Skólaslit Grunnskóla Hornafjarðar

13. jún. 2021

Mánudaginn 2. júní voru skólaslit í Grunnskóla Hornafjarðar. Í annað skipti í röðu voru þau með heldur óhefðbundnu sniði af ástæðu sem allir þekkja. Í 1. – 9. bekk voru skólaslitin í bekkjarstofum hvers bekkjar og sáu umsjónarkennarar um skólaslitin. Skólaslitin hjá 10. bekk voru hinsvegar í kirkjunni með foreldrum og allflestum starfsmönnum. Þar voru haldnar stuttar ræður, veittar viðurkenningar til útskriftarnema, tónlistaratriði á vegum þeirra, starfsfólk sem er að láta af störfum kvatt og svo að sjálfsögðu var það sjálf útskriftin.

Aron Freyr Borgarsson flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema og Anna Lára Grétarsdóttir, Filip Orzedowski og Amylee Da Silva voru hvert fyrir sig með tónlistaratriði.

Viðurkenningu fyrir bestan árangur í dönsku hlaut Anna Lára Grétarsdóttir og einnig hlaut hún viðurkenningu fyrir sérlega góðan námsárangur á grunnskólaprófi. Hermann Bjarni Sæmundsson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í list- og verkgreinum og síðan hlutu þrír nemendur viðurkenningu fyrir dugnað og þrautseigju sem skilaði sér svo sannarlega í námsárangri. Þessir nemendur voru Lilja Dögg Einarsdóttir, Siggerður Egla Hjaltadóttir og Stígur Aðalsteinsson.

Að þessu sinni voru 10 starfsmenn kvaddir og voru þeim færðir blómvendir og þakkir fyrir starf sitt í skólanum. Þeir sem kvaddir voru eru í stafrófsröð; Arnþór Fjalarsson, Elín Birna Vigfúsdóttir, Gyða Steinunn Valsdóttir, Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir, Laufey Sveinsdóttir, Salóme Morávek, Sólrún Sigurjónsdóttir, Tova Flórentína Óskarsdóttir, Þórdís María R. Einarsdóttir og Þórgunnur Torfadóttir. Þessir starfsmenn hafa starfað mislengi og í mismiklu starfshlutfalli við skólann en þess má geta að samanlagður starfsaldur þeirra þriggja sem lengst hafa starfað við skólann, Döddu, Flórentínu og Þórgunnar er 101 ár.

Ráðningar fyrir næsta skólaár ganga vel en þó er enn óráðið í starf matráðs og stuðningsfulltrúa en vonandi verður gengið frá þeim ráðningum á næstu dögum. Á heimasíðu skólans má sjá nafnalista starfsmanna fyrir næsta skólaár.

Þrátt fyrir að margt hafi farið farið á annan veg en áætlað var síðasta eina og hálfa árið þá hefur skólastarfið gengið með ágætum. Starfsmenn hafa verið einstaklega duglegir að aðlaga skólastarfið að sóttvarnarreglum hverju sinni og nemendur hafa stundað námið með miklum ágætum. Þetta kemur svo sem ekki á óvart því skólastarfið hefur verið á mikilli siglingu síðustu árin. Samræmd próf komu t.d. einstaklega vel út í 4. og 7. bekk en því miður misfórust samræmd próf í 9. bekk vegna tækniörðugleika. Skólapúlsinn kom einstaklega vel út í skólanum hvort heldur var hjá nemendum eða starfsmönnum. Svo vel að nú liggur fyrir að hækka þurfi viðmiðin um árangur. Þessi árangur byggir á metnaðarfullu starfi kennara og annara starfsmanna skólans og sér ekki fyrir endann á því enda sagði Þórgunnur skólastjóri í kveðjuorðum sínum á skólaslitunum “Ég hef líka verið svo heppin að vinna alltaf með besta fólkinu og þetta fólk verður bara betra og betra. Grunnskóli Hornafjarðar er fullur af afskaplega færu og metnaðarfullu starfsfólki og það er að flytja fjöll. Það hafa orðið gríðarlega miklar framfarir í skólastarfinu á síðustu árum og ég veit að fólk sér ennþá fleiri tækifæri. Mér finnst ég því skila af mér frábærum skóla og það eru bara bjartir tímar framundan í skólanum.”

Þau tækifæri sem starfsmenn sjá felast m.a. í meiri áherslu á hreyfingu í skólanum, meiri samvinnu við foreldra og áframhaldandi teymisvinnu og teymiskennslu.

Nemendur og starfsmenn geta því farið glaðir út í sumarið og látið sig hlakka til haustsins.