Eftir tvær vikur í samkomubanni

27. mar. 2020

Skólastarf hefur gengið ágætlega í Grunnskóla Hornafjarðar síðustu vikurnar þrátt fyrir miklar breytingar á skólastarfi vegna Covid-19. Vonandi getum við haldið áfram á sömu braut næstu viku sem er síðsta vikan fyrir páska.

Full kennsla er hjá 1.-4. bekk og Kátakot er opið fyrir 1. og 2. bekk þó með breyttu sniði. Skólinn hjá 5. bekk skerðist um eina kennslustund á dag en mun meiri skerðing er hjá 6. – 10. bekk. Þar kemur helmingurinn af bekknum í skólann annan hvern dag auk þess sem kennsla í list- og verkgreinum hefur að mestu verið felld niður.

Tæplega 40 börn eru þó heima þessa dagana í hléi frá skóla vegna Covid-19. Ástæðurnar eru margvíslegar en algengustu eru undirliggjandi sjúkdómur barns eða náins aðstandenda á heimili eða að barnið er af bóndabæ en flestum búum hefur að mestu verið lokað fyrir utanaðkomandi af skiljanlegum ástæðum.

Í skólanum er mikil samstaða og jákvæðni þrátt fyrir allar breytingarnar. Við leggjum okkur fram við að halda 2 m fjarlægð hjá fullorðna fólkinu en það gildir ekki um nemendur. Við finnum líka að það skiptir nemendur máli að hitta félagana enda flestir í litlum tengslum eftir skóla.

Eins og borgarstjóri New York talar um þá er mennskan mikilvæg á þessum skrítnu tímum og nauðsynlegt að stunda líkamlega fjarlægð en vera andlega tengd. Við vinnum með það hér í skólanum og reynum að vera í reglulegu sambandi við þá sem eru heima.

Um leið og við minnum á að börn eru mun ólíklegri en fullorðnir til að smitast af Covid-19 og að bera smit þá áréttum við að öll börn sem ekki eru veik eða í sóttkví eru velkomin í skólann til okkar.