Heilbrigði og velferð

Uppeldi til ábyrgðar - Heilsueflandi grunnskóli - Grænfáninn / umhverfismál

Ein af megin stoðum í stefnu Grunnskóla Hornafjarðar er sú vinna sem lítur að heilbrigði og velferð aðila skólasamfélagsins. Við stofnun Grunnskóla Hornafjarðar árið 2007 var lagt upp með þrjú þróunarverkefni, þau voru að vinna í anda uppeldis- og samskiptastefnunnar – Uppeldi til ábyrgðar, taka þátt í verkefni Landlæknisembættisins – Heilsueflandi grunnskóli og vera þátttakandi í verkefni Landverndar, – Grænfáninn. Allir þessir þrír þættir hafa nú fest sig í sessi í starfi skólans og mynda saman þá vinnu sem nefnd er Heilbrigði og velferð.

Í heilbrigði og velferð rúmast flest það sem stuðlað getur að farsælum þroska nemenda bæði andlega-, líkamlega- og félagslega. Í skólanum er unnið að því að efla með nemendum þekkingu á eigin þörfum og hjálpa þeim að finna uppbyggilegar og jákvæðar leiðir til að sinna þeim. Þegar það tekst verða öll samskipti auðveldari og ánægjulegri. Í skólanum er einnig unnið að vitundarvakningu um þá þætti sem eflt geta heilbrigði einstaklingsins á víðum grunni og mikið er lagt upp úr hreyfingu, hollri næringu og góðri hvíld í því skyni, margvísleg virkni, fræðsla og forvarnir eru liður í þeirri vinnu. Einnig er rík áhersla lögð á það í starfi skólans að þekkja og njóta nánasta umhverfis og öðlast skilning á mikilvægi virðingar og varfærni í umgengni við náttúruna.

Undir kaflaheitinu Heilbrigði og velferð hér til hliðar er að finna nánari upplýsingar um Uppeldi til ábyrgðar, Heilsueflandi grunnskóla og Grænfánann / umhverfismál.

Þróunaráætlun fyrir HOV.