Fréttir og tilkynningar

Fyrirsagnalisti

Söngleikurinn Annie - 28. maí 2018

Nemendur í leiklistarvali úr 9. og 10. bekk sýndu söngleikinn Annie í Sindrabæ í síðustu viku.Dagmar Lilja fór með hlutverk Annie og Harpa Lind lék hina illræmdu frú Hanagen. Júlíus Aron lék herra Warbucks og Birna Rós var í hlutverki Grace aðstoðarkonu hans. Axel Elí og Arnrún Mist léku hysknu skötuhjúin Rooster og Lily Foss auk þess sem Axel Elí tók að sér fleiri hlutverk.  Önnur hlutverk og söngur voru í höndum Steinunnar Erlu, Írisar Mistar, Salvarar Döllu og Karenar Ásu.  Nemendum Hafnarskóla og aðstandendum var boðið á sýninguna svo óhætt er að segja að krakkarnir hafi sýnt fyrir fullu húsi. Frábær sýning og mikið af hæfileikaríku fólki sem  skólinn hefur á að skipa. 

Íþróttadagur - 28. maí 2018

Í dag var haldinn hinn árlegi íþróttadagur skólans. Nemendum var skipt i hópa en að þessu sinni voru hóparnir skiptir í eldri og yngri. Íþróttadagurinn byggist á einskonar ratleik þar sem börnin fengu vísbendingu til að vinna eftir til að komast á næstu stöð. Þetta er líka keppni þar sem hóparnir vinna sér inn stig um leið og þeir leysa þrautirnar sem voru af ýmsum toga t.d. hitta í körfu, hanga, skora mark, kubb, snú snú og margt fleira.  Veðrið lék við okkur sem var kærkomið eftir rigningu undanfarna daga.

Styrkur til Böðvars Guðmundssonar - 25. maí 2018

Á Hafnarhittingi 15. maí stóðu nemendur og starfsmenn Grunnskóla Hornafjarðar fyrir fatamarkaði og var ákveðið að ágóðinn af honum og innkoma fyrir matarsölu skyldi renna til Böðvars Guðmundssonar og fjölskyldu hans. Böðvar sem er á sjötta aldursári og mun hefja nám við skólann í haust hefur átt við erfið veikindi að stríða og vonandi kemur þessi styrkur sér vel fyrir fjölskylduna. 

Þemadagar og umhverfisdagur í skólanum - 25. maí 2018

Í vikunni hafa verið þemadagar hjá okkur í skólanum eins og verið hefur undanfarin vor. Að þessu sinni var þemað heilbrigði og hreyfing. Margt var sér til gamans gert, farið í leiki, frisbeegolf, sund, smakkað á allskonar hristingum gerðum úr ávöxtum og fleiru, útilist, dansað zumba og fleira skemmtilegt.  Að þemadögum loknum grilluðum við pylsur og svo drifu allir sig út að tína rusl. Það gekk vel en nemendur skólans vilja koma því á framfæri við reykingafólk að vinsamlegast setja stubbana í ruslið.