Ævintýri og stanslaust stuð í Suðursveit
Það var heldur betur ævintýraferð hjá 5.bekk þegar Berglind, Sigrún Ólöf og Heiður fóru með hópinn í 2ja daga námsferð í Suðursveit. Um leið og rútan var farin af stað þá var lesinn einn kafli í bókinni Sálmurinn um blómið eftir Þórberg Þórðarson rithöfund frá Hala. Við höfum verið að lesa bókina í ávaxtabita og í upphafi átti þetta að vera smá kynning á bókinni og verkum Þórbergs í tilefni þess að við vorum að fara á Hala í skólaferðalag, en það hefur ekki mátt sleppa úr kafla og bókin er mjög vinsæl enda stórskemmtileg frásögn hjá Þórbergi þar sem hann segir frá samskiptum sínum, Sobeggi afa, við litlu manneskjuna hana Lillu Heggu og það sem verður á þeirra vegi.
Á fimmtudeginum fórum við strax inn að Felli til að nýta tímann sem allra best í ýmsa rannsóknarvinnu, en von var á rigningu um hádegið. Til að byrja með ætluðum við að muna eftir stígvélum af því það er frekar mikið í Fellsánni eftir rigningarnar og frekar kalt til þess að vaða yfir. Auðvitað gleymdust stígvélin þannig að þá var bara ein leið yfir, að vaða ...en flestir fengu svo far yfir á háhest. Við gengum upp að Fellsfossi, sáum dauða kind á leiðinni sem vakti upp ýmsar spurningar hjá nemendum. Við fórum inn í hellinn Brúsa til að athuga hvort við myndum sjá göngin sem kötturinn skreið í gegn þegar hann skreið úr Staðarfjalli og kom upp í hellinum Brúsa og var skottið á honum brunnið, hann komst víst svo nálægt helvíti segir sagan. Nemendur unnu í litlum hópum og þurftu að finna ýmislegt og skrá niður hjá sér og taka myndir, skemmst er frá því að segja að nú vita flestir í 5. bekk hvað: rofabarð, hvalbak, mýrlendi, þúfur, skófir og fléttur er. Einnig vita allir hvernig þjóðarblómið okkar Holtasóley lítur út seinni part sumars og kallast þá Hárbrúða og er ekki mikil prýði.
Upp úr hádegi þegar það byrjaði að rigna brunuðum við á Hala og kláruðum vinnu dagsins inn í hlöðunni. Þar væsir nú ekki um neinn enda hlaðan ríkulega útbúin með góðri kyndingu, borðum, stólum, sviði og hátalarakerfi þannig að dagsskráin gat haldið áfram.
Það var ýmislegt brasað í hlöðunni, spilað, bakaðar broskallalummur, búin til vinabönd, horft á teiknimynd, hlustað á tónlist og dansað eins og enginn væri morgundagurinn. Um kvöldið voru grillaðir hamborgara, dansað meira og síðan var Varúlfaspilið spilað fyrir háttinn. Síðan röltu allir niður á Gerði þar sem hópurinn svaf vært og rótt.
Seinni dagurinn byrjaði snemma, eftir morgunmat var hópavinna og nemendum var skipt í tvo hópa. Annar hópurinn æfði sig í Varúlfaspilinu en í því spili reynir mikið á samskiptahæfni og útsjónarsemi nemenda og ekki síst samvinnu í að finna út úr því hver er nú Varúlfurinn sem étur saklausu borgarana. Á meðan fór hinn hópurinn í heimsókn í Þórbergssetur og að venju tók Þorbjörg Arnórsdóttir á móti okkur og fór með okkur á Þórbergssetrið og sýndi okkur safnið. Þorbjörg er sérstakur sérfræðingur í öllu sem tengist Þórbergi og Suðursveit, nemendur voru svo áhugasamir að það var erfitt að komast af safninu.
Eftir þetta fórum við að mæla
borholurnar sem eru á Hala og það er liður í samstarfsverkefni hjá 5.bekk og Háskóla Íslands. Það eru frekari
upplýsingar um þetta verkefni í frétt sem birtist á vefnum þann 20.september.
Þá átti bara eftir að kveikja varðeld og grilla snúrubrauð með súkkulaði og
þeir hörðustu skelltu sér á nokkra sykurpúða til að fá smá aukaorku inn í
helgina! Til að toppa þetta þá voru grillaðar pylsur fyrir heimför. Við vorum
mætt um miðjan dag aftur á Höfn, allir þreyttir en saddir og sælir. Flestir
voru til í að fara strax aftur í Suðursveit á mánudeginum og endurtaka leikinn,
...kennararnir ætla nú samt að hvíla sig aðeins áður en farið verður í næstu
ferð. Þetta var stórskemmtileg ferð og frábær hópur.