Vertu næs !

16. mar. 2017

Í dag komu gestir á vegum Rauða kross Íslands með fræðslu sem ber yfirskriftina ¨Vertu næs¨sem miðar að því að vinna gegn fordómum og undirbúa jarðveginn svo fjölbreytileikinn fái að njóta sín. Það voru þau Aleksandra Chilpala frá Póllandi og Juan Camilo frá Kólumbíu sem deildu reynslu sinni að vera innflytjandi á Íslandi og ýmsu sem því fylgir.  Fyrirlesturinn hefur farið víða og hafa þau heimsótt allt að 70 skóla á landinu og er fræðslan létt og skemmtileg um efni sem ber þó alvarlegan undirtón. Nemendur á mið- og unglingastigi grunnskólans  sem og nemendur FAS hlustuðu á fyrirlesturinn sem var aðlagaður að hverju aldurstigi fyrir sig.

Nemendur virtust hafa mikinn áhuga á efninu og veltu fyrir sér merkingu hugtaka eins og fordómar, staðalmyndir og viðmið. Það voru ekki síst nemendur á miðstigi sem voru virk í umræðunni og innan allra hópanna mátti finna mikinn fjársjóð tungumála og bentu fyrirlesarar á að hvert tungumál væri brú í samskiptum við annað fólk sem er mjög jákvætt. Í tengslum við það komu þau Aleksandra og Juan með ábendingu um mikilvægi þess að gefa þeim sem eru að læra íslensku  tækifæri að æfa sig á íslenskunni með því að tala á íslensku þó svo hún sé ekki fullkomin og töluð með hreim.

Ef foreldrar og börn vilja fræðast meira um átakið er hægt að afla sér upplýsinga  á slóðinni   http://vertunaes.is og þar á meðal má finna teiknimynd https://www.youtube.com/watch?v=ZdRkX0NjyXY">https://www.youtube.com/watch?v=ZdRkX0NjyXY">https://www.youtube.com/watch?v=ZdRkX0NjyXY sem segir ýmislegt um efnið. Fræðslan var í boði Rauða krossins og færir Grunnskóli Hornafjarðar sínar bestu þakkir.