Á sjöttahundrað manns komu á árshátíð grunnskólans
Árshátíð grunnskólans var haldin á dögunum og var þemað að þessu sinni 10 ára afmæli Grunnskóla Hornafjarðar en saga skólanna sem sameinaðir voru undir því nafni sem og saga grunnskólans í Öræfum var skoðuð í myndum, tónum og tali. Það er mikil vinna sem fram fer í kringum svona uppsetningu og allir leggja hönd á plóg. Mikill hluti vinnunnar hvílir á smiðjukennurunum og nemendum en undir þeirra stjórn var öll umgjörð sýningarinnar útbúin, salurinn skreyttur og veitingar framleiddar. Kristín Gestsdóttir og Hafdís Hauksdóttir höfðu umsjón með æfingum á söng og tali, nemendur úr Tónskóla Hornafjarðar undir stjórn Jóhanns Morávek sáu um undirleik sem og hljómsveit skipuð kennurum skólanna. Ljósameistari var Ingólfur Baldvinsson og Heiðar Sigurðsson sá um hljóðið. Allir nemendur skólans komu að sýningunni með einum eða öðrum hætti.