Árshátíð 2025, Ronja ræningjadóttir
Árshátíð grunnskólans var haldin nú í vikunni. í þetta sinn var Ronja ræningjadóttir eftir Astrid Lindgren sett á svið í leikstjórn Hafdísar Hauksdóttur og Ágústu Margrétar Arnardóttur þetta er í annað sinn sem þær leikstýra árshátíðinni saman en Hafdís hefur séð um fleiri árshátíðir áður. Handritið var að mestu leiti unnið af Ágústu Margréti og Hafdís sá um lagavalið. Til þess að svona sýning verði að veruleika þarf margar hendur upp á dekk. Tónskólinn er til dæmis ómissandi hlekkur í sýningunni en Jóhann, Hörður, Þorkell og Björg ásamt Hrafnkeli tónmenntakennara sáu um allt undirspil og áhrifastef í sýningunni. Gerð leikmuna fer fram í smiðjunum en þar standa Eva Ósk, Anna Björg, Sonja og Aida ásamt hjálparfólki vaktina. Þangað mæta krakkar úr öllum árgöngum og útbúa skreytingar, grímur og fleira. Svo er það aðalfólkið sem heldur uppi sýningunni en það eru nemendur skólans frá 1. til 10 bekk. Allir taka þátt með einum eða öðrum hætti og má segja að það sé eitt aðalsmerki þessarar árlegu uppákomu en það er að allir eiga hlutdeild í henni. Bæjarbúum er síðan boðið að mæta, selt er inn á mjög hóflegu verði þar sem hvert heimili greiðir að hámarki 1500 krónur. En margir eru okkur velviljaðir og leggja meira til og fyrir það erum við afar þakklát. Allur ágóði rennur í ferðasjóð nemenda. Á sýninguna mættu rúm 500 manns og er þetta einn stærsti viðburður sem haldin er á Hornafirði.