Foreldrar skólans áhugasamir og ætla sér að ná langt

16. jan. 2020

 

Síðustu tvo daga voru haldnir foreldrafundir fyrir alla bekki skólans þar sem Margrét Lilja Guðmundsdóttir frá Rannsókn og greiningu ræddi við foreldra og nemendur í 7.-10. bekk. Hluti fundanna fór einnig í spjall foreldra og nemenda þó þeim hluta hafi verið sleppt hjá 1. – 3. bekk þar sem æsispennandi leikur Íslands og Ungverjalands stóð yfir á meðan á fundinum stóð.

Margrét Lilja sagði frá niðurstöðum kannana hjá Rannsókn og greiningu og því íslenska forvarnarmódeli sem er orðið heimsfrægt fyrir góðan árangur. Sá árangur byggir fyrst og fremst á öflugu foreldrastarfi. Nú segir Margrét Lilja að ákveðnar vísbendingar séu þó um að slakað hafi á utanumhaldi foreldra e.t.v. vegna breytts umhverfis. Á síðustu 10 árum hafa snjalltækin rutt sér til rúms með allskonar samfélagsmiðlum og áhrifavöldum sem hafa mikil áhrif á börn og fullorðna og við höfum ekki enn náð takti. Samfélagsmiðlar hafa líka laumað sér inn í tölvuleiki sem jafnvel ung börn spila. Mikil sölumennska á sér stað á þessum samfélagsmiðlum sem einkum er beint að börnum og unglingum. Einnig kemur fram að alltof margir unglingar sofa of lítið. Hornfirsk börn skera sig einkum úr hvað vinnu varðar en þau vinna umtalsvert meira en börn og ungmenni almennt á landinu. Stundum er það nauðsynlegt en það verður einnig að hafa í huga að það tekur tíma frá öðru sem er mikilvægt fyrir börnin.

Mæting á fundina var einstaklega góð og foreldrar um 90 % barna mættu. Vel mátti skynja góðan anda í foreldrahópnum og sterkan vilja þeirra til að standa saman og halda áfram að byggja upp sterkt samfélag í sveitarfélaginu sem hlúir vel að börnum og unglingum. 

Hér er hægt að nálgast glærurnar hennar Margrétar Lilju.