Foreldradagur í 1. bekk
Þriðjudagsmorguninn 3. október komu foreldrar nemenda í 1. EG í skólann til að taka þátt í stuttri fjölskylduskemmtun með börnum sínum. Fengu foreldrar og börn þeirra fyrirmæli um að fara í ratleik um skólalóðina og finna á fimm stöðum þarfir sem þau áttu að koma með í heimastofu og líma á þarfahringinn. Foreldrar og nemendur höfðu gagn og gaman af þessum ratleik og var gaman fyrir foreldra að kynnast skólasvæðinu og þeim skólastofum sem börn þeirra eru í og spennandi fyrir nemendur að fá foreldra sína með sér í leik þar sem þau leiddu ferðina og sýndu skólann.
Tilgangur þessa gjörnings var einmitt að foreldrar myndu kynnast húsnæði og umhverfi skólans betur og um leið kynnast þörfunum okkar. Í uppeldi til ábyrgðar, sem er sú stefna sem við störfum eftir í Grunnskóla Hornafjarðar, er unnið út frá því að hver og einn einstaklingur hafi fimm þarfir. Þær eru frelsi (sýnt með fiðrildi), umhyggjuþörf (sýnd með hjarta), áhrifa- og stjórnunarþörf (sýnd með stjörnu), gleðiþörf (sýnd með broskalli) og mikilvægasta þörfin okkar, öryggisþörfin (sýnd með húsi). Nú eru nemendur í 1. EG að læra um þarfirnar og því vissu nemendur mikið um efnið og gátu upplýst foreldra sína í leiknum.
Þetta var vel heppnað og við þökkum foreldrum kærlega fyrir að koma og gefa sér tíma í þessa skemmtun með okkur.
Elín Birna, Guðrún Ása, Katrín Lilja og Sigurbjörg Karen
1. EG