Iðunn og eplin og Gísli Súrsson
Í morgun fengu nemendur Grunnskóla Hornafjarðar að njóta tveggja leiksýninga í Sindrabæ. List fyrir alla bauð upp á leikritin Iðunn og eplin fyrir yngri nemendurna og Gíslasögu Súrssonar fyrir þá eldri. Það var Kómedíu leikhúsið sem kom til okkar alla leið frá Þingeyri og heillaði nemendur alveg upp úr skónum. Frábær tilþrif á sviðinu hjá Elfari Loga Hannessyni og dásamlegt að fá leiksýningar hingað heim í hérað.
List fyrir alla er ætlað að velja og miðla listviðburðum um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla er lögð á menningu fyrir börn og menningu með börnum. Stefnt er að því að á tíu ára grunnskólagöngu veiti verkefnið börnum góða yfirsýn yfir vettvang lista. Nemendur kynnast fjölbreytni listanna, íslenskum menningararfi og list frá ólíkum menningarheimum. Á þennan hátt er menningarframboð aukið enn frekar og stuðlað að samstarfi listamanna og listahópa með börnum og ungmennum landsins þar sem gæði og fagmennska eru höfð að leiðarljósi.
Hér eru tenglar inn á sýningarnar fyrir þá sem vilja vita meira Iðunn og eplin og Gísli Súrsson .