Heimsókn bæjarstjóra og skipulagsstjóra í 2. bekk

14. jún. 2021

Í apríl fóru nemendur í 2. bekk ásamt kennurum í göngutúr um nágrenni skólans og skoðuðu nágrennið og þau umferðarmannvirki sem þar eru. Í framhaldinu sendu krakkarnir bæjarstjóra bréf og báðu um úrbætur á ýmsum hlutum. Í kjölfarið komu Matthildur bæjarstjóri og Brynja skipulagsstjóri í heimssókn í bekkinn og þökkuðu fyrir bréfið en ekki síður hugmyndirnar og það að krakkarnir sjálf voru líka tilbúin að leggja ýmislegt á sig til að bæta bæjarbraginn.  Hér fyrir neðan kemur bréfið til bæjarstjóra og myndin er frá heimsókn Matthildar og Brynju í bekkinn.

Kæri bæjarstjóri.

Við erum 2. bekkur í Grunnskóla Hornafjarðar.

Við ætlum að sýna þér og segja hvað okkur finnst að þurfi að laga í bænum okkar til þess að gera hann fallegan.

Við fórum í göngutúr og skoðuðum umhverfið og umferðarmannvirki og okkur brá þegar við sáum hvað þurfti að gera mikið. Við löbbuðum í kringum Hafnarskóla, Nettó, löggustöðina, Kaffihornið og Landsbankann. Við sáum að það þurfti að mála mörg skilti og gangbrautir.

Við sáum beyglaða skiltastaura, staura sem þarf að mála eða skipta út og við sáum meira að segja staura sem höfðu engin skilti. Okkur dettur í hug að á þeim hafi verið skilti sem sagði okkur eitthvað merkilegt og ef það er ekki skilti á staurnum er ekki tilgangur með honum.

Skiltin í bænum eru sjaldan falleg, það getur verið erfitt að lesa á þau, þau eru búin að missa litinn, það eru límmiðar á þeim, þau eru beygluð og ryðguð og það þarf að laga þau.

Það þarf að laga gangstéttarnar, þær eru molnaðar og það þarf að steypa þær svo að hægt verði að hjóla, ganga, hlaupa, fólk í hjólastólum og allir geti notað þær. Það fara steinar úr þeim út á götu og það er hættulegt fyrir bíla og hjólandi vegfarendur. Það er erfitt fyrir fólk sem ætlar að hlaupa á gangstéttunum að hlaupa þar án þess að detta. Hjólastólar geta oltið, brotnað, beyglast, sprungið dekk á þeim og okkur finnst ekki gott að fólk sem þarf að nota hjólastóla þarf að fara út á götu útaf því að gangstéttin er í rústi. Þar er hætta á að bílar keyri á þau, þau stoppa umferðina og það gæti allskonar gerst.

Gangstéttarkantar eru sumir of háir og brotnir og það getur verið hættulegt að hjóla upp og niður af þeim. Maður getur meitt sig, hjólin geta skemmst og þetta er hættulegt.

Það þarf að mála kanta gula.

Það þarf að mála línurnar á miðja götuna því þar eru engar línur. Línurnar eru til að sýna bílstjórum hvar þeir eigi að keyra.

Það vantar perur í suma ljósastaura. Það getur verið hættulegt að hafa ekki ljósin fyrir bílstjórana þegar þeir keyra í myrkrinu á næturnar. Það getur verið hættulegt fyrir alla sem eru að ganga eða hjóla líka.

Okkur finnst líka vanta ruslatunnur á marga staði. Þar er hægt að henda rusli og hundaskítspokum svo að ruslið sé ekki á götunni og útum allt og gerir bæinn subbulegan. Sumstaðar eru staurar fyrir ruslatunnur en tunnurnar eru horfnar.

Það þarf að mála gangbrautirnar og margt fleira.

Við bjóðum fram aðstoð og vinnu ef við getum gert eitthvað. Það sem við fáum í laun er að bærinn okkar verður fallegur á ný.

Við vonum að þú samþykkir þetta og að bærinn okkar verði snyrtilegur.

Takk fyrir okkur, kær kveðja 2. bekkur í Grunnskóla Hornafjarðar.