Umhverfisdagar í grunnskólanum
Nú er velheppnuðum umhverfisdögum í skólanum nýlokið. Sérstaklega var horft til þess hvað væri hægt að gera til að bæta bæinn okkar. Börnin í einum starfshópnum ákváðu að skora á yfirmenn Nettó að hætta að selja einnota plastpoka og bjóða einungis upp á fjölnotapoka. Þau söfnuðu undirskriftum og afhentu Pálma verslunarstjóra listann síðastliðinn mánudag. Pálmi tók vel á móti hópnum, tók við undirskriftalistanum og lýsti yfir vilja sínum til að koma til móts við óskir hópsins. Hann notaði einnig tækifærið til að óska eftir fleiri grænmetis/ávaxtapokum sem einn hópurinn saumaði á umhverfisdögunum og færði Nettó að gjöf, því þeir væru allir búnir.