Lokakeppni Stóru upplestrarkeppninnar
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór að þessu sinni fram á Þórbergssetri í Suðursveit á 130 ára afmælisdegi Þórbergs Þórðarsonar. Keppendur voru alls 10 og komu frá Grunnskóla Hornafjarðar og Djúpavogsskóla. Keppendur stóðu sig öll vel og var unun að hlýða á lesturinn. En eins og í keppnum yfirleitt þá geta ekki allir sigrað. Til þess að skera úr um hverjir væru sigurvegarar keppninnar var dómnefnd sem var skipuð þeim Baldri Sigurðssyni formanni dómnefndar, Hrafnhildi Magnúsdóttur, Ragnhildi Jónsdóttur, Þorbjörgu Arnórsdóttur og Zophoníasi Torfasyni. Sigurvegari í keppninni var Stígur Aðalsteinsson, Grunnskóla Hornafjarðar. Í öðru sæti var Hekla Pálmadóttir, Djúpavogsskóla og í þriðja sæti var Anna Lára Grétarsdóttir, Grunnskóla Hornafjarðar. Kynnir á keppninni var Tómas Nói Hauksson nemandi í 8.bekk Grunnskóla Hornafjarðar. Boðið var upp á tónlistaratriði frá Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu en tveir nemendur úr 6. bekk þau Alexandra Hernandez og Róbert Þór Ævarsson fluttu nokkur lög. Við þökkum Þorbjörgu í Þórbergssetri kærlega fyrir góðar móttökur.