Lónsöræfaferð

27. okt. 2017

Mánudagsmorguninn 18.september lögðu nemendur 10.bekkjar ásamt Elsu Hauksdóttir, Þórdísi Þórsdóttir, Helgu Árnadóttir og Jóni Bragasyni inn á Lónsöræfi. Það þurfti fimm fjallajeppa til að ferja hópinn upp á Illakamb. Þar tókum við farangurinn okkar úr bílunum og lögðum af stað niður Illakamb í átt að Múlaskála þar sem skipulagið var að gista þar í tvær nætur.

Veðurspáin var þó mjög tvísýn og ekki víst hversu lengi við gætum dvalið í skálanum.

Þegar við komuna í skálann, var stelpunum raðað niður í herbergi en strákarnir gistu uppi á svefnloftinu. Í hádeginu snæddum við grillaðar pylsur við mikinn fögnuð nemenda.

Þegar allir voru tilbúnir í gönguferð var haldið af stað upp að Víðigili. Gangan gekk vel og veðrið var ágætt þrátt fyrir nokkra dropa, í lokin á ferðinni skoraði Jón nemendur á hólm í skriðuhlaupi. Ekki þarf að spyrja að leikslokum þar.

Síðan var hafin undirbúningur fyrir kvöldmatinn, nemendum var skipt í hópa fyrir ferðina og fékk hver hópur sitt hlutverk m.a að undirbúa kvöldmatinn, ganga frá, vaska upp o.fl

Í kvöldmatinn var grillað lambalæri og sykurpúðar í eftirrétt.

Lítið mál var að koma öllum í háttinn og voru krakkarnir uppgefnir eftir erfiðan dag.

 

Á þriðjudagsmorgninum hafði rignt mikið og útlitið frekar svart, svo ekki var hægt að ganga inn að Tröllakrókum. Gulli bílstjóri hringdi í okkar og taldi að ófært væri yfir Skyndidalsá og við þyrftum að ganga fram Kambana í átt að Eskifelli. Krakkarnir fóru strax í það að ganga vel frá eftir sig og skilja við Múlaskála eins og þau komu að honum.

Upphófst mikið ævintýri þar sem við vissum ekki hvort bílarnir gætu sótt okkur inn að Eskifelli eða hvort við þyrftum að ganga lengra fram dalinn og fara yfir göngubrúnna hjá Eskifelli, þar sem bílarnir biðu og þurftu að ferja okkur í litlum hópum fram að Smiðjunesi í rúturnar.

 

Mikil rigning var á leiðinni og tók gangan um 7 tíma, krakkarnir urðu mörg hver mjög blaut en þau voru jákvæð og dugleg að ganga. Það munaði miklu að við gátum skilið stærstan hluta af farangrinum í kerru sem var upp á Illakambi, ekki var þó fært yfir ánna fyrr en á fimmtudegi, svo nemendur þurftu að bíða þangað til, til að fá dótið tilbaka.