Legóferð 7. bekkjar

13. nóv. 2018

Eftirminnilegri helgi lokið með 36 frábærum nemendum, foreldrum og starfsfólki skólans, á First Lego í Háskólabíó. Við fórum með 4 lið. Árangurinn var ótrúlegur einn hópurinn vann bestu liðsheildina, annar hópur vann róbótahönnunina, síðan var líka einn hópur hjá okkur í 2-3 sæti í heildarkeppninni. Ferðalagið hjá okkur hófst í byrjun september og var nemendum skipt í fjóra hópa, tveir níu manna og tveir tíu manna, sem unnu saman að sama markmiðinu, að taka þátt í keppninni 10. nóvember. Hver hópur átti að finna rannsóknarverkefni sem tengdist geimferðum, forrita þjark (róbot) og skrifa dagbók.

Við notuðum náttúrfræði-, samfélagsgreina-  og valtíma yfir önnina ásamt því að nokkrir nemendur sem höfðu tíma unnu í þjarkinum eftir skóla. Einnig mættu nokkrir nemendur bæði á viðtalsdegi og starfsdegi og unnu bæði í þjarkinum sem og rannsóknarverkefninu, þannig að margir nemendur lögðu mikla vinnu í verkefnið í öllum hópunum.

9. nóvember rann upp og lögðum við af stað rétt fyrir hádegi til Reykjavíkur og vorum komin í íbúðirnar um kvöldmatarleytið. Keppnisdagurinn rann svo loksins upp, allir voru komnir á fætur um sjöleytið og við vorum mætt út í Háskólabíó kl. 8:00. Klukkan níu þegar allt hófst gerðust hlutirnir eins og í rússsíbana og mikið álag var á krökkunum. Uppskeran í keppninni var að við unnum, róbotahönnunina en þar þurfa nemendur að útskýra fyrir dómurum sem spurðu þá spjörunum úr um þjarkinn. Við unnum líka bestu liðheildina sem er ekki síður ánægjulegt en það eru dómarar út um allt að fylgjast með hópunum allan daginn. Einn hópur varð í 2-3 sæti í heildarkeppninni sem er frábær árangur en til þess þarf hópurinn að vera ofarlega í öllum þáttum keppninnar. Eftir keppnina var síðan farið í lacer tag og pizzu og vorum við þar fram að háttartíma.

Sunnudeginum eyddum við svo í Sundhöllinni, Kringlunni, Smáralind og í bíó. Við enduðum þann dag með því að slá upp afmælisveislu því að Margrét María átti afmæli á laugardeginum og Markús á sunnudeginum.

Á mánudeginum byrjuðum við í Ríkisútvarpinu og fengum leiðsögn um ýmislegt sem þarf fer fram og ekki spillti það heimsókninni að Ragnhildur Steinunn heilsaði upp á krakkana. Eftir að hafa borðað pizzu á Hvolsvelli fórum við í Lava safnið og fræddumst um eldgos og jarðhræringar.

Það er ekki eini tilgangurinn með þessari ferð að keppa í First lego keppninni, þessi ferð er líka hugsuð sem menningarferð.

Það voru allir sigurvegarar í þessum hópi, enda voru krakkarnir rómaðir alls staðar.

Takk öll fyrir samveruna, Sunna, Vilhjálmur, Sæmundur Jón, Gunnhildur og Þórhalla, það ómetanlegt að hafa góðan foreldrahóp og aldrei nógu vel þakkað.

Rósa Á. Valdimarsdóttir og Erla Þórhallsdóttir

umsjónarkennarar í 7. bekk