• Vestragil í Bæjarstaðskógi

Fámennt í skólanum í dag

25. sep. 2020

Það var rólegt yfir skólanum í dag.  Einungis nokkrir starfsmenn voru mættir og enginn nemandi. Þegar leið á daginn fór þó að sjást til eldri nemenda sem fengu að skjótast inn í skólann og sækja námsbækurnar sínar enda ljóst að þeir verða í fjarnámi fram eftir næstu viku eða þar til kennarar fara að tínast úr sóttkví. Fyrstu kennararnir gætu mætt á miðvikudag ef þeir fá neikvæðar niðurstöður og á fimmtudag ætti að vera full kennsla ef allt fer að óskum.

Á mánudag verður skóli hjá 1. og 2. bekk og munu tveir kennarar sem ekki eru í sóttkví ásamt öðru starfsfólki skólans sjá um kennsluna. Kátakot verður líka með hefðbundnu sniði hjá þessum nemendum en það mun reyndar loka kl. 15:00 í stað 16:00. Á mánudag mega þeir nemendur úr 3. og 4. bekk sem venjulega eru í Kátakoti mæta þangað á sínum venjulega tíma eða kl. 13:10. Stefnan er svo sett á að fá 3. bekk í skólann á þriðjudag en staðan verður metin á mánudag og foreldrar látnir vita.

Kennarar nýttu tímann þó aldeilis vel í dag því 23 kennarar úr skólanum eru á Utís online sem er námskeið í gegnum netið sem stendur í dag og á morgun. Þetta námskeið er um fjölbreytta kennsluhætti og misjafnar nálganir í kennslu, bæði í gegnum tæknina en einnig með öðrum hætti. Markmiðið er að efla áhuga og árangur nemenda og nýta sem flestar leiðir til þess. Þetta námskeið er skemmtilegt innlegg í þá teymisvinnu sem verið er að innleiða í skólanum og þá iPadvæðingu sem unnið er að og á eflaust eftir að skila sér í kennslu margra.

Þetta eru sannarlega fordæmalausir tímar. En nemendur og foreldrar hafa verið einstaklega skilningríkir og almannavarnarnefnd og sóttvarnarlæknir hafa verið einstaklega hjálpsöm. Það má glöggt finna að við ætlum að klára þetta saman og fyrir það erum við í skólanum einstaklega þakklát.

Myndin sem fylgir fréttinni er úr Öræfaferð 6. bekkjar á dögunum og minnir okkur á alla góðu dagana sem við höfum átt í skólanum og eigum eftir að eiga.