Leið til árangurs

Þróunarstarf sem miðar að því að bæta árangur nemenda í Grunnskóla Hornafjarðar

Í skólanum er unnið markvisst að því að bæta árangur nemenda. Sérstök áhersla var á lestur og stærðfræði í upphafi en nú er markmiðið að horfa meira til alls náms hjá nemendum. Mikil áhersla er á að skólinn þjóni öllum nemendum og áherslur menntunar fyrir alla því í fyrirrúmi. Fjölbreyttar kennsluaðferðir skipta þar miklu máli og er þá litið bæði til þess sem kennarinn gerir en ekki síður þess sem nemandinn hefur kost á að gera. Áhersla á spjaldtölvuvæðingu en jafnframt aukna hreyfingu í skólastarfi skiptir þar máli.   

Í skólanum er lögð áhersla á að gera kennsluna markvissari bæði með aukinni áherslu á markmið og að nemendur þekki þau markmið sem þeir eru að vinna að en einnig með markvissara námsmati. Það er mikilvægt fyrir nemendur að vita til hvers er ætlast af þeim og þeir verða að vita hvernig þeir verða metnir. Sjónum hefur ennfremur verið beint að því að efla skimanir fyrir hugsanlegum námserfiðleikum og veita þeim nemendum sem þurfa frekari eftirfylgni í kjölfar þeirra svo best verði hægt að styrkja nemendur og efla í sínu námi. LTÁ eða leið til árangurs er langtíma verkefni sem tekur sífelldum breytingum í takt við áherslur í skólastarfi hverju sinni. 

Sérstök áhersla er lögð á gott samstarf við foreldra í Leið til árangurs. Stuðningur foreldra við barnið skiptir höfuðmáli í námi þess og þegar kemur að því að bæta árangur, ekki síst þegar kemur að lestrarþjálfun nemenda og því er lögð áhersla á að virkja þá sem mest í lestrarþjálfuninni og í þjálfun í grunnatriðum stærðfræði. Þar að auki er gott samstarf heimilis og skóla lykill að farsælli skólagöngu barns. 

Læsisstefna Grunnskóla Hornafjarðar 2022-2023

Læsisstefna Grunnskóla Hornafjarðar 

Þróunaráætlun fyrir LTÁ