Um stoðþjónustuna
Rósa Áslaug Valdimarsdóttir og Eygló Illugadóttir hafa yfirumsjón með stoðþjónustu skólans og nemendaverndarráði en þær eru aðstoðarskólastjórar við skólann á sitt hvoru aldursstiginu. Rósa á yngra stigi og Eygló á eldra stigi.
Frekari upplýsingar um stoðþjónustuna má finna í kafla 5 í Skólanámskrá Grunnskóla Hornafjarðar og hægt að nálgast hér.
Verklagsreglur nemendaverndarráðs.
Starfsfólk stoðþjónustu starfar með sérfræðingum utan og innan skólans og markmiðið er að gera þjónustu við börn með sérþarfir eins heildstæða og góða og mögulegt er. Þjónustan er sveigjanleg og tekur mið af þörfum einstaklingsins miðað við þau verkefni sem verið er að vinna í bekknum. Stoðþjónusta er unnin í nánu samstarfi við foreldra eða forráðamenn nemandans.
Með stoðþjónustu er átt við aðstoð og þjónustu sem skólinn veitir nemendum sem taka þarf tillit til í námi og starfi í skólanum vegna sértækra námserfiðleika, tilfinningalegra og félagslegra erfiðleika, fötlunar, þroskaröskunar, geðraskana eða heilsutengdra sérþarfa.
Meginregla í stoðþjónustu er að veita nemanda aðstoð sem veldur sem minnstri aðgreiningu frá öðrum nemendum og gerir honum kleift að vinna sem mest með bekkjarfélögum sínum hverju sinni að teknu tilliti til sérþarfa hans.
Lögð er áhersla á að þjónusta þessi sé sveigjanleg.
Markmið með stoðþjónustu er:
- að samhæfa þjónustu við nemendur með sérþarfir innan skólans
- að bæta líðan nemenda í skólastarfinu
- að styrkja sjálfsmynd og félagslega færni nemenda
- að nemendur fái kennslu við hæfi
- að bæta mælanlegan námsárangur nemenda
- að auka færni nemenda í samvinnunámi
- að auka metnað og áhuga nemenda
- að stuðla að góðri skólasókn nemenda
- að nemendur átti sig á gildi og nauðsyn góðrar grunnmenntunar
- að nemendur þjálfist í sjálfstæðum vinnubrögðum
Ráðgjöf og upplýsingar
Aðstoðarskólastjórar veita starfsmönnum í stoðþjónustu ráðgjöf og leiðbeiningar varðandi þjónustu við nemendur. Þeir eru í samvinnu við greiningaraðila, heilbrigðisþjónustu og aðra aðila um uppbyggingu þjónustunnar samkvæmt greiningum.
Aðstoðarskólastjórar, sérkennarar og þroskaþjálfar eru í samvinnu við foreldra og forráðamenn viðkomandi nemenda og veita þeim ráðgjöf og leiðbeiningar eftir því sem við á.
Nemendaverndaráð
Nemendaverndarráð er starfandi við skólann og aðstoðarskólastjórar halda utan um starfsemi þess.
Hlutverk nemendaverndarráðs er að fjalla um málefni einstakra nemenda sem ekki hefur náðst að leysa á fyrri stigum innan skólakerfisins.
Nemendaverndarráð vinnur í samráði við félagsþjónustu sveitarfélags og barnaverndaryfirvöld vegna málefna einstakra nemenda eftir því sem þurfa þykir.
Aðstoðarskólastjóri boðar til fundar í nemendaverndarráði á 6 vikna fresti og oftar ef þörf er á. Kennarar og aðrir starfsmenn skólans geta óskað eftir að ráðið komi saman vegna einstakra mála. aðstoðarskólastjóri tilkynnir foreldrum, umsjónarkennara og skólastjórnanda um afgreiðslu máls.