Nýr skólastjóri
Þórdís Sævarsdóttir hefur verið ráðinn skólastjóri við Grunnskóla Hornafjarðar. Hún tekur við af Þórgunni Torfadóttur sem hefur verið skólastjóri við skólann frá stofnun hans en áður var hún skólastjóri Hafnarskóla.
Þórgunnur lætur nú af störfum en fer ekki langt því hún hefur tekið við starfi sviðstjóra fræðslu- og frístundasviðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar.
Þórdís hefur verið skólastjóri Innoent skólans sem er menntaeining sem byggir á skapandi kennsluháttum og valdeflingu nemenda og leggur áherslu á nýsköpun og frumkvöðlafræði. Hún útskrifaðist sem grunnskólakennari 2002 og hefur starfað sem kennari og síðar stjórnandi allar götur síðan. Þórdís hefur verið viðburða- og verkefnastjóri í verkefnum á sviði skólaþróunar, innleiðingu nýrra skólaþátta og lista og menningu, auk þess að sinna formennsku fagfélaga og komið að útgáfu námsefnis. Hún hefur verið fulltrúi í skólanefnd FG frá 2012 og hefur tekið þátt í erlendu skólasamstarfi víða um heim. Þórdís lauk mastersnámi í Menningarstjórnun frá Bifröst 2016.
Þórdís er fædd og uppalin á Rauðabergi á Mýrum, en flutti á Höfn og Miðsker ung að aldri. Hún tók virkan þátt í tónlistarlífi bæjarins þegar hún bjó hér og ekki ólíklegt að hún taki þátt að nýju.
Grunnskóli Hornafjarðar býður Þórdísi velkomna til starfa.