Frekari breytinga á skólastarfi vegna Covid-19
Síðustu tveir dagar hafa gengið vel varðandi skiptingu nemenda en nú ætlum við að ganga enn lengra og skipta starfsmönnum mun meira niður. Algerlega verður lokað á milli húsa, þ.e. enginn starfsmaður verður í báðum húsum. Nokkrir starfsmenn í hvoru húsi munu verða á vegi allra nemenda í því húsi en þeir munu reyna eftir fremsta megni að halda tveggja metra bilið og vera duglegir að þvo sér og spritta. Búnar hafa verið til nýjar bráðabirgða kaffistofur í húsunum fyrir starfsmenn og fyrirkomulagi í kringum salerni, mat og ýmislegt annað verið breytt. Markmiðið er að minnka smithættu og draga úr fjölda sem þarf að fara í sóttkví komi til smits.
Þessar breytingar hafa töluverð áhrif á skólastarfið hjá nemendum og munu þeir fá nýja stundatöflur á morgun hjá kennurunum sínum. Allir nemendur eru beðnir um að koma í góðum útifötum á hverjum degi því lögð verður áhersla á að nemendur fari út og hreyfi sig daglega a.m.k. þegar veður er ekki mjög vont. Hreyfing og útivera er ein besta leiðin til að létta áhyggjum og láta sér líða vel jafnvel þó vindar blási.
Skólaakstri verður flýtt í lok skóladags og fara rúturnar 40 mínútum fyrr heim eða kl. 13:45 frá Hafnarskóla og 13.50 frá Heppuskóla. Þá mun skóla ljúka 13:40 alla daga hjá 5. og 6. bekk.
Helstu breytingar í 1. – 6. bekk felast í því að flestum starfsmönnum verður skipt á annars vegar 1.–3. bekk og hins vegar 4.-6. bekk. T.d. munu sumir smiðjukennararnir aðeins vera í 1. -3. bekk en hinir í 4. – 6. bekk. Þá var 3. bekkur færður í nýja stofu nú síðdegis og munu 3. bekkingar á morgun koma inn um sama inngang og 1. bekkingar og vera í stofum 1 og 2 á neðri hæðinni. Foreldrar 3. bekkinga eru beðnir um að ræða stofubreytinguna við sitt barn.
Helstu breytingarnar á unglingastiginu felast í þvi að öll kennsla í smiðjum og vali fellur niður í 7. – 10. bekk. Nemendur í 9.-10. bekk byrja því seinna í skólanum þrjá morgna í viku og 7.-8. bekkur hættir í hádeginu á smiðjudögum. Þá verður enginn skóli í 7. – 10. bekk eftir hádegi á fimmtudögum.
Í dag var nokkuð um það að nemendur í 7. – 10. bekk færu í Nettó og Olís í frímínútum. Þessir staðir eru ekki lokaðir fyrir neinum (nema Nettó fyrir 10:00) en það er mikilvægt að virða samkomubann og fjölmenna ekki að óþörfu inn í verslanir eða aðra staði. Betra er að nemendur komi með nesti að heiman ef ávaxtabitinn dugar ekki fram að hádegismat. Verslunarferðir er eitt af því sem hver fjölskylda þarf að ræða heima hjá sér og eðlilegt að einn fari í búina frá hverri fjölskyldu á dag en ekki margir.
Nemendur hafa verið einstaklega þægilegir og skilningsríkir og starfsfólk skólans er bjartsýnt og leggur sig allt fram við að láta hlutina ganga upp. Þetta er þó væntanlega bara upphafið að langri vegferð. Við munum leggja áherslu á að halda foreldrum og nemendum upplýstum um allar breytingar og þiggjum að sjálfsögðu alltaf góðar ábendingar og endilega spyrjið ef eitthvað er óljóst.
Við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér en við tökum honum fagnandi og gerum okkar besta.