Heilsueflandi Grunnskóli

Grunnskóli Hornafjarðar sótti um að gerast heilsueflandi skóli haustið 2010. Undirbúningur stóð yfir veturinn 2010 -2011 og hófst vinnan haustið 2011. Heilsueflandi grunnskóli er afurð þróunarstarfs milli fjölmargra hagsmunaaðila og heldur landlæknisembættið utan um verkefnið á Íslandi.

Til hvers þarf heilsueflingu í skólann okkar?

Heilsufar og menntun eru nátengd fyrirbæri. Heilsa nemenda ræður miklu um hvort þeir komast yfirhöfuð í skólann og hvernig þeim gengur í náminu. Skólinn er þess vegna kjörinn vettvangur til að hvetja til heilsueflingar og heilbrigðra lifnaðarhátta meðal barna á skólaaldri. Nær öll börn og unglingar á aldrinum 6 – 16 ára verja verulegum hluta tíma síns í skólanum. Á þessu skeiði ævinnar læra þau um holla lífshætti, öðlast margvíslega þekkingu og temja sér hátterni sem hefur áhrif á heilsu þeirra síðar á ævinni. Almennt má segja að sjónir manna beinist æ meira að skólunum því það eru menntastofnanir þar sem heilsuefling getur skipt verulegu máli.  Skólinn þarf að setja sér stefnu í heilsueflingarmálum þannig að kennarar, foreldrar, nemendur og aðrir sem taka þátt í skólastarfinu hafi í höndum traustar leiðbeiningar og geti gripið til aðgerða í þeim málum. 

Áhersluþættir heilsueflandi grunnskóla.

Áhersluþættir heilsueflandi grunnskóla eru átta og eru eftirfarandi. Nemendur, mataræði/tannhirða, lífsleikni, heimili, nærsamfélag, hreyfing/öryggi, geðrækt, starfsfólk. Á undanförnum árum hafa allir þættirnir verið teknir fyrir og nú er komið að þeim síðasta, starfsfólki. Veturinn 2020-2021 verður lögð áhersla á heimili og geðrækt. Heilsueflingarteymi sveitarfélagsins leggur áherslu á svefn þennan veturinn. Svefn hefur mikil áhrif á geðheilsu fólks og verður svefn og geðheilsa tengd saman í vinnu í skólanum. Einnig verður lögð áhersla á að efla sem mest samstarf heimilis og skóla og samstarf foreldra almennt. 

Heilsueflandi-grunnskoli