Frekari breytingar frá og með 24. mars

23. mar. 2020

Í framhaldi af hertari skilyrðum á samkomubanni sem heilbrigðisráðherra setti í 22. mars þá verða gerðar eftirtaldar breytingar í Grunnskóla Hornafjarðar frá og með 24. mars.

Öllum bekkjardeildum í 6. – 10. bekk verður tvískipt frá og með morgundeginum og mætir einungis annar helmingurinn í skólann á dag en hinn helmingurinn næsta dag. Þetta gerir okkur kleift að halda tveggja metra reglunni hjá nemendum í eldri bekkjum eins og ætlast er til. Í dag munu umsjónarkennarar þessara bekkja senda foreldrum og nemendum lista yfir það hver er í hvaða hóp og hvenær hver hópur á að mæta. Þeir sem ná að skipta bekkjunum áður en þeir fara heim láta þá hópa vita.

Nemendur sem eru heima fá fyrirmæli í gegnum mentor um það í hverju þeir eiga að vinna. Margir þeirra gætu líka verið að vinna í gegnum Google Classroom.

Nemendur í 6. – 10. bekk ættu allir að koma með námsbækurnar sínar heim í dag.

Skólastarf hjá 1. – 5. bekk helst óbreytt enn um sinn.

Ef til þess kemur að grípa þurfi til skerðinga á skólahaldi hjá yngstu börnunum þá verður samt sem áður haldið úti eins miklu skólastarfi og mögulegt er fyrir börn foreldra í forgangshópum. Þá er átt við börn í leikskóla og 1. og 2. bekk. Þetta er gert til þess að hjálpa til við að halda nauðsynlegri þjónustu gangandi s.s. heilbrigðisþjónustu, löggæslu, sorphirðu og ýmsu fleiru.

Nú eru þeir foreldrar sem tilheyra þessum forgangshópum beðnir um að skrá sig á forgangslista almannavarna vegna neyðarþjónustu. Það er gert í gegnum Island.is.

Skólastarf í þessum breyttu aðstæðum hefur gengið vel og nemendur og starfsmenn æðrulausir og hjálpast að við að láta hlutina ganga upp.

En eins og þið vitið þá breytast hlutirnir hratt og við tökum bara einn dag í einu.

Bestu kveðjur og gangi ykkur öllum vel