Kátakot komið með betri aðstöðu í Vöruhússkjallaranum
Undanfarin ár hefur mikil fjölgun orðið á nemendum sem nýta þjónustu Kátakots eða lengdu viðverunnar við skólann. Kátakot er fyrir nemendur í 1. - 4. bekk og af þeim 107 nemendum sem eru í þessum árgöngum nýta um 90 nemendur sér þjónustuna á einn eða annan hátt. Vegna þessa fjölda hafa elstu börnin í Kátakoti fengið aðstöðu í Þrykkjunni en nú hefur annar hluti Vöruhússkjallarans verið tekinn í gegn og búið að koma þar upp aðstöðu fyrir elstu börnin í Kátakoti. Þau eru komin með sér inngang og hafa ákveðið rými út af fyrir sig þó þau megi áfram hafa aðgang að Þrykkjunni.
Það var mikil gleði í hópnum þegar opnað var inn á svæðið í gær.