Sigruðu First Lego League keppnina
13. nóv. 2025
Nemendur í 7. og 8. bekk Grunnskóla Hornafjarðar unnu sér á dögunum inn rétt til þess að keppa fyrir Íslands hönd í alþjóðlegum
First Lego League (FLL) keppnum. FLL er alþjóðleg Legó keppni sem nær til yfir 600.000 ungmenna í yfir 110 löndum. Markmið FLL er að bjóða ungu fólki að taka þátt í spennandi verkefnum í anda STEM nálgunarinnar. Verkefnin miða að því að skapa færni í vísindum og tækni, örva nýsköpun, og byggja upp lífsleiknihæfileika eins og sjálfstraust, samvinnu og samskiptahæfni. Verkefni FLL eru þverfagleg og má skipta keppninni upp í fjóra áhersluþætti (1) forritun og hönnun, (2) nýsköpunarverkefni, (3) miðlun á efni (kynning og bás), og (4) liðsheild. Keppnin í ár fram í Háskólabíó 8. nóvember síðastliðinn. Í keppninni voru skráð 19 lið, og þar af komu tvö frá Grunnskóla Hornafjarðar; Berserkir og Fortíðarkubbar. Þemað í ár voru fornleifar eða
Unearthed. Bæði liðin helltu sér út í rannsóknir á fornleifafræði og komu í kjölfarið upp með tvö nýsköpunarverkefni. Fortíðarkubbar hönnuðu lítinn dróna sem hægt er að festa neðan í stærri dróna. Litli dróninn getur bæði kafað (t.d. að skipsflökum), grafið og tekið myndir í sprungum. Berserkir hönnuðu box sem þau kalla ArcheoBox. Boxið tekur við fornmynjum og notar bæði skanna og kolefnisgreiningu til þess að áætla ýmsa þætti munarins, svo sem rakastig, aldur og þekkta fundarstaði. Öllum upplýsingum er svo safnað í gagnagrunn sem og er miðlað með Minjastofnun Íslands. Í liðunum tveimur voru samtals 19 nemendur sem hafa síðustu mánuði lagt líf og sál í þetta verkefni. Þau hafa eytt vetrarfríinu sínu í skólanum og allir dagar síðustu vikur hafa farið í verkefnið. Þessi mikla vinna skilaði svo heldur betur árangri þann 8. nóvember s.l. þegar liðin tvö sópuðu til sín verðlaunum í Háskólabíói. Fortíðarkubbar lentu í þriðja sæti í nýsköpunarverkefninu sínu, Berserkir fengu fyrstu verðlaun fyrir liðsheild, og saman deildu þau fyrsta sætinu í vélmennakappleik, en bæði lið fengu hæst 370 stig í þeirri þraut. Að lokum voru það svo Berserkir sem báru sigur úr bítum í heildar stigafjölda keppninnar, en Fortíðarkubbar lentu í öðu sæti. Þess má til gamans geta að FLL keppnin á Íslandi er 20 ára í ár og hefur Grunnskóli Hornafjarðar tekið þátt frá upphafi, og er sigursælasti skóli landsins en sigurinn hefur 5 sinnum fallið okkur í skaut. Þau hafa því unnið sér inn þátttökurétt á mót erlendis, og er stefnan sett á keppni í vor. Næstu mánuðir fara í að bæta forritun þjarkanna, gera nýjar kynningar á ensku og að þróa frumútgáfur af rannsóknarverkefnum okkar. Við erum heldur betur stolt af nemendum okkar og hlökkum til að fylgja þeim áfram í þessu verkefni.