Niðurstöður skólaþings,

22. nóv. 2019

Niðurstöður skólaþings voru kynntar í íþróttahúsinu í gær.  Fulltrúar úr hverjum árgangi sögðu frá því helsta sem kom fram í hópunum. Mið- og elstastig  unnu saman í hópum en á yngrastigi var hver árgangur sér. Nemendur töldu að mesti vandinn liggi í mengun, hlýnun jarðar og plastnotkun. Lausnirnar voru góðar og vel ígrundaðar og fólust meðal annars í að útbúa kynningarefni sem nota mætti í fræðslu fyrir nemendur skólans og fyrir íbúa almennt á Hafnarhittingi. Verndun kóralrifja og gróðursetning voru einnig atriði sem talin voru upp.  Fátækt, hungur, stríð og flóttafólk voru  rædd og finnst börnunum að það eigi að taka á móti fleira flóttafólki sem og að lönd tali meira saman til að koma í veg fyrir stríð. Krakkarnir vilja að mannréttindi verði virt, gætt sé að réttindum minnihlutahópa, og unnið sé gegn einelti

Krakkarnir veltu einnig fyrir sér vandamálum tengdum þeirra nær umhverfið en þar var einnig mengun og plastnotkun ofarlega á lista og lausnin sem kom fram var að hjóla meira, stunda meira íþróttir, endurvinna og endurnýta meira. Bæta þyrfti samgöngur í sveitarfélaginu, fleiri hjólastíga og fækka þyrfti einbreiðum brúm. Nemendur höfðu líka áhyggjur af húsnæðisvanda í sveitarfélaginu sem þurfi að bæta úr en vilja fá fleiri til að setjast hér að.  Hér þyrfti að tæma Rauðakrossgáminn oftar, hafa oftar fatamarkað með notuð föt  og banna orkudrykki. 

Þriðja mál á dagskrá var skólinn þar kom margt fram, fleiri leiktæki, stærri skólastofur, nýtt íþróttahús, prentarar í stofurnar, endurnýja stóla og borð, fleiri og lengri íþrótta og sundtíma, bæta matinn, hafa meiri áhrif á hvað er í matinn.  

Þetta er hluti af því sem kom fram hjá hópunum svo að óhætt er að segja að krakkarnir hafa margt fram að færa. þeir voru líka beðnir um að nefna vettvang fyrir lausnir á vandanum og þeir sem voru oftast nefndir í því sambandi voru bæjarstjórinn, skólastjórinn, forsetinn, Pálmi í Nettó og  Sindri (umfl). Hafnarhittingur var oft nefndur sem staður til að koma fræðslu áleiðis til íbúa sveitarfélagsins.