Berjaferð
Í dag fór 1. – 4. bekkur ásamt starfsfólki í hina árlegu berjaferð grunnskólans í hreint dásamlegu veðri. Farið var í Klifabotn og þar fundu börnin alveg ótrúlegt magn af berjum, mikið var tínt í fötur og örugglega annað eins fór beint í munninn. Það hefur líka verið fastur liður í þessum ferðum að vaða svolítið þegar búið er að borða nestið og börnin létu það ekki stoppa sig þó vatnið væri kalt.
Þetta var hin skemmtilegasta ferð fyrir bæði börn og fullorðna og þó að ferðalangar hafi mætt allt of seint í hádegismatinn, einhverjir hafi týnt sokkunum sínum og aðrir verið vel blautir, sló það ekkert á gleðina og allir komu kátir aftur heim.