Uppeldi til ábyrgðar

Haustið 2007 var haldið námskeið fyrir starfsmenn leik- og grunnskóla ásamt starfsmönnum íþróttamannvirkja um uppeldisstefnuna “Uppeldi til ábyrgðar”(restitution).

Diane Gossen, einn af frumkvöðlum stefnunnar, var með þetta námskeið en hún hefur haldið nokkur slík námskeið á Íslandi og héðan fór hún til Ísafjarðar þar sem hún hélt samskonar námskeið. Magni Hjálmarsson hefur verið helsti hvatamaður þessarar hugmyndafræði og á heimasíðu útgáfufélagsins Sunnhvols má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um Uppeldi til ábyrgðar.Álftanesskóli og Heiðarskóli á Hvalfjarðarströnd hafa unnið brautryðjendastarf í uppeldi til ábyrgðar en fleiri og fleiri skólar hafa verið að kynna sér þessa stefnu og taka hana upp.

Til að skýra í fáum orðum hvað átt er við með uppeldi til ábyrgðar grípum við niður í grein sem birtist í veftímaritinu Netlu vorið 2007 og er eftir Guðlaugu Erlu Gunnarsdóttur og Magna Hjálmarsson.

Uppeldi til ábyrgðar miðar að því að ýta undir ábyrgðarkennd og sjálfstjórn barna og unglinga og þjálfa þau í að ræða um tilfinningar og átta sig á þörfum sínum. Vinnuaðferðunum er einnig ætlað að styðja starfsmenn skóla við að móta sér skýra stefnu varðandi samskipti og agamál. Öðru fremur er um að ræða aðferðir við að kenna sjálfstjórn og sjálfsaga og styrkja einstaklinga í því að læra af mistökum sínum. Hugmyndafræðin hefur áhrif á kennsluhætti, stjórnunarhætti, áherslur í lífsleiknikennslu og ekki síst á meðferð agamála.

Hugmyndafræði uppeldis til ábyrgðar byggist á því að einstaklingurinn geti tekið sjálfstæðar, siðferðilegar ákvarðanir varðandi eigin hegðun þegar hann er laus undan skömmum, hótunum, sektarkennd eða væntingum og loforðum um umbun og að hann fái tækifæri til að meta lífsgildi sín.  Markmiðið er að styrkja einstaklinginn í að vera sá sem hann vill vera með hliðsjón af eigin sannfæringu frekar en að stjórnast út frá geðþótta annarra. Til að hjálpa börnunum inn á þessa braut og fá þau til að skoða eigið gildismat er áhersla lögð á spurningar eins og: Hvernig viljum við vera? Og hvað við þurfum að gera til að ná takmarki okkar? Diane Gossen hefur unnið með kennurum víða um heim í rúm tuttugu ár, einkum þó í Kanada og Bandaríkjunum, við að þróa hagnýtar leiðir fyrir skóla sem miða að því að ná þessu marki með því að hinir fullorðnu í skólanum byrja á sjálfum sér við að skapa skólabrag sem einkennist af samheldni og umhyggju.

Lögð er áhersla á að starfsmenn skólans sammælist um skýrar reglur um óásættanlega hegðun og þrói samstilltar leiðir til að fylgja þeim eftir. Skýr mörk skapa það öryggi og traust sem er nauðsynlegt skólasamfélaginu og til að styðja við þau lífsgildi sem hver bekkur og allur skólinn setur saman í félagslegan sáttmála. Að framfylgja ófrávíkjanlegum reglum er því hvorki hugsað sem refsing né skilyrðing til að hræða menn til hlýðni við reglur, heldur er það yfirlýsing um að leiðin sem barnið valdi sé óásættanleg og nauðsynlegt að taka af því ráðin. Í framhaldi af því eru barninu sköpuð tækifæri til að læra af mistökum sínum og það aðstoðað til að finna betri leiðir og byggja þannig upp sinn innri styrk.

Kynning og innleiðing þessara aðferða er ferli sem tekur tíma og segir Gossen að það megi gera ráð fyrir því að þrjú til fimm ár taki þar til að starfsmenn séu farnir að skynja merkjanleg áhrif á skólabraginn. Helstu áfangar á leiðinni eru öflun upplýsinga með námskeiðum og lestri, þjálfun og prófun aðferðanna með viðvarandi mati á árangri. 

Vinna með okkur sjálf

Mikilvægasti hluti af innleiðingu Uppeldis til ábyrgðar felst í því að fólk vinni með sjálft sig og finni sjálft sig í hugmyndafræðinni. Það tekur að sjálfsögðu misjafnlega langan tíma og mikilvægt er að gefa fólki þann tíma sem það þarf. Þegar einstaklingurinn sjálfur er farinn að nota aðferðir Uppeldis til ábyrgðar í daglegum samskiptum þá og fyrst þá skilar hugmyndafræðin sér að ráði inn í skólasamfélagið. Því skiptir það máli að gefa fólki tíma til að tileinka sér hugmyndafræðina og eftir því sem fleiri gera það þeim mun meiri verður árangurinn. 

Bekkjarsáttmálar

Hluti af vinnunni með Uppeldi til ábyrgðar felst í því að hver bekkur velur sér kjörorð. Þessi orð eru tákn um það hvað bekknum finnst að skipti mestu máli í samskiptum í bekknum. Út frá þessum orðum er gjarnann búinn til bekkjarsáttmáli og til að gera vinnuna sem fjölbreyttasta og skemmtilegasta þá eru farnar ýmsar leiðir. Föndrað, dansað, sungið, búin til myndbönd og fleira. Hér fyrir neðan birtast m.a. þau myndbönd sem gerð hafa verið í tengslum við bekkjarsáttmálana.