Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk fór fram í Djúpavogskirkju 1. apríl og kepptu þar 8 nemendur frá Grunnskóla Hornafjarðar og 5 nemendur frá Djúpavogsskóla. Stóra upplestrarkeppnin hefst formlega á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember ár hvert en það er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Fram að lokakeppni leggja nemendur og kennarar sérstaka áherslu á vandaðan upplestur og framsögn. Nemendur lásu texta úr bókinni Draumurinn eftir Hjalta Halldórsson, ljóð eftir fjölda ljóðskálda og ljóð að eign vali. Keppnin var hörkuspennandi að vanda og áttu dómarar erfitt með að velja sigurvegara. Fyrstu þrjú sætin fóru til;
1. sæti,Guðbjörg Lilja Jóhannsdóttir Grunnskóla Hornafjarðar.
2. sæti, Anna Herdís Sigurjónsdóttir Grunnskóla Hornafjarðar
3. sæti, Elías Galdur Birgisson Djúpavogsskóla
Kynnir keppninnar var Sigurður Arnar Hjálmarsson sem var sigurvegari keppninnar í fyrra. Dómnefnd skipuðu þau Berglind Einarsdóttir formaður dómnefndar, Gréta Mjöll Samúelsdóttir og Karen Hjartardóttir. Um tónlist sáu nemendur úr Tónskóla Austur – Skaftafellssýslu.
Það er mikil lifsreynsla fyrir börnin að taka þátt í Lokahátíðinni og lesa upp og túlka texta fyrir framan hóp af fólki og segja má að allir þátttakendur séu sigurvegarar á sinn hátt.