Húsdýrin kynnt í 1. bekk

28. feb. 2020

Mánudaginn 24. Febrúar stóð 1. Bekkur fyrir sinni fyrstu kynningu og jafnframt fyrstu sýningu. Tilefnið voru lok þemavinnu um íslensku húsdýrin. Þemavinnan hófst strax um áramót og lauk með kynningu á húsdýrunum, sýningu á vinnubókum og listaverki.

Kynnt voru 8 íslensk húsdýr, kindur, kýr, hestar, geitur, svín, hundar, kettir og hænur en til viðbótar var stiklað á stóru um störf bænda og um hlutverk véla í landbúnaði.

Þemavinnan var samsett úr einstaklingsvinnu (vinnubókin) og hópavinnu (kynningin), auk þess sem listaverkið sem hangir á milli stofa 1. E og 1. S var unnið í samvinnu á milli bekkjanna.

Nemendur sungu að lokum lagið „Hani, krummi, hundur, svín“ og uppskáru mikið lófaklapp foreldra, aðstandenda og kennara fyrir enda stóðu allir sig með prýði.