Landshlutafundur Skóla á grænni grein

8. nóv. 2018

8. nóvember hélt Landvernd landshlutafund Skóla á grænni grein í Grunnskóla Hornafjarðar. Skólar á grænni grein eru þeir skólar sem leggja áherslu á umhverfismennt og Grænfáninn er viðurkenning til þeirra sem ná að uppfylla þau markmið sem lögð eru til grundvallar. Yfirskrift fundarins var Sjálfbærnimenntun – fræða en ekki hræða og var sjálfbærnimenntun höfð að leiðarljósi. Þátttakendum var kynnt hvað felst í hugmyndafræðinni, þeir kynntust hugtakinu getu til aðgerða og umbreytandi námi, en hvort tveggja eru lykilþættir í aðferðafræði sjálfbærnimenntunar og Skóla á grænni grein. Þá voru loftslagsbreytingar einnig teknar sérstaklega fyrir. Fundurinn var gagnvirkur og einkennist af umræðum og hópavinnu, ásamt kynningum frá starfsfólki Landverndar.