Félagsstarf
Vikuhátíðir / samvera á sal
Í 1. – 6. bekk eru haldnar vikuhátíðir á skólatíma. Þá skiptast bekkir skólans á um að stíga á svið og skemmta sjálfum sér, skólafélögum sínum og starfsfólki á ýmsan hátt. Á samkomunum fá nemendur þjálfun í koma fram, framsögn og leikrænni tjáningu.
Íþrótta og leikjadagar
Tvisvar til þrisvar yfir veturinn eru leikja- og íþróttadagar í skólanum þar sem allir nemendur skólans taka þátt. Einnig taka nemendur skólans þátt í Norræna skólahlaupinu, Unicef-hreyfingunni, Skólahreysti og fleiru. Auk þess eru göngudagar að hausti eða vori með nemendum.
Öskudagsskemmtun
Þá koma nemendur saman, slá köttinn úr tunnunni, marsera og gera sér glaðan dag.
Ýmislegt
Reglulega farið á leikrit, sýningar eða aðra viðburði í bænum sem opnir eru skólanum.
Viðburðir eins og tónlist fyrir alla, rithöfundaheimsóknir, heimsókn blúsara og fleira eru árvissir. Einnig fáum við heimsóknir í skólann í tengslum við forvarnarstarf eins og t.d. frá lýðheilsustöð og Marita á Íslandi.
Keppnir
Nemendur taka þátt í ýmsum keppnum þar sem æfingar fara m.a. fram á skólatíma. Þar má t.d. nefna litlu og stóru upplestrarkeppnina.
Dans er kenndur í skólanum eina viku á ári. Þá fá allir nemendur einn danstíma á dag í 1. - 7. bekk en 8. - 10. bekkur má velja. Vikan endar á danssýningu fyrir foreldra.
Utan skólatíma
Bekkjarkvöld
Í 4. – 7. bekk er yfirleitt eitt bekkjarkvöld fyrir áramót og annað eftir áramót.
Skemmtanir
Á yngsta- og miðstiginu eru haldin jólaböll.
Árshátíð er sameiginleg fyrir alla nemendur skólans.
Í 8. – 10. bekk er boðið upp á haustfagnað, fullveldisfagnað, dansæfingu nemenda og foreldra í tengslum við dansviku og vorfagnað. Að vori í 7. bekk fá nemendur að taka þátt í vorfagnaði eldri nemenda.
Samvinna skólans og félagsmiðstöðvarinnar Þrykkjunnar.
Mikil og góð samvinna er milli skólans og Þrykkjunnar. Í Þrykkjunni fer fram allt klúbbastarf og sér starfsfólk hennar um að halda utan um það en skólinn styður við þá vinnu.
Skólaferðalög og námsferðir
Á vegum skólans er farið í vettvangsferðir í öllum árgöngum auk þess sem farið er í skólabúðir og skólaferðalög í tveimur árgöngum. Ferðirnar lengjast og verða umfangsmeiri eftir því sem nemendur eldast.
Vettvangsferðir eru hluti af skyldunámi nemenda og í þeim þurfa nemendur einungis að greiða uppihald en annar kostnaður greiðist af skólanum. Öðru máli gildir um skólabúðir og skólaferðalög.
Í 7. og 9. bekk fara nemendur í skólabúðir. Skólabúðirnar eru vel heppnaðar og lögð er áhersla á mikilvægi þess að nemendur héðan komist í þær og hitti jafnaldra sína annarsstaðar að af landinu. Kostnaður við rútur mikill og hefur skólinn farið þess á leit við foreldra að greiða hann og hafa nemendur og foreldrar safnað fyrir rútukostnaðinum í þeim ferðum auk mesta hluta uppihaldsins. Með þátttöku foreldra hefur skólinn séð sér fært að fara með nemendur í skólabúðirnar.
Hið sama gildir um skólaferðalögin sem farin eru í 6. og 10. bekk. Skólinn hefur ekki borið annan kostnað af þeim en launakostnað enda teljast þau ekki beinlínis hluti af skyldunámi nemenda. Skólaferðalög eru fyrst og fremst skemmtiferðir þó nemendur séu líka að læra nýja hluti þar. Því er alltaf leitað samþykkis foreldra fyrir því að fara í þau og ekki farið nema mikill meirihluti foreldra sé því hlynntur.
- 1. bekkur – dagsferðir
- 2. bekkur – dagsferðir
- 3. bekkur – dagsferðir
- 4. bekkur - dagsferðir
- 5. bekkur – dagsferðir í Ingólfshöfða, tveggja daga námsferð í Suðursveit.
- 6. bekkur – dagsferðir, tveggja daga námsferð í Öræfin. Skíðaferðalag þar sem nemendur greiða ferðina.
- 7. bekkur – Skólabúðir á Úlfljótsvatni þar sem foreldrar taka þátt í kostnaði.
- 8. bekkur – Skíðaferðalag með heimsókn í Verkmenntaskóla. Foreldrar taka þátt í kostnaði.
- 9. bekkur – Skólabúðir í Vatnaskógi. Foreldrar taka þátt í kostnaði.
- 10. bekkur – Þriggja daga námsferð á Lónsöræfi að hausti. Tveggja daga útskriftarferð að vori þar sem foreldrar taka þátt í kostnaði.
Í öllum ferðum er unnið með margvísleg markmið en þau sem liggja alltaf til grundvallar í ferðum innan sýslunnar eru m.a. að:
- nemendur kynnist náttúru sýslunnar, dýralífi og landmótun
- nemendur kynnist sögu sýslunnar
- nemendur kynnist helstu atvinnuvegum sýslunnar
- nemendur læri að lesa í landið og umgangast það
- nemendur njóti náttúrunnar
- nemendur njóti félagsskaparins og efli félagsfærni sína.