Fréttir og tilkynningar

Fyrirsagnalisti

5. bekkur í Suðursveit - 10. sep. 2019

5. bekkur kom heim í dag úr námsferð í Suðursveit. Dagurinn í gær byrjaði á því að við fórum sem leið lá inn að Fellsfjalli þaðan gengum við inn að Mjósundarárfossi þar er Brúsahellir sem við skoðuðum og hlustuðum á sögu um köttinn sem ferðaðist úr Rannveigarhelli yfir í Brúsahelli. Frá Mjósundaránni gengum við inn að Fellsárfossi sem er afar fallegur og kraftmikill. Á leiðinni þurftum við að fara yfir á og í bakaleiðinni nýttu krakkarnir tækifærið og léku sér í ánni.  Eftir gönguferðina var farið i Hrollaugsstaði þar sem spilaður var fótbolti í veðurblíðunni, spilað á spil, lesið, litað og teiknað. Í morgun þegar við vöknuðum var komin úrhellisrigning. Við drifum í að ganga frá og fórum á Hala og skoðuðum Þórbergssetrið undir leiðsögn Þorbjargar Arnórsdóttur sem sagði okkur ýmislegt um lífið fyrr á árum og öldum.  Á heimleiðinni stoppuðum við aftur í Hrolllaugsstöðum og fengum okkur pylsur. 

Berjaferð 1.- 4. bekkjar - 5. sep. 2019

Mánudaginn 2. september var hin árlega berjaferð farin. Þar sem veðrið var ekki nógu gott í Klifabotnum þar sem berjaferðin átti að eiga sér stað, var farið með alla hersinguna inn í Karl, sumarbústaðasvæði skólastjórans. Þar fengu börnin að tína bláber, hrútaber, krækiber og meira að segja rifsber af runnunum! Börnin léku sér í skóginum sem umlykur sumarbústaðinn auk þess sem þau léku sér í fjallshlíðinni, læknum og á trampolíni. Ákveðið var að lengja ferðina til að fá sem mest út úr henni og voru grillaðar pylsur á staðnum í hádeginu. Klukkan 12 komu rúturnar og allir komu í skólann klukkan 13. Þetta var stórfín ferð í góðu veðri og allir skemmtu sér vel.

Gönguferð kringum Reyðarártind - 5. sep. 2019

Í vikunni fóru nemendur 5.-9 .bekkjar í hina árlegu haustgönguferð skólans. Að þessu sinni var gengið í kringum Reyðarártind en sú ganga telur um það bil 9 kílómetra. Farið var með rútu upp á Reyðará að þaðan gengið inn Reyðarárdalinn, yfir varpið og fram Össurárdalinn. Þessi gönguleið er mjög þægileg, aðeins á fótinn á smá kafla.

Skólasetningarviðtöl 22. og 23. ágúst - 8. ágú. 2019

Það styttist óðum í skólasetningu en 22. og 23. ágúst verða skólasetningaviðtöl í skólanum. Þá boða umsjónarkennara alla nemendur og foreldra eða forsjáraðila til viðtals. Fyrsti almenni kennsludagur skólaársins verður síðan mánudaginn 26. ágúst.