Verðandi jarðvísindafólk í 5.bekk?

20. sep. 2021

Það mátti heyra saumnál detta í tíma hjá 5. bekk þegar hún Aude Estelle Vincent sem er franskur sérfræðingur í jarðvísindum heimsótti okkur í vikunni. Hún var að sýna okkur mælingargræjur og segja frá verkefni sem við erum að fara að vinna með henni.

Á hverju hausti tíðkast að nemendur í 5. bekk fari í námsferð í Suðursveit, þar er unnið með ýmis umhverfistengd verkefni. Síðastliðið vor var ákveðið að taka þátt í samvinnuverkefni með Háskóla Íslands sem kallast IceAq, þetta er jarðvísindaverkefni sem gengur út á að rannsaka grunnvatn og jökla, hvernig tengingu milli þeirra er háttað og hvaða áhrif loftslagsbreytingar eru að hafa. Núna hefur þetta verkefni blandast inn í Suðursveitaferðina, enda fellur það vel inn í námsefnið sem við erum að vinna með og ekki slæmt að vera á leið í eina flottustu útikennslustofu í heimi.
Það er spennandi að fá að taka þátt í verkefni sem þessu og fá að vinna með vísindafólki og sjá þau að störfum en ekki síst að vera þátttakendur. Við munum fara á Hala og mæla grunnvatn í borholum þar og safna gögnum fyrir verkefnið. Þetta verkefni er í gangi fram til ársins 2023 og munu nemendur bæði taka þátt í að safna rannsóknargögnum, fræðast um loftslagsbreytingar, gera stuttmyndir og skrifa stuttar greinar. Þau ykkar sem hafa áhuga á að kynna ykkur verkefnið geta farið inn á facebook síðuna hjá IceAq.