Dagur íslenskrar tungu

20. nóv. 2018

Föstudagurinn í síðustu viku bar upp á 16. nóvember en sá dagur er helgaður íslenskri tungu. Í  grunnskólanum var margt um að vera, menntamálaráðherra Íslands, Lilja Alfreðsdóttir ásamt fylgdarliði kom í heimsókn. Hún skoðaði skólann, fyrst Hafnarskóla þar kíkti hún í matsalinn sem er skreyttur með afrakstri lestrarátaksins og hitti þar krakkana á yngstastigi. Þaðan fór hún og hitti krakkana í 6. bekk og spjallaði við þá um verkefni sem þeir voru að vinna. Næst var Heppuskóli heimsóttur þar sem hún skoðaði meðal annars lego-ið hjá 7.bekk. Í hádeginu fóru nemendur úr grunnskólanum og voru með dagsskrá í "föstudagshádegi í Nýheimum"  Anna Lára og Stígur lásu ljóð, Tinna og Tómas Nói fjölluðu um ævi Jónasar Hallgrímssonar og  2. og 4. bekkur sungu nokkur lög. Seinna um daginn var samkoma í Nýheimum og þar átti grunnskólinn einnig sína fulltrúa en    6. bekkur tók þátt í að opna nýjan nýyrðavef á vegum Árnastofnunar og eiga fyrstu orðin þar inni. Anna Lára, Stígur og Alexsandra lásu ljóð og spiluðu á hljóðfæri.