Lónsöræfi

7. sep. 2021

Dagana 1.-3. september 2021 fóru 10.bekkingar í námsferð í Lónsöræfi. Ferðin hefur markað sér sess sem fastur liður hjá elsta árgangi skólans, og byggir á 9 ára skólagöngu þar sem farið hefur verið í margskonar námsferðir til að læra um náttúru og byggðarsögu í sveitarfélaginu. Ferðir í Lónsöræfi eru einstakar á svo margan hátt. Nemendur læra að skoða magnaða náttúru og kynnast byggðarsögu og fornum búskaparháttum. Helsti kostir námsferða er að nemendahópurinn þjappast saman og stundar holla líkamsrækt með því að ganga nærri 30km leiðir um ótrúlegar náttúrperlur. Ferðalagið inn í Stafafellsfjöll er töluvert ævintýri og nutum við liðveilsu Laufeyjar, Gulla, Eiríks, Reynis, Sigga litla og Sissa sem ferjuðu okkur inn eftir.

Ferðin í ár stóð undir öllum væntingum. Veðrið lék við nemendur og fararstjóra. Jón Bragason var að venju sá sem leiddi hópinn um Illakamb, Víðibrekkusker, Leiðartungur og Tröllakróka. Hulda Björg Sigurðardóttir, Þórdís Þórsdóttir og Sæmundur Helgason voru honum til aðstoðar. Hitabylgjan sem leikið hefur um Austurland undanfarnar vikur var í algleymi þessa sólríku daga í Lónsöræfum. Aðstaðan hjá Ferðafélagi Austur-Skaftafellssýslu er til fyrirmyndar og þökkum við kærlega fyrir okkur.