Heilbrigði og velferð

Heilbrigði og velferð (HOV) er sett saman úr Uppeldi til ábyrgðar,  Heilsueflandi grunnskóla og Grænfánaverkefni grunnskóla á grænni grein.

Hér má sjá verkefni og upplýsingabanka Grunnskóla Hornafjarðar - Umhverfisvænn heilsuskóli 

Lengi vel voru þrjú teymi og hélt hvert og eitt utan um sitt verkefni. Þessi teymi voru uppeldi til ábyrgðar teymi sem hélt utan um uppeldisstefnu skólans, heilsueflandi grunnskólateymi sem hélt utan um það verkefni og umhverfisteymi sem hélt utan um grænfánaverkefnið. Með tímanum varð starfsmönnum ljóst að þessi þrjú verkefni eiga miklu meira sameiginlegt en það sem skilur þau að. Grunntónn þeirra allra er sjálbærni. Andleg, líkamleg, félagsleg og umhverfisleg sjálfbærni.  Auk þess tilheyra þau öll grunnþáttum skólastarfs. Því var ákveðið að sameina teymin og hefur það komið mjög vel út. Í HOV rúmast þannig flest það sem stuðlað getur að farsælum þroska nemenda bæði andlega-, líkamlega og félagslega.

HOV á ekki sérstaka tíma í stundatöflu heldur gengur vinnan  út á að tengja verkefni við greinar og koma þessum mikilvægu verkefnum framarlega á forgangslistann. 

Í HOV er unnið að því að efla með nemendum þekkingu á eigin þörfum og hjálpa þeim að finna uppbyggilegar og jákvæðar leiðir til að sinna þeim án þess þó að brjóta á þörfum annarra. Þegar það tekst verða öll samskipti auðveldari og ánægjulegri auk þess sem einstaklingnum líður betur. Í þessari vinnu er fyrst og fremst stuðst við aðferði uppeldis til ábyrgðar. Starfsmenn fara reglulega á námskeið í uppeldi til ábyrgðar en nýta sér einnig ýmsar aðrar aðferðir sem virka vel með Uppeldi til ábyrgðar. Félagslega sjálfbærni hefur líka verið ofarlega á listanum og í framhaldi af þvi var komið á Hafnarhittingi í skólanu. Hafnarhittingur gengur út á að bjóða upp á möguleika fyrir fólk til að kynnast og mynda félagsleg tengsl eða bara gera skemmtilega hluti saman.

Í tengslum við heilsueflandi grunnskóla er unnið að vitundarvakningu um þá þætti sem eflt geta heilbrigði einstaklingsins á víðum grunni. Mikið er lagt upp úr hreyfingu, hollri næringu og góðri hvíld í því skyni, margvísleg virkni, fræðsla og forvarnir eru liðir í þeirri vinnu.

Umhverfisvernd og sjálfbærni verður sífellt stærri hluti af skólastarfinu og hefur HOV verið leiðandi í þeirri vinnu. Þar er vinna skóla á grænni grein lögð til grundvallar mun skólinn flagga grænfánanum í þriðja sinn haustið 2019. Mikil áhersla er lögð á að kynna nemendum náttúru sýslunnar og tengja við Vatnajökulsþjóðgarð sem er nánast í bakgarði skólans. Hugtakið sjálfbærni kemur svo sífellt sterkar inn í skólastarfið. Allir gera sér grein fyrir því að auðlindir jarðar eru ekki óþrjótanlegar og að umgengni mannsins á jörðinni er farin að hafa verulega áhrif á hana. Því er lögð mikil áhersla á að hegðun hvers einstaklings skiptir máli og áhersla á að valdefla nemendur og virkja þá til ábyrgrar hegðunar og í fræðslu út í samfélagið.

Nýr vinkill hjá HOV eru Heimsmarkmið Sameinuðuþjóðanna. Heimsmarkmiðin byggja á því að efla sjálbærni á jörðinni og gera jörðina sjálfa, fólkið sem býr þar og samfélag manna og náttúru heilbrigðara. Heimsmarkmiðin taka þannig á öllum þáttum HOV og með því að tengja við þau er lögð áhersla á að Grunnskóli Hornafjarðar, nemendur, starfsmenn og aðrir í skólasamfélaginu eru hluti af íbúum jarðar og hegðun þeirra hefur jafn mikil áhrif og hegðun annarra. Ábyrg hegðun hvers og eins skiptir máli og því er áhersla á valdefling einstaklingsins ein mikilvægasta leiðin til að knýja fram breytingar. 

Þróunaráætlun fyrir HOV 2020-2023

Það sem við gerðum 2020-21

Nemendaþing haustið 2020

Fundargerðir 2020-21