1. bekkur og umhverfismálin
Börnin í 1. bekk í Grunnskóla Hornafjarðar hafa verið að huga að umhverfismálum síðustu vikur. Meðal annars að velta fyrir sér því sem betur má fara og mögulegar lausnir á vandamálum sem blasa við. Hvað geta þau gert til þess að hugsa vel um jörðina okkar og ef allir leggja sitt af mörkum að þá er hægt að lyfta grettistaki.
Við höfum mikið fjallað um matarsóun og afleiðingar hennar. Til þess að fá góða mynd af okkar eigin matarsóun ákváðum við að vigta allan mat sem að börnin í 1.bekk hentu á einni viku. Það kom okkur mikið af óvart hversu miklu magni við vorum að henda. Eða um 4.kílóum af mat. Við höfum hugsað okkur að endurtaka þetta eftir páska og vonandi gengur okkur betur þá.
Börnin unnu verkefni um vistspor og komu með hugmyndir af því sem að þau gæti gert til þess að minnka þau. Þau drógu útlínur fóta sinna upp á grænt blað sem tákn um vistsporið, skrifuðu á það hugmyndir sínar og hengdu þau á umhverfisvegginn í skólanum þar sem allir geta séð.