Skólasóknarkerfi í 1. - 10. bekk


Leyfi og veikindi

Í tengslum við skólasókn nemenda og sem viðbót við skólasóknarkerfi Grunnskóla Hornafjarðar þarf stundum að skoða tilkynnt forföll nánar. Þessi viðbót skólasóknarkerfisins vegna leyfis og /eða veikinda er leið til þess að grípa betur inn í hugsanlegan skólasóknarvanda.Þegar nemandi er tilkynntur veikur eða í leyfi þarf ávallt að skoða forfallasögu hans í skólanum. Ávallt skal skoða a.m.k. síðustu þrjá skólamánuði, bæði með tilliti til leyfis og veikinda. Greining er gerð á forföllum allra nemenda mánaðarlega. Miðað er við forföll önnur en langtímaveikindi, s.s. vegna slysa eða samfelldra leyfa. Viðbrögð vegna nánari skoðunar á skólasókn nemenda eru í eftirfarandi þrepum.

Þrep 1 (5 veikinda- og / eða leyfisdagar)

Ef nemandi er með fleiri en 5 forfalladaga, sendir umsjónarkennari bréf til foreldra í gegnum Mentor (Ástundun - bréf til foreldra) og ræðir síðan við foreldra.

Þrep 2 (10 veikinda- og / eða leyfisdagar)

Ef nemandi er með fleiri en 10 forfalladaga, sendir umsjónarkennari aftur bréf til foreldra í gegnum Mentor (Ástundun – bréf til foreldra) og ræðir síðan við foreldra. En ef 80% eða meira af þessum forfalladögum eru veikindadagar, hringir skólahjúkrunarfræðingur heim og tekur erindið upp í Nemendaverndarráði ef þörf þykir.

Þrep 3 (15 veikinda- og / eða leyfisdagar)

Ef nemandi er með fleiri en 15 forfalladaga, boðar umsjónarkennari foreldra til fundar ásamt skólastjórnanda og tekur erindið upp í Nemendaverndarráði ef þörf þykir.

Þrep 4 (20 veikinda- og / eða leyfisdagar)

 Ef nemandi er með fleiri en 20 forfalladaga, boðar skólastjórnandi foreldra til fundar ásamt fulltrúum Nemendaverndarráðs (s.s. hjúkrunarfræðing, námsráðgjafa).

Þrep 5 (30 veikinda- og / eða leyfisdagar)

Ef nemandi er með fleiri en 30 forfalladaga greinir skólastjórnandi Nemendaverndarráði skólans frá skólasókn nemandans sem tilkynnir síðan til Barnaverndar og félagsþjónustu Hornafjarðar og boðar tilkynningafund ef þörf þykir.