5. bekkur í Suðursveit

10. sep. 2019

5. bekkur kom heim í dag úr námsferð í Suðursveit. Dagurinn í gær byrjaði á því að við fórum sem leið lá inn að Fellsfjalli þaðan gengum við inn að Mjósundarárfossi þar er Brúsahellir sem við skoðuðum og hlustuðum á sögu um köttinn sem ferðaðist úr Rannveigarhelli yfir í Brúsahelli. Frá Mjósundaránni gengum við inn að Fellsárfossi sem er afar fallegur og kraftmikill. Á leiðinni þurftum við að fara yfir á og í bakaleiðinni nýttu krakkarnir tækifærið og léku sér í ánni.  Eftir gönguferðina var farið i Hrollaugsstaði þar sem spilaður var fótbolti í veðurblíðunni, spilað á spil, lesið, litað og teiknað. Í morgun þegar við vöknuðum var komin úrhellisrigning. Við drifum í að ganga frá og fórum á Hala og skoðuðum Þórbergssetrið undir leiðsögn Þorbjargar Arnórsdóttur sem sagði okkur ýmislegt um lífið fyrr á árum og öldum.  Á heimleiðinni stoppuðum við aftur í Hrolllaugsstöðum og fengum okkur pylsur.  Þar sem þetta er námsferð eru nokkur atriði sem krakkarnir áttu að læra. Þeir eiga að þekkja nöfnin á sveitunum, Fornustekka, Hoffelsá, Hoffell, Hornafjarðarfljót, Hólm, Hólmsá, Kolgrímu, Skálafell, Hestgerði.  Svínafellsjökul, Fláajökul, Heimabergsjökul og Skálafellsjökul.