

Til að ná ofangreindum markmiðum er lögð áhersla á að:

  • Gagnkvæmt traust og gott samstarf ríki innan stofnunarinnar.
  • Starfið í skólanum grundvallist af gagnkvæmri virðingu, trausti, jafnrétti og jafnræði.
  • Hver og einn fái verkefni við hæfi og geti á þann hátt notið sín.
  • Allir starfsmenn þekki ábyrgð sína og skyldur.
  • Allir starfsmenn þekki stefnu skólans.
  • Allir starfsmenn séu hvattir til starfsþróunar og að taka ábyrgð á sinni eigin starfsþróun og starfsánægju.
  • Starfsþróunar og símenntunaráætlun sé skýr.
  • Allir starfsmenn fari í starfsmannaviðtöl einu sinni á ári.
  • Vinnutími sé öllum starfsmönnum ljós.
  • Unnið sé eftir viðverustefnu þar sem fram kemur hvernig tekist er á við veikindi sem starfsmenn þurfa að glíma við, hvernig brugðist er við sé um vinnuslys að ræða og hvernig fjarverusamtölum er háttað.
  • Stefna í eineltismálum og því hvernig tekið er á einelti, áreiti eða öðru ofbeldi sé skýr og allir starfsmenn viti hvert skal leitað þegar alvarlega mál eins og einelti koma upp.
  • Áhættumat fari reglulega fram til að tryggja hollustu og öryggi á vinnustaðnum.
  • Öllum starfsmönnum sé ljóst hvaða trúnaði þeir eru bundnir.
  • Jafnréttis sé gætt í hvívetna.
  • Taka vel á móti nýju starfsfólki og kynna því starfið og vinnustaðinn vel.
  • Kveðja fólk þegar það lætur af störfum.
  • Allir starfsmenn þekki starfslýsingar sínar og viti til hver er ætlast af þeim.

Ábyrgð og skyldur stjórnenda og annarra starfsmanna

Stjórnendur og starfsfólk Grunnskóla Hornafjarðar bera sameiginlega ábyrgð á því að sú þjónusta sem veitt er sé sem best á hverjum tíma og tryggt sé að langtímamarkmiðum sé náð.

Stjórnendur

Stjórnendum ber að tileinka sér góða og nútímalega stjórnunarhætti. Þeir skulu hafa að leiðarljósi jákvætt viðhorf til starfsmanna sinna, virkt upplýsingastreymi og dreifingu á valdi og ábyrgð. Þeir bera ábyrgð á störfum starfsmanna sinna og eiga að vinna með þeim að þeim markmiðum sem sett hafa verið. Einnig eiga þeir að gera starfsmönnum kleift að taka framförum bæði faglega og sem einstaklingar. Stjórnendur skulu leitast við að hafa samráð við starfsmenn sína um málefni vinnustaðarins og beita sér fyrir sem víðtækastri sátt um þau. Stjórnendur eiga að vinna að þeim markmiðum sem sett eru hverju sinni.

 

Starfsmenn

Starfsmenn eiga að rækja starf sitt af alúð og samviskusemi í hvívetna og gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu. Þeir eiga að vinna með öðrum starfsmönnum af heilindum að markmiðum þeim sem starfseminni eru sett. Þeim ber að hlíta lögmætum fyrirmælum yfirmanna sinna. Þeim ber að virða trúnað um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og gæta ber trúnaðar um. Þessi þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. Starfsmenn eiga að gæta þess að framkoma þeirra og athafnir samrýmist því starfi sem þeir gegna og forðast að hafast nokkuð það að, sem er þeim til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er þeir vinna við. Starfsmenn eiga að gæta þess að þiggja ekki greiðslur eða annan viðurgjörning frá viðskiptamönnum ef túlka má það sem endurgjald fyrir greiða. Þeim ber að hafa í heiðri ýtrustu kröfur um ráðvendni, heiðarleika og réttlætiskennd í störfum sínum. Æskilegt er að starfsmenn leggi rækt við eigin heilsu og ástundi heilbrigt líferni. 

Starfsþróunaráætlun, símenntun

Í síbreytilegu þjóðfélagi er rík þörf á endurmenntun hvaða starfi sem við gegnum. Til endurmenntunar telst hvers konar nám sem þroskar einstaklinginn, bæði persónulega og faglega en innan grunnskólans er fyrst og fremst horft til endurmenntunar sem nýtist í starfi. Til endurmenntunar teljast m.a. nám í viðurkenndum menntastofnunum, námskeið, fræðslufundir, kynnisferðir og annað sem hjálpað getur til við umbætur og skólaþróun.

Starfsmenn skulu leitast við að laga sig að þeim kröfum sem starfið gerir til þeirra og skulu reiðubúnir að þjálfa sig til nýrra og breyttra verkefna. Starfsþróun er á ábyrgð starfsmanns og yfirmanns og skal m.a. sinnt með starfsmannasamtölum, símenntun og samvinnu. Starfsþróun og starfsöryggi tengist með beinum hætti. Stefnt skal að því að starfsmenn eigi kost á símenntun innan sem utan stofnunar til að auka þekkingu sína og faglega hæfni sem nýtist í starfi. Það er jafnt á ábyrgð starfsmanns og yfirmanns að viðhalda og bæta fagþekkingu og aðra þá sérþekkingu sem nauðsynleg er í starfi.

Á vegum grunnskólans er lögð rík áhersla á námskeið sem öllum kennurum og öðru starfsfólki er ætlað að sækja og beinast að markmiðum og þörfum skólans hverju sinni. Rannsóknir sýna að slík námskeið eru mun líklegri en önnur til að skila sér í árangursríkara skólastarfi. Einnig geta kennarar sótt námskeið í þeim greinum sem þeir ákveða sjálfir eða eftir áhugasviðum til að styrkja og efla persónulega færni þeirra.

Í Grunnskóla Hornafjarðar er lögð áhersla á að sérhver starfsmaður komi með hugmyndir um það hvernig hann hyggst standa að endurmenntun sinni en þær hugmyndir verða að falla að stefnu skólans. Þessar hugmyndir eru ræddar og útfærðar í starfsmannaviðtölum.

Jafningjastuðningur er árangursrík leið til að efla starfsfólk í starfi. Í skólanum verður því reglulega staðið fyrir jafningjastuðningi og litið á hann sem hluta af endurmenntun og starfsþróun starfsmanna. Við slíkan stuðning skal tekið mið af stefnu skólans og kjörorð skólans höfð í hávegum, virðing, jákvæðni, vinátta, frelsi og metnaður. 

Á hverju ári liggur fyrir hvaða áherslur verða í símenntun í skólanum á næsta skólaári og tengjast þær verk- og þróunaráætlun skólans.

Í starfsþróunaráætlun eru eftirfarandi atriði höfð að leiðarljósi:

  • Í skólanum er lögð áhersla á að halda reglulega námskeið fyrir allt starfsfólk skólans sem stuðla að öflugra námsumhverfi og bættum skólabrag.
  • Í skólanum er reglulega farið í skólaheimsóknir og námsferðir sem öllum starfsmönnum gefst kostur á að fara í og eru hluti af símenntunaráætlun skólans.
  • Skólinn hvetur starfsmenn til að taka þátt í námskeiðum sem skólinn býður upp á.
  • Skólinn hvetur starfsmenn til að taka þátt í námskeiðum sem í boði eru í sveitarfélaginu og eins námskeiðum sem aðrir aðilar bjóða upp á og styrkt geta viðkomandi í starfi.
  • Skólastjórnendur geta óskað eftir því að starfsmenn sæki námskeið á starfstíma skóla. Það skal gert í samvinnu og samráði við starfsmenn.  
  • Skólinn styrkir starfsmenn til að taka þátt í námskeiðum og endurmenntun, enda sé þátttaka í slíku skipulögð í samráði við skólastjórn.
  • Styrkur skólans er háður fjárveitingum til skólans á hverjum tíma og einnig þörf skólans fyrir viðkomandi námskeið eða endurmenntun.
  • Starfsmenn eru hvattir til að nýta sér rétt sinn til námsstyrkja frá stéttarfélögum sínum.
  • Hluta viðveru er unnt að safna saman og nýta til námskeiða á skólatíma enda er það hluti af sveigjanleika skólastarfsins.
  • Æskilegt er að starfsmenn sem sækja námskeið geri stuttlega grein fyrir námskeiðinu á starfsmannafundi.
  • Áætlunin nær til allra starfsmanna skólans. 

Starfsþróunaráætlun

Gerð er langtímaáætlun um starfsþróun þar sem stærstu línurnar eru dregnar en þegar nær dregur bætast svo við fleiri starfsþróunartilboð. Hér má sjá nánari útfærslu síðasta árs og næsta árs.  

2020-2021 2021-2022 2022-2023 2023-2024

· Vinnuverndar-námskeið - eldvarnarnámskeið

· Uppeldi til ábyrgðar Dagsnámsskeið fyrir alla ágúst

· Teymisvinna – námskeið júní og svo eftirfylgni og samvinna veturinn 20-21

· Jafningjastuðningur

· Frammistöðumat

· Starfsmannasamtöl

· Fagnámskeið

· Fræðsla um þroskafrávik, námserfiðleika eða hegðunarerfiðleika

· Skólaheimsókn erlendis

· Jákvæð sálfræði

· Skriftarkennsla

· UT-ís online

· Haustþing – kennaranámskeið – eigum við kannski að fá námskeið Vöndu/Ingvar

· Leiðsagnarmat

· Yfir netið námskeið t.d. í skapandi skilum

· Margrét Hugadóttir, jörð í hættu og fullt af verkefnum

· Öll börnin okkur 13. ágúst í Rvk.

· Skyndihjálpar-námskeið

· Uppeldi til ábyrgaðr restitution 2

· Jafningjastuðningur/ teymisvinna – áframh.

· Frammistöðumat

· Starfsmannasamtöl

· Fagnámskeið

· Fræðsla um þroskafrávik, námserfiðleika eða hegðunarerfiðleika

· Skólaheimsóknir innalands í litlum eða stærri hópum

· Haustþing – kennaranámskeið

· Ými námskeið á vegum sveitarfélagsins skv. fræðslustefnu þess

· Verndarar barna

· Upprifjun frá Kvan

· Teymisvinna – Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

· Leiðsagnarnám, hvernsvegna, hvernig, hvað? - Leshópar

· Hreyfing í skólastarfi

· Áframhaldandi vinna með tækni og ipada

· Vinnuverndar-námskeið

· Uppeldi til ábyrgðar -stutt upprifjun

· Jafningjastuðningur ?

· Frammistöðumat

· Starfsmannasamtöl

· Fagnámskeið

· Fræðsla um þroskafrávik, námserfiðleika eða hegðunarerfiðleika

· Skólaheimsókn innanlands

· Haustþing – kennaranámskeið

· Ými námskeið á vegum sveitarfélagsins kv. fræðslustefnu þess

· Utís online

· Vinnuverndar-námskeið

· Uppeldi til ábyrgðar -stutt upprifjun

· Jafningjastuðningur ?

· Frammistöðumat

· Starfsmannasamtöl

· Fagnámskeið

· Fræðsla um þroskafrávik, námserfiðleika eða hegðunarerfiðleika

· Skólaheimsókn innanlands

· Haustþing – kennaranámskeið

· Ými námskeið á vegum sveitarfélagsins kv. fræðslustefnu þess

·

Allir kennarar skólans fá starfsþróunarblað frá skólastjórnendum þar sem þeir eru beðnir um að skrá inn starfsþróun sína og þann tímafjölda sem þeir verja til hennar. Í starfsmannasamtölum í janúar/febrúar verður skjalið rætt með tilliti áætlunar hvers og eins kennara og kjarasamningsbundins starfsþróunartíma (KÍ). 

Starfsmannaviðtöl

Yfirmaður skal hlutast til um að starfsmannasamtöl séu tekin að minnsta kosti einu sinni á ári en helst oftar því það skilar sér yfirleitt betur til starfsmanna. Í starfsmannasamtali skal leitast við að fá fram hugmyndir viðmælenda um það hvernig hann geti eflt starfshæfni sína og auðgað starf sitt. Tilgangur starfsmannasamtala er að tryggja að kröfur og væntingar yfirmanna og starfsmanna séu ljósar og að samráð sé haft um umbætur þar sem þeirra er þörf. Ræða skal fræðsluþörf og leiðir til úrbóta. Einnig á starfsmaðurinn í starfsmannasamtali að geta rætt líðan sína á vinnustað, frammistöðu og óskir um starfsþróun.

Frammistöðusamtöl eru hluti af starfsmannasamtölum en þá ræða yfirmenn sérstaklega við kennara eftir að vera búnir að fylgjast með þeim í kennslu. Misjafnt er hvort stjórnandi situr heilan tíma eða kemur nokkrum sinnum inn í kennslu fyrir slíkt samtal, frekar er lögð áhersla á að stjórnandi komi nokkrum sinnum inn. Mikilvægt er að kennarar vita hvað það er sem stjórnandi er að horfa eftir þegar hann kemur inn í kennslu og því hefur verið samþykkt að vinna eftir hugmyndum um viðmið í kennslustofunni sem rekja má til John Morris við Ardleigh Green Junior School í London en voru þýddar og staðfærðar af Eygló Friðriksdóttur skólastjóra í Sæmundarskóla.

Upp getur komið sú staða á vinnustað að stjórnandi þurfi að ræða við starfsmenn um eitthvað sem betur má fara í starfi hans. Við slíkar aðstæður eru notuð sérstök, formleg og umbótamiðuð leiðbeiningasamtöl. Markmið slíkra samtala er alltaf að finna jákvæða leið til lausnar þeim vanda sem upp hefur komið. 

Samskipti á vinnustað

Samskipti í Grunnskóla Hornafjarðar skulu grundvallast á gagnkvæmri virðingu, umburðarlyndi og jákvæðu viðmóti. Umburðarlyndi og virðing fyrir nemendum og samstarfsfólki eru grundvallarviðmið sem framar öðru eru til þess gerð að skapa traust í öllum samskiptum. Hafa skal í heiðri allar almennar siðareglur milli einstaklinga. Ummæli, tjáning eða annað atferli starfsmanns sem ógnar, truflar eða ögrar og veldur óþægindum verður ekki liðið. Litið verður á slíka hegðun, svo og á kynferðislega áreitni og einelti, sem alvarleg brot í starfi. Slík hegðun getur leitt til áminningar og starfsmissis. Telji starfsmaður sig verða fyrir einelti eða öðru ofbeldi á vinnustað skal hann leita til yfirmanns síns sem setur málið í farveg skv. leiðbeiningum sem fram koma í sameiginlegri eineltisstefnu sveitarfélagsins. Treysti starfsmaður sér ekki til að tala við yfirmann sinn t.d. vegna þess að það er hann sem er að áreita þá er starfsmaðurinn hvattur til að ræða við annan yfirmann s.s. fræðslustjóra eða öryggistrúnaðarmann vinnustaðarins svo málið komist örugglega í ferli. Sérstaklega skal minnt á eineltisteymi á vegum sveitarfélagsins sem öllum starfsmönnum er heimilt að leita til telji þeir sig verða fyrir áreitni eða einelti á vinnustaðnum. Frekari upplýsingar um það teymi er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins.  

Ábyrgð alls starfsmannahópsins er einnig mikilvæg þegar kemur að einelti eða öðru ofbeldi á vinnustað og mikilvægt að hópurinn láti slíka hegðun ekki viðgangast verði einhver var við hana.

Vellíðan á vinnustað er ekki aðeins æskileg heldur sjálfsögð réttindi hvers og eins.

Vinnuumhverfi – vinnuvernd

Stefnt skal að því að vinnuumhverfi sé eins þægilegt og aðlaðandi og aðstæður leyfa. Stjórnendum ber að stuðla að heilbrigðu vinnuumhverfi og áhættumat skal framkvæmt reglulega. Vinnuverndarnámskeið skulu haldin reglulega og við skólann starfa öryggisverðir og öryggistrúnaðarmaður. Vinnuumhverfi starfsmanna skal vera laust við hættuleg efni og aðra vá eins og kostur er. Starfsmönnum ber að fylgja þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra um öryggi og gætni í starfi. Grunnskóli Hornafjarðar er reyklaus vinnustaður og notkun vímuefna við störf er óheimil. 

Fjarvera -veikindi

Minni veikindafjarvera er líkleg til að skila sér í betri árangri og meiri vellíðan starfsmanna. Þess vegna er í skólanum unnið eftir sameiginlegri viðverustefnu sveitarfélagsins sem miðar að því að starfsmenn viti hvert þeir eiga að snúa sér í veikindum og þeir viti hvernig unnið er með fjarveru, sjá nánar á slóðinn. Öll vinna með fjarveru starfsmanns miðar að því að styrkja starfsmanninn þannig að hann geti tekist á við starf sitt og ekki er gripið til íhlutunar fyrr en fjarvera er orðin umtalsverð og óútskýrð.

Í veikindatilfellum skal eftirfarandi haft í huga:

  • Starfsmönnum ber að tilkynna veikindi til skrifstofu skólans að morgni hvers dags sem þeir eru veikir, nema um langvarandi veikindi sé að ræða
  • Sé starfsmaður oft frá vinnu vegna veikinda, getur skólastjórn óskað eftir að viðkomandi starfsmaður skili læknisvottorði.
  • Lengri veikindi á að staðfesta með læknisvottorði.
  • Um fjarveru starfsmanna vegna veikinda barna fer eftir ákvæðum kjarasamninga.
  • Um veikindi í orlofi gildir að starfsmanni ber að tilkynna þau strax til skólastjóra. Ekki nægir að tilkynna þau um leið og læknisvottorði er skilað inn þegar starfsmaður snýr aftur til starfa að orlofi loknum.

  • Æskilegt er að forfallaður kennari reyni eftir því sem unnt er að setja skólastjóra eða forfallakennara inn í þá kennslu sem kennarinn á að inna af hendi þann dag (þá daga) sem hann er fjarverandi vegna veikinda, t.d með því að senda skólastjóra/forfallakennara tölvupóst.
  • Kennsluáætlanir annarinnar og vikuskipulag skal vera skýrt og aðgengilegt þannig að þeir sem sinna forföllum geti unnið eftir því. Kennsluskipulagið á að vera fyrir alla nemendur, líka þá sem ekki fylgja bekkjarnámskrá. Einnig er gott að bekkjarkennarar og faggreinakennarar hafi ávallt tilbúið efni sem hægt að grípa til ef viðkomandi kennari veikist og auðvelt er fyrir hvern sem er að grípa til. 

  • Minnt er á að góðar kennsluáætlanir auðvelda alltaf forfallakennslu.

Fjarvera - leyfi

Kennarastarfið býður upp á ákveðinn sveigjanleika sem sjálfsagt er að koma til móts við svo framarlega sem það bitnar ekki á námi nemenda. Til greina kemur að kennarar geti fengið leyfi tiltekinn tíma enda undirbúi kennarinn leyfið vel þannig að það valdi sem minnstri röskun á kennslu og starfi skólans.

Í slíkum tilfellum er um þrennt að ræða:

  • Að kennari fari í launalaust leyfi
  • Að kennari vinni leyfið af sér. Hér er t.d. um að ræða að kennarinn kenni forföll, sinni félagsstörfum eða ákveðnum verkefnum og launin gangi upp í leyfið.
  • Að kennari borgi sjálfur afleysingamanni laun fyrir þá kennslu sem af leyfinu leiðir, og falli þá ekki af launaskrá meðan á leyfi stendur.
  • Sama gildir um leyfi annarra starfsmanna skólans.
  • Lögð er áhersla á að sveigjanleikinn verði að vera gagnkvæmur.

Vinnuslys

Verði starfsmaður skólans fyrir slysi í vinnutíma í skólanum ber honum að tilkynna það eins fljótt og auðið er til öryggisvarðar sem gerir skriflega skýrslu um óhappið og lætur skólastjóra vita.

Vinnutími

Losað hefur verið um bindingu vinnutíma kennara og þeirra starfsmanna sem vinna samkvæmt vinnutímaskilgreiningu kennara en það eru þroskaþjálfar, námsráðgjafi og málsvari með þessum formerkjum

  •  Vinnutími þeirra sem eru í fullu starfi er 42,82 stundir.
  •  Skilgreindur bundinn vinnutími þeirra sem eru í 100 % starfi er frá 8-16 alla virka daga.
  •  Gengið er frá vinnuskýrslum og áætlun um nýtingu 8.14 tímanna með kennurum í upphafi hvers skólaárs.
  •  Á skilgreindum vinnutíma skulu þessir starfsmenn láta ritara vita þegar farið er úr húsi.
  • ·Faglegt skólastarf er í fyrirrúmi þar sem lögð er áhersla á samvinnu, teymisvinnu og velferð nemenda sem ganga fyrir sveigjanleika.
  •  Á skipulagsdögum á skólaárinu er vinnutími samkvæmt skilgreindum vinnutíma.
  •  Ritari þarf að vita hvernig hægt er að ná í alla á skilgreindum vinnutíma.
  •  Fastir fundir eru á mánudögum frá kl. 14:30 – 16:00.
  1.  mánudag í mánuði er almennur starfsmannafundur
  2.  mánudag í mánuði fundir verkefnateyma
  3. . mánudag í mánuði eru kennarafundir
  4.  mánudag í mánuði eru deildarfundir
  •  Á miðvikudögum hefur verið tekinn frá tími fyrir samstarf kennsluteyma frá 14:30- 16:00. Þetta er gert svo allir í teymunum hafi möguleika á að hittast vegna t.d. ólíkra tímasetninga og fleira. Allir kennarar eru í kennsluteymum.
  • Tími í verkefnateymin LTÁ, HOV og sjálfsmati er áætlað 18 klukkustundir yfir veturinn og skipuleggja teymin sig sjálf undir stjórn þeirra sem leiða teymin. Þó er tími tekinn frá 2. mánudag í mánuði sem teymin geta hist eða hitt alla starfsmenn. Meiri tími er áætlaður fyrir þá sem stjórna teymunum í vinnuna enda fá þeir greitt aukalega fyrir það. Hlutverk teyma er m.a. Sjá frekari skilgreiningu á teymum í kafla 4.
  • Starfsmenn eru hvattir til að vera virkir á fundum og nýta þá til að hafa áhrif á skólastarfið og taka þannig þátt í skólaþróun. Einnig eru starfsmenn hvattir til að koma með tillögur að fundarefni.
  •  Mikilvægt er að starfsmenn lesi fundargerðir og setji sig sjálfir inn í mál hafi þeir einhverra hluta vegna misst af fundi.
  • Hluta viðveru er unnt að safna saman og nýta til námskeiða á skólatíma enda er það hluti af sveigjanleika skólastarfsins.
  • Á hverju ári er gefið út skóladagatal fyrir skólann þar sem starfstími vetrarins er skilgreindur. Samhliða skóladagatali er gefið út viðburðadagatal þar sem helstu þættir í skólastarfinu eru tíundaðir. Skóladagatal tekur sjaldnast nokkrum breytingum en viðburðadagatal getur breyst yfir veturinn.
  • Auk vinnuskyldu yfir veturinn hefur kennari í fullu starfi 102 klst á ári til starfsþróunar og undirbúnings utan þeirra 42.86 stunda sem vikulegur vinnutími er. Misjafnt er hvenær kennarar vinna þessar stundir en góð venja er að skrá það í vinnustund.

Binding á vinnutíma annarra starfsmanna

  • Bundin viðvera fer eftir ákvæði um vinnutíma í starfskjörum skólaliða, ritara og stuðningsfulltrúa. Starfsmaður í fullu starfi hefur að jafnaði viðveru frá 8:00 -16:00.
  • Allir almennir starfsmenn hafa viðveru til 16.00 alla mánudaga. Þá eru ýmist almennir starfsmannafundir, deildarfundir, fræðsla til starfsmanna eða annað sem þörf er á.
  • Þessir aðilar skulu sitja starfsmannafundi og samráðsfundi eftir því sem við á hverju sinni.
  • Hluta viðveru er unnt að safna saman og nýta til námskeiða á skólatíma enda hafi starfsmenn samþykkt það.

Jafnrétti

Í stjórnarskrá lýðveldisins stendur að „allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, kynhneigðar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna“. Allir starfsmenn eiga að geta komið skoðunum sínum á framfæri og virðing skal borin fyrir ólíkum skoðunum.

· Stjórnendur skulu gæta jafnréttis við mannaráðningar, uppsagnir, og tilfærslur starfa og viðfangsefna sem starfsfólki er ætlað að sinna.

· Allt starfsfólk ber ábyrgð á að skapa fordómalaust andrúmsloft.

· Launajafnrétti er í skólanum og skulu konur og karlar njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf og er þeim heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa.

· Laus störf innan skólans standa opin bæði konum og körlum.

· Við nýráðningar verður leitast við að jafna kynjahlutfall. Skal það kyn sem er í minnihluta í starfi því sem auglýst er eftir að öllu jöfnu ganga fyrir ef um jafnhæfan einstakling er að ræða sem uppfyllir skilyrði starfsins.

· Allt starfsfólk skólans á að njóta sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar og búa við jafna möguleika til stöðuhækkana, stöðubreytinga og breytinga á vinnuaðstæðum.

· Starfsfólki skal gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldunni.

· Árlega skal gera kyngreinanlegar kannanir á líðan og samskiptum starfsfólks.

· Kynbundið áreiti, kynbundið ofbeldi eða kynferðislegt áreiti er aldrei liðið í skólanum. Komi slíkt upp er unnið eftir viðbragðsáætlun sveitarfélagsins gegn einelti og kynbundnu kynferðislegu ofbeldieða áreiti .

Framkvæmd, eftirfylgni og endurskoðun

Jafnréttis og mannréttindastefna skólans skal kynnt öllum þeim sem að skólastarfinu koma, s.s. foreldrum, starfsfólki og nemendum og hún birt á vefsíðu skólans. Reglulega skal fara fram faglegt mat á áhrifum stefnunnar og skulu niðurstöður matsins kynntar reglulega. Niðurstöður skulu einnig birtar á vefsíðu skólans.

Til að stefnan skili árangri er nauðsynlegt að hafa skýra mælikvarða í tengslum við þau markmið sem koma fram í henni. Þau matstæki sem lögð eru til grundvallar eru starfsmannasamtöl og viðhorfakannanir meðal starfsfólks.

Innan skólans er unnið eftir aðgerðarbundinni jafnréttisáætlun þar sem nánar er kveðið á um verklag og ferla. Jafnréttisstefnuna skal endurskoða í heild sinni á þriggja ára fresti. Jafnréttisáætlun skólans byggir á jafnréttisáætlun sveitarfélagsins Hornafjarðar.  

Móttaka nýrra starfsmanna

Mikilvægt er að kynna nýjum starfsmönnum starfið og vinnustaðinn. 

Eftirfarandi atriði ber að hafa í huga:

 Gera ráðningarsamning og fara vel yfir starfslýsingu – allir undirrita starfslýsingu við undirritun kjarasamnings.

  • Gera vinnuskýrslu fyrir kennara.
  • Allir skrifa undir leyfi til að afla upplýsinga úr sakaskrá.
  • Allir undirrita trúnaðaryfirlýsingu vegna persónumála.
  • Afhenda helstu gögn s.s. handbók, skólanámskrá, bekkjarnámskrá og starfsmannalykil allt eftir því sem við á hverju sinni.
  • Stofna svæði fyrir starfsmanninn á server skólans og búa til netfang fyrir hann.
  • Kynna starfsmanninn fyrir öðru starfsfólki, nemendum og foreldrum eftir því sem við á.
  • Sýna starfsmanninum skólahúsnæðið.
  • Sýna starfsmanninum vinnuaðstöðuna sína, afhenda þau gögn sem hann þarf til að geta notað hana s.s. lykla, bækur og fleira.
  • Útvega nýjum starfsmanni „leiðsagnarmann” sem hann getur leitað til fyrstu vikurnar á meðan hann er að komast inn í starfið.
  • Fara yfir helstu þætti sem snúa að vinnuvernd og öryggi í starfi, m.a. að sýna neyðarútganga, léttitæki, staðsetningu á slökkkvitækjum og brunaslöngnum.
  • Afhenda vinnuverndarbæklinga ef þurfa þykir (gildir sjaldnast um starfsfólk grunnskóla).
  • Fara yfir grunnþætti í símenntunarstefnu skólans.
  • Mikilvægt er að taka eins á móti nýjum starfsmanni þó hann byrji á öðrum tíma en að hausti.

Siðareglur og starfsagi

Áhersla er lögð á að útgefnum siðareglum KÍ og annarra stéttarfélaga sem starfsmenn skólans tilheyra sé fylgt. Einnig er í skólanum lögð sérstök áhersla á að hver og einn einstaklingur sýni gott fordæmi varðandi alla framgöngu sína í störfum sínum og samskiptum og styðjist þar við gildi skólans sem eru virðing, metnaður, vinátta, frelsi og jákvæðni.    

Mikilvægt er að starfsmenn séu stundvísir og ber stjórnanda að fylgjast með mætingum, fjarveru á vinnutíma og brotthvarfi af vinnustað áður en reglulegum vinnudegi lýkur. Starfsmenn skulu hafa í heiðri virðingu og trúnað í samskiptum bæði innan skóla og utan er varða málefni þeirra er tengjast starfsemi Grunnskóla Hornafjarðar. Þá ber starfsmönnum að fara að stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og sérstökum siðareglum sveitarfélagsins eins og þær kunna að vera hverju sinni. Starfsmönnum ber að hlíta lögmætum fyrirmælum yfirmanna sinna, sýna heiðarleika, trúmennsku og vandvirkni og gæta þagmælsku um atriði sem þeir verða áskynja í starfi. Þagnarskylda helst þó látið sé af störfum

Trúnaður starfsmanna

Samkvæmt lögum eru starfsmenn Grunnskóla Hornafjarðar bundnir trúnaði (þagnarheiti) hvað varðar persónulegar upplýsingar um nemendur, forráðamenn þeirra og samstarfsmenn sína hvort heldur sem þessar upplýsingar koma úr rafrænum miðlum eða annarsstaðar frá. Þagnarheitið gildir einnig þótt starfsmaður láti af störfum við skólann.

Persónulegar upplýsingar eru t.d. einkunnir, tímasókn, athuganir sálfræðinga og annarra sérfræðinga, athuganir gerðar af starfsmönnum skólans, heilsufar og einstök mál, veikindi, mætingar o.fl. er upp kann að koma hjá nemendum, forráðamönnum og samstarfsmönnum.

Við undirritun ráðningarsamnings staðfesta starfsmenn þagnarheit sitt með því að undirrita skjal um trúnað og við ráðningu samþykkja þeir að leitað sé eftir upplýsingum um þá í sakaskrá.

Ef kennarar fá vitneskju um að lög séu brotin ber þeim að tilkynna það til skólastjórnanda og persónuverndarfulltrúa sveitarfélagsins.

Meðferð upplýsinga

Óheimilt er að veita upplýsingar um t.d. einkunnir, tímasókn eða annað það er varðar persónulega hagi nemenda og forráðamanna þeirra til óviðkomandi. Einnig er óheimilt að veita óviðkomandi aðilum persónulegar upplýsingar um starfsfólk skólans.

Í framkvæmd er þetta þannig að kennarar og starfsfólk veita ekki upplýsingar um einstaka nemendur, forráðamenn eða starfsfólk til óviðkomandi heldur vísa öllum slíkum beiðnum til skólastjóra.

Foreldrar eiga rétt á að fá allar upplýsingar um skólagöngu barns síns hvort sem þeir eru í sambúð eða ekki sbr. 52 gr. barnalaga 27. mars 2003. „Það foreldri sem ekki hefur forsjá barns á rétt á að fá upplýsingar um barnið frá leikskólum, skólum, sjúkrahúsum, heilsugæslu- og félagsmálastofnunum, félagsmálanefndum, barnaverndarnefndum og lögreglu. Réttur samkvæmt þessari málsgrein felur ekki í sér heimild til að fá upplýsingar um hagi forsjárforeldris”.

Í 18. gr. grunnskólalaga kemur fram að foreldrum er skylt að veita grunnskólanum upplýsingar um barn sitt sem kunna að skipta máli fyrir skólastarfið og velferð þess. Um persónuupplýsingar sem þannig er aflað eða fylgt hafa barni úr leikskóla er krafist fullrar þagnarskyldu og málsmeðferðar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Foreldrum skal gerð grein fyrir þessum upplýsingum. Meðferð upplýsinga skal vera á hendi skólastjórnenda. Væntanleg er reglugerð um meðferð upplýsinga og um rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín.

Upplýsingaflæði innan skólans

Gríðarlegt magn upplýsinga fer um skólann á hverjum degi og mikilvægt er að halda utan um það. Í kjölfar nýlegra upplýsingalaga og persónuverdarlaga þarf skólinn að temja sér nýtt form í skjalavörslu og verður unnið að því næstu misserin. Eins og áður hefur komið fram er mentor sá staður þar sem flestar upplýsingar um nemendur eru skráðar en einnig á hver og einn nemandi vasa í sérstökum skjalaskáp sem aðstoðarskólastjórar halda utan um. Farið er yfir málefni allra nemenda á haustin og reglulega yfir veturinn er farið yfir stöðu nemenda, skólasókn og námsframvindu. Það er á ábyrgð kennara að afla sér frekari upplýsinga og eða skrá þær ef til þess kemur.

Flestar upplýsingar til starfsmanna eru sendar með tölvupósti. Því er mikilvægt að fólk lesi reglulega tölvupóstinn sinn og temji sér jafnvel að hefja starfsdaginn með því að skoða póstinn. Ef starfsmenn þarfnast frekari upplýsinga um mál er mikilvægt að þeir leiti eftir þeim upplýsingum. Um leið og það er á ábyrgð hvers og eins starfsmanns að láta frá sér upplýsingar í samræmi við starfssvið viðkomandi þá er það líka á ábyrgð hvers og eins að kynna sér þær upplýsingar sem fyrir liggja og spyrjast fyrir telji þeir eitthvað vanta upp á.

Verklagsreglur varðandi meðferð á persónugreinanlegum upplýsingum

Verklagsreglur um meðferð persónugreinanlegra upplýsinga miðast allar að því að vernda einstaklinginn og virða friðhelgi hans. Þessar reglur eru unnar í samræmi við persónuverndarlög sem tóku gildi 15. júlí 2018. Grundvallaratriðið er að afla ekki meiri upplýsinga en nauðsynlegar eru og virða trúnað við nemendur, foreldra og samstarfsmenn varðandi allar persónulegar upplýsingar. Það á bæði við innan skólans og utan og sá trúnaður helst þó starfsmaður láti af störfum. 

Í kjölfar laganna 2018 hafa verið unnin eyðublöð sem foreldrar eru beðnir um að fylla út þegar þeir innrita nemendur í skólann. Hluti af þessum eyðublöðum snýst um að fá grunnupplýsingar s.s. nafn, heimilisfang o.s.fr. en hluti af þessu blaði snýst um að foreldrar gefi leyfi fyrir t.d. myndatöku, skólapóstnetfangi og fleira. 

Hafa skal í huga að allir starfsmenn skólans vinna á einn eða annan hátt með persónuupplýsingar 

  • Allir starfsmenn skólans skulu undirrita þagnarskyldu og öryggisyfirlýsingu við ráðningu sem lýtur bæði að upplýsingakerfi skólans og almennum trúnaði.
  • Í ráðningarferlinu skrifar starfsmaður undir eyðublað þess efnis að skólastjórnandi megi afla upplýsinga úr sakaskrá varðandi brot á 12 grein alm. hegningalaga.
  • Sjálfboðaliðar, kennaranemar og aðrir sem koma inn í skólann eiga einnig að undirrita þagnarskyldu og öryggisyfirlýsingu eftir því sem við á. 
  • Allir starfsmenn skulu hljóta fræðslu varðandi meðferð trúnaðarupplýsinga og persónulegra upplýsinga um nemendur, foreldra og starfsmenn. Sjá leiðbeiningar um notkun rafrænna upplýsingakerfa við meðferð persónuupplýsinga nemenda í grunnskólum.
  • Starfsmenn skulu breyta um lykilorð strax við fyrstu innskráningu bæði í tölvur og mentor.
  • Leiki einhver grunur á að óviðkomandi aðili hafi lykilorð skal því breytt strax.
  • Gengið skal úr skugga um að lykilorð að mentor sé ekki vistað í neinum vafra.
  • Senda skal sem minnst af viðkvæmum upplýsingum um nemendur í tölvupósti og helst að hafa þær læstar séu þær sendar.
  • Aldrei safna meiri upplýsingum en við þurfum – eyðum umfram upplýsingum.
  • Ef upplýsingar eru ekki réttar er mikilvægt að leiðrétta þær strax.
  • Allar einstaklingsnámskrár eiga að fá samþykki frá foreldrum með undirritun.
  • Rita skal fundargerð fyrir alla teymisfundi nemenda, prenta út og fá undirritun frá þeim sem sátu fundinn.
  • Fá helsta alltaf undirritaða heimild ef deila á trúnaðarupplýsingum, ath. það gæti t.d. verið undirrituð fundargerð.
  • Skrifa þarf undir upplýst samþykki ef sérfræðingar á vegum fræðslusviðs og/eða félagsmálasviðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar hafa aðkomu að málefnum nemenda og foreldra/forráðamanna. 
  • Þegar sótt er um aðstoð frá sálfræðing eða talmeinafræðing undirriti foreldrar leyfi til að upplýsingarnar séu notaðar í skólastarfinu í vinnu með nemandanum.
  • Ekki skal rita neinar viðkvæmar persónulega upplýsingar í mentor s.s. upplýsingar um greiningar, hegðun eða annað.
  • Einstaklingur hefur rétt til að fá afrit af öllum upplýsingum sem til eru um hann í skólanum.
  • Allir nemendur og starfsmenn eiga sína möppu í læstum skjalaskápum. Þar ber að geyma allar viðkvæmar persónuupplýsingar um þá.
  • Sem fæstir eiga að hafa aðgang að þessum skápum og skólastjórnendur eiga að hafa umsjón með því hvaða gögn starfsmenn geta nálgast þar og hvernig þeir geta nálgast þau.
  • Við innritun í skóla er foreldrum boðið að samþykkja að myndir af barni þeirra birtist á heimasíðu skólans, að barnið fái netfang á vegum skólans og við sérstakar aðstæður megi það fara í bíl með starfsmanni skólans. Mikilvægt er að virða óskir þeirra foreldra sem samþykkja þetta ekki.
  • Ef upp koma vafaatriði við vinnslu eða meðferð persónuupplýsinga skal leitað til persónuverndarfulltrúa sveitarfélagsins.