Útskriftarferð 10. bekkjar 2021
Síðustu skóladagana nýttu tíundubekkingar í tveggja daga útskriftarferð um heimabyggð. Fyrsta stopp var í Flatey á Mýrum þar sem nemendur fengu vatnsheldan galla, vettlinga og skó. Því næst var keyrt að Heinabergslóni og þar fóru nemendur í kajakasiglingu á vegum Iceguide.is. Siglt var á lóninu í um klukkutíma og að siglingu lokinni var farið í fjósið í Flatey, en það er eitt stærsta kúabú landsins. Nemendur voru virkilega spenntir fyrir kálfunum en kálfarnir ekki fyrir nemendum. Þegar menn voru búnir að skoða nægju sína var haldið beina leið að Hala í Suðursveit. Þar biðu grillaðar pulsur sem nemendur snæddu á meðan þeir slökuðu á við dynjandi tónlist í hlöðunni. Því næst var haldið í jöklagöngu.Haukur Ingi og Sandra hjá Glacier Adventure aðstoðuðu nemendur við að setja á sig brodda og þegar allir voru til í slaginn gekk hópurinn upp á Breiðamerkurjökul. Haukur og Sandra fræddu nemendur um svæðið og aðstoðuðu síðan fólk við að festa sig í línu til þess að geta horft ofan í sprungu. Þegar nemendur voru búnir að berja dýrðina augum var haldið til baka. Á hótelinu á Gerði beið langþráður kvöldmatur og eftir hann var farið í leiki, spilað, sungið, spjallað og meira að segja farið í eltingarleik við kríur. Það var mikil þreyta í mannskapnum eftir langan dag og um eittleytið voru flestallir farnir að sofa, enda annar álíka langur og skemmtilegur dagur í vændum. Klukkan 8:00 næsta dag fór fólk að tínast á fætur og í morgunmat. Það var rigning og í ljós kom að ekki yrði hægt að fara í klettaklifur eins og til hafði staðið. Nemendur voru svekktir yfir því en létu það samt ekki eyðileggja fyrir sér heldur einsettu sér að hafa gaman að því sem hægt var að gera í allri vætunni. Farið var í bátsferð á svokölluðum Zodiac-bátum á Fjallsárlóni, en það eru uppblásnir gúmmíbátar. Bekkurinn skipti sér niður í þrjá báta og var einn leiðsögumaður í hverjum báti. Siglt var á milli jaka úr jöklinum sem lónið liggur út frá á meðan leiðsögumennirnir sögðu frá ýmsu í sambandi við jakana og bráðnun jökulsins á þessum árstíma. Eftir siglinguna var haldið á Hrollaugsstaði og þar voru grillaðir hamborgarar í rigningunni. Þegar allir höfðu borðað nægju sína var haldið beinustu leið að Lækjarhúsum. Þar var farið á hestbak. Nemendum fannst mjög gaman á hestbaki og á meðan farinn var stuttur reiðtúr rauluðu margir slagara eins og ,,Komum ríðandi að austan‘‘ til þess að ýta undir stemninguna. Fararstjórar ferðarinnar ákváðu síðan að farið yrði að Brunnhóli á Mýrum til þess að fá heimagerðan ,,jöklaís‘‘ unnin úr kúamjólk frá sama býli. Ísinn smakkaðist afar vel. Því næst lá leiðin heim og það var þreyttur en virkilega sáttur hópur sem steig út úr rútunni á bílastæðinu við Heppuskóla.