Barnvænt sveitarfélag, viðurkenning UNICEF
Í dag hlaut Sveitarfélagið Hornafjörður viðurkenningu UNICEF fyrir að vera barnvænt sveitarfélag. Af því tilefni var efnt til hátíðar í íþróttahúsinu þar sem börnin í sveitarfélaginu, bæjarstjórn og stjóri, ungmennaráð og fleiri gestir ásamt fulltrúum UNICEF mættu. Ungmennaráð tók við viðurkenningunni, krakkar úr leikhópi hjá Ágústu Margréti voru með atriði, allir sungu saman og að athöfn lokinni var boðið upp á safa, kleinur og kökur.
Barnvæn sveitarfélög er verkefni sem styður sveitarfélög við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla sína stjórnsýslu og starfsemi. Innleiðingarferlið tekur að minnsta kosti tvö ár og skiptist í 8 skref sem sveitarfélag stígur með það að markmiði að virða og uppfylla réttindi barna. Viðurkenningin gildir í þrjú ár en til að viðhalda viðurkenningunni þarf sveitarfélag að halda innleiðingunni áfram, setja sér ný markmið og óska eftir nýju mati að þremur árum liðnum.