Skipulagsdagur mánudaginn 16. mars

13. mar. 2020

Næsta mánudag 16. mars verður skipulagsdagur í Grunnskóla Hornafjarðar og því frí hjá nemendum. Kátakot verður einnig lokað. Þessi ákvörðun er tekin í ljósi þess að búið er að setja á samkomubann vegna Covid-19 og skólum er gert að haga starfi sín samkvæmt þeim tilmælum sem því fylgja. Þau tilmæli eru þó ekki alveg ljós enn sem komið er og verðu mánudagurinn notaður til að þess að gera áætlanir um framhaldið út frá væntanlegum tilmælum.
Þrátt fyrir að búið sé að slá venjulegt skólastarf af á mánudag bið ég fólk um að halda ró sinni. Hér hefur ekkert smit greinst enn sem komið er og þegar kemur að því verðum við upplýst um það.
Það er mikilvægt barnanna vegna og okkar allra að lifa eðlileg lífið áfram jafnvel þó við sleppum einhverju eða gerum einhverja hluti öðruvísi. Hluti af því er að reyna að halda skólastarfi úti eins lengi og hægt er, bæði fyrir börnin en líka fyrir flesta foreldra sem þurfa að sinna mikilvægum störfum á þessum flóknu tímum. Flest bendir til þess að börn smitist síður, verði minna veik en fullorðnir og smiti jafnvel minna þar sem þau veikjast minna. Eflaust eigum við þó eftir að gera einhverjar breytingar á skólastarfinu en engar ákvarðanir hafa verið teknar en sem komið er.
Við munum halda ykkur upplýstum um allar breytingar og koma þeim til ykkar eins fljótt og auðið er en hvetjum ykkur líka til að fylgjast vel með fyrirmælum yfirvalda.
Og aftur, haldið ró ykkar, verið hugmyndarík þegar þið ræðið þetta ástand heima og nálgist viðfangsefnið á skynsamlegan hátt en svarið samt vangaveltum barnanna. Það skiptir máli að stunda hreyfingu og hafa eitthvað fyrir stafni til að stuðla að vellíðan barna og ungmenna. Kannski fer veturinn að kveðja okkur og vonandi viðrar vel til útivistar og leikja um helgina.