Breytt fyrirkomulag í Grunnskóla Hornafjarðar vegna Covid-19 og samkomubanns

16. mar. 2020

Vegna Covid-19 og samkomubanns sem því fylgir er skólanum skylt að grípa til ákveðinna aðgerða sem verða útskýrðar hér á eftir. Þrátt fyrir að töluverð röskun verði á ýmsu í skólanum miðum við allar aðgerðir okkar við að halda skólastarfinu í föstum skorðum svo nemendur viti að hverju þeir ganga, þrátt fyrir að þær skorður séu ólíkar þeim sem voru fyrir helgi. Markmiðið er að halda skólastarfi sem lengst úti, þannig truflum við nám barnanna sem minnst, minnkum álagið á þau og styðjum við að samfélagið gangi sem hnökralausast.

Meginviðmið í þeim aðgerðum sem við grípum til er að blanda nemendum ekki á milli hópa. Við höfum óskað eftir undanþágu frá reglunni um 20 börn í hóp þannig að hver bekkjardeild fái að halda sér. Nemendur verða fyrst og fremst í sinni heimastofu en auk þess hefur hver bekkur eitt annað rými til afnota ef þarf. Hefðbundin íþrótta- og sundkennsla fellur niður en ef veður leyfir verða þessar stundir kenndar úti. Vöruhúsið verður lítið notað en kennararnir koma inn í heimastofur til nemenda. Markmiðið með því að halda hópum aðskildum er að minnka líkur á smiti og fækka þeim sem setja þarf í sóttkví komi upp smit.

Til að draga úr smithættu og virða tilmæli landlæknis óskum við eftir því að foreldrar komi sem minnst inn í skólann og hringi frekar en koma inn. Fram að páskum drögum við úr öllum fundum eins og hægt er og fáum eins fáa utanaðkomandi inn í skólann og kostur er.

Meiri áhersla verður lögð á handþvott og höfðað til barnanna um að það er sameiginlegt verkefni allra landsmanna að halda Covid-19 í skefjum. Við biðjum foreldra um aðstoð í þeirri umræðu en minnum samt sem áður á að vekja ekki óþarfa áhyggjur, frekar tala um sameiginlega ábyrgð og sameiginlegt verkefni þar sem við þurfum að hjálpast að svo vel gangi.

Börn í áhættuhóp eða aðstandendur í áhættuhóp

Sú ákvörðun er sett í hendur foreldra hvað þeir vilja gera varðandi skólagöngu hjá börnum í áhættuhóp eða ef einstaklingur í áhættuhóp býr á heimili skólabarns. Óski foreldrar eftir sjálfskipaðri sóttkví fyrir barn sitt munum við reyna að aðstoða sem mest varðandi heimanám og senda hugmyndir að verkefnum heim til þeirra.

Pennaveski og skriffæri

Við biðjum alla sem geta um að koma með pennaveski í skólann og gott væri ef í því væru litir, sérstaklega hjá yngri nemendum. Það er óþarfi að kaupa pennaveski en ef það er til á heimilinu þá óskum við eftir því. Best er að það sem er í pennaveskinu sér merkt nafni barnsins. Nemendur fá blýanta, strokleður, yddara og penna eins og þarf í skólanum.

Skólaakstur

Skólaakstur í Nes og Lón fellur niður og eru foreldrar barna þar beðnir um að koma börnum sínum í skólann og ná í þau. Ef einhverjir geta alls ekki orðið við þessu þá eru þeir beðnir um að hafa samband við Laufeyju Guðmundsdóttur s. 8670493.

Skólabyrjun á morgnana

Nemendur munu mæta á sama tíma og venjulega en breyting verður á inngöngum á þann hátt að 2. bekkur notar innganginn við matsalinn og 9. og 10. bekkur nota innganginn í íþróttahúsinu. Venjulega dreifist koma nemenda á dágóðan tíma og það er engin örtröð. Nemendur fara beint í heimastofu þegar þeir koma á morgnana.

Frímínútur

Frímínútur verða með breyttu sniði – ef tvær bekkjardeildir fara í frímínútur á sama tíma þá verða þær á sitthvorum staðnum. Allir fá frímínútur en ekki á sama tíma og venjulega. Lögð er áhersla á að nemendur í 7. -10. bekk fari ekki í Nettó í frímínútum og alls ekki í fyrstu frímínútum því þá er Nettó einungis opið fyrir aldraða og viðkvæma hópa.

Hádegismatur

Töluverð breyting verður í kringum matinn. 1.-5. bekkur matast í matsalnum í skólanum en ekki á sama tíma og verður matsalurinn sótthreinsaður milli hópa.

6. – 10. bekkur fer heim í hádeginu. Ætlast er til að þessir nemendur fari heim en ekki í Nettó eða á aðra staði. Hver hópur fær klukkustundar matarhlé svo allir ættu að hafa nægan tíma til að fara heim og í skólann aftur. Þeir sem eru í akstri í 6. – 10. bekk fá mat í skólanum í sínu skólahúsi. Ath. að til þess að ekki verði örtröð í anddyrum fara nemendur í mat á ólíkum tímum.

6. bekkur fer í mat kl. 11:50 og kemur aftur í skólann 12:50

7. og 10. bekkur fara í mat kl. 11:50 og koma aftur í skólann kl. 12:50

8. E og 9. bekkur fara í mat kl. 12:00 og koma aftur í skólann kl. 13:00

8. B fer í mat kl. 12:10 og koma aftur í skólann kl. 13:10

Ath. ef nemendur koma í skólann fyrr þá fara þeir beint í heimastofu.

Skólalok

Nemendur munu ljúka skóla á misjöfnum tímum svo ekki myndist örtröð í anddyrum

7. og 10. bekkur fer heim kl. 14:10

8. E og 9. Bekkur fer heim kl. 14:15

8. B fer heim kl. 14:20

6. bekkur fer heim 14:20

5. bekkur fer heim kl. 14:10

4. bekkur á sínum tíma kl. 13:30 ath. Kátakot lokar tímabundið fyrir 4. bekk

3. bekkur fer heim 13:10 ath. Kátakot lokar tímabundið fyrir 3. bekk

2. bekkur fer heim 13:10 – þau sem fara heim, hin eru áfram í stofunni

1. E fer heim kl. 13:10 - þau sem fara heim, hin eru áfram í stofunni

1. S fer heim kl. 13:10 - þau sem fara heim, hin eru áfram í stofunni

 

Kátakot

Þjónusta Kátakots breytist heilmikið. Því miður getum við ekki boðið 3. og 4. bekkingum upp á að vera í Kátakoti og þessir nemendur verða að fara heim strax eftir skóla. Kátakot verður opið fyrir 1. og 2. Bekk en með breyttu sniði. Nemendur fara ekki yfir í Kátkot heldur verða áfram í sínum bekkjarstofum og blandast ekki við aðra bekki. Áfram verður boðið upp á fjölbreytt starf, útveru, leiki, kaffi og fleira. Vonandi veldur þetta ekki vandræðum hjá fólki.

Þegar foreldrar sækja börn í Kátakot þá óskum við eftir því að þeir hringi inn í síma 4708430 eða 4708449 og biðji um að barnið verði sent út

Starfskynningar í 10. bekk

Starfskynningar hjá 10. bekkingum falla niður fram að páskum.

Hér hefur verið farið yfir helstu breytingar sem verða á skólastarfinu. Þetta fyrirkomulag gæti breyst með litlum fyrirvara. Nú tökum við einn dag í einu, gerum okkar besta og hjálpumst að við að láta hlutina ganga.