Fréttir og tilkynningar

Fyrirsagnalisti

Heimsókn frá Chile - 18. okt. 2017

Í dag var hópur sjónvarpsfólks frá Chile hér á Höfn en hópurinn er að gera heimildarmynd um Ísland. Sjónvarpsfólkið kíkti í heimsókn í skólann og var afar hrifið af öllu sem það sá, jafnt aðstöðunni og húsakosti en ekki síður nemendum sem þeim fannst svo ánægðir, áhugasamir og hamingjusamir. Það er því aldrei að vita nema þið eigið eftir að sjá hornfirskt andlit í sjónvarpsþætti í Chile ef þið verðið á ferðinni þar einhvern tíman á næsta ári.

Fjör í frímínútum - 5. okt. 2017

Á eldra stigi grunnskólans stendur nemendafélagið fyrir keppni á milli bekkja  og kennara í hinum ýmsu íþróttum. Keppnin fer fram í frímínútum og keppt með útsláttarformi. Búið er að keppa í bandý og í vikunni kláraðist keppnin í kýló. Í úrslitaleiknum mættust nemendur í 8. bekk og kennarar og lauk þeirri rimmu með sigri kennara. Í næstu viku hefst svo keppni í dodgeball. 

Foreldradagur í 1. bekk - 4. okt. 2017

Þriðjudagsmorguninn 3. október komu foreldrar nemenda í 1. EG í skólann til að taka þátt í stuttri fjölskylduskemmtun með börnum sínum. Fengu foreldrar og börn þeirra fyrirmæli um að fara í ratleik um skólalóðina og finna á fimm stöðum þarfir sem þau áttu að koma með í heimastofu og líma á þarfahringinn. Foreldrar og nemendur höfðu gagn og gaman af þessum ratleik og var gaman fyrir foreldra að kynnast skólasvæðinu og þeim skólastofum sem börn þeirra eru í og spennandi fyrir nemendur að fá foreldra sína með sér í leik þar sem þau leiddu ferðina og sýndu skólann.

5. bekkur í Suðursveit - 3. okt. 2017

Á haustdögum fór 5. bekkur E í velheppnaða námsferð í Suðursveit. Þau heimsóttu Þórbergssetur þar sem Þorbjörg Arnórsdóttir fræddi þau um Þórberg og lífið í Suðursveit á árum áður og fóru í ratleik í hlíðinni fyrir ofan. Tíndar voru plöntur sem unnið var með og gengið um land Fells. Farið var í Hrollaugshóla og Rósa hjá Ríki Vatnajökuls kom og sagði nemendum margt um þjóðgarðinn og hvernig skal umgangast hann. Aðal fjörið var svo að komast í að vaða og synda í ánni við Hrollaugshóla.  Veðrið lék  við hópinn allan tímann, sólin skein og alveg blankalogn.